13.02.1967
Efri deild: 36. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í B-deild Alþingistíðinda. (359)

83. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þm. eru vanir því nú í mörg ár, að um þetta leyti ársins er flýtt í gegnum þingið frv. um að breyta samkomudegi þingsins það ár, færa hann frá 15. febr. fram til októberbyrjunar. Þetta varð til þess, að í haust ákvað ríkisstj. að breyta til, að bera fram till. um að breyta því ákvæði stjskr., sem heimilt er að breyta með lögum, að samkomudagurinn skuli vera 15. febr., ef ekki verður öðruvísi ákveðið, og færa það aftur til 10. okt.

Málið hefur því miður tafizt nokkuð í hv. Nd., en þar voru allir sammála um afgreiðslu þess, — einungis fyrir vangá, að því var ekki hraðað meir. Þess vegna kemur þessi till. nú, ef svo má segja, á síðustu stundu fyrir þessa hv. d. Ég hygg, að að athuguðu máli geti enginn haft á móti því, að það sé betra að spara sér þessa árlegu löggjöf, og því sé skynsamlegra að fallast á frv. í því formi, sem það er nú, heldur en að hafa það með þeim hætti, sem undanfarið hefur verið og hefur leitt til þess, að þessa breyt. hefur þurft að gera á hverju einasta ári um langan tíma.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta. Um málið var enginn ágreiningur í Nd., þó að það hafi tafizt, en það þarf í síðasta lagi að afgreiðast frá þessari hv. d. á morgun. Hvort hún vill skipa í það nefnd og þá með það fyrir augum, að hún ljúki störfum í dag, eða afgreiða það nefndarlaust, það læt ég út af fyrir sig afskiptalaust. Í Nd. var það hv. allshn., sem hafði um málið að fjalla, og ef málið yrði sent hér til nefndar, þá væri eðlilegt, að það væri sent til hinnar sömu nefndar.