28.10.1966
Efri deild: 8. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í B-deild Alþingistíðinda. (36)

34. mál, almannatryggingar

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég harma það, að það traust, sem hv. 9. þm. Reykv. hafði á mér í upphafi ræðunnar, var aðeins orðið að nokkru trausti í lokin. En ég vona, að það endurreisist á ný síðar meir, og vænti þess, að hann skorist ekki undan samstarfi um þessi mál, sem vissulega eru mjög veigamikil. En það eru sérstaklega tvö atriði í ræðu hans, sem ég vildi leiðrétta hér, svo að þau stæðu ekki ómótmælt í þingtíðindum.

Það er í fyrsta lagi það, að grg. með þessu frv. sé sérstök grg. ríkisstj. Það tók ég sérstaklega fram í ræðu minni, enda er það upphaf aths. með frv., að þetta er grg. þeirrar samninganefndar, sem fór með samningana við læknana, og að sjálfsögðu átti fulltrúi ríkisstj. sæti í þeirri n. En hvorki frv. né grg. er samið af ríkisstj. eða fyrir hennar atbeina sérstaklega, heldur er hér um að ræða efndir á samkomulagi, sem gert var í læknadeilunni s.l. sumar.

Og svo er annað atriði, sem hv. þm. lagði sérstaka áherzlu á, að deilan við lækna á s.l. sumri hefði ekki snúizt um kjör. Á þetta var alveg þrautreynt, og það var vel ofan í það farið af öllum færustu mönnum, sem hægt var í það mál að skipa, hvort hér væri virki­ lega um launadeilu fyrst og fremst að ræða eða hvort starfsaðstaðan væri aðalatriðið.

Starfsaðstaðan hafði verið höfð á oddinum í öllum þessum viðræðum. En það kom í ljós á svo óyggjandi hátt, að ekki verður þar staðreyndum um þokað, að deilan var fyrst og fremst kjaradeila. Þegar læknar staðfestu þetta með samfelldum uppsögnum sínum úr starfi, þrátt fyrir að þeim hefði verið boðin endurskoðun á öllum starfsháttum, var það sannað, að deilan var fyrst og fremst um kjör, en ekki um starfsaðstöðuna. Starfsaðstaðan var að vísu þeirra frumkröfur, en í raun komust þær kröfur í aðra röð, launakjörin gengu fyrir.

Ég vil ekki hafa um þetta fleiri orð, en það var sannað í sjálfri deilunni, svo að almenningi var ljóst, að deilan snerist fyrst og fremst um þetta atriði. Og það, að læknar hafi aldrei hótað verkfalli, kann í orðsins fyllstu merkingu að eiga við einhver rök að styðjast. En á því að boða verkfall með tilskildum fresti skv. vinnulöggjöfinni, eins og verkalýðsfélög gers, og svo hinu, að leggja niður vinnu á skipulegan hátt, eins og læknarnir gerðu í sumar, á því sé ég í praxís ekki stóran mismun fyrir sjúklingana, sem þeir eru að vitja á þessum stöðum.

Það er út af fyrir sig alveg rétt hjá hv. þm., að læknarnir sögðu aldrei: Við ætlum að hætta að hjálpa sjúkum mönnum. — En þeir gerðu það bara ekki á þessum sjúkrahúsum, það voru þeirra svör, og ekki á vegum Sjúkrasamlags Reykjavíkur, eins og hann sagði hér áðan.

Þá fannst mér ein af niðurstöðum hans í sambandi við þetta, að slík átök sem þarna áttu sér stað í sumar bitnuðu mest á skjól­ stæðingum læknanna, þ.e. sjúklingunum. Hann verður að afsaka það, þó að mér finnist lykta þarna svolítið af sömu rökunum og sí og æ er beint gegn verkalýðsfélögunum, hvort sem það eru talin láglaunafélög eða millilauna­ félög, að verkfallið bitni ekki fyrst og fremst á vinnuveitendunum, það bitni á þjóðinni allri. Þetta eru nákvæmlega sömu rök og atvinnurekendur beita í slíkum deilum. Vitanlega bar að sjá svo um, að þessi kostnaður til heil­ brigðismála yrði innan þess ramma, sem Alþingi hafði ákveðið með fjárlögum, og skylda ríkisstj. að gera það. Ég skil aftur ekki þau rök, að á sama tíma sem allir flýja landsbyggðina vegna læknisleysis og slæmrar heilbrigðisþjónustu þar og vilja allir vera í Reykjavík, þá sé þar, eins og hv. þm. sagði, hreint svartnætti í heilbrigðismálum. Þetta samrýmist ekki í mínum kolli. En það kann að vera hægt að fá frekari skýringar á þessu, að menn vilji fara til þess staðar, þar sem svartnætti ríki í heilbrigðismálum, á sama tíma sem þeir eru að flýja lélega heilbrigðisþjónustu á öðrum stöðum á landinu. Enda er sannleikur málsins sá, að til heilbrigðismála hefur af opin­ berri hálfu aldrei verið varið hlutfallslega hærri fjárhæð en í tíð núverandi ríkisstj. Þetta veit ég, að hv. þm. fellst á, ef hann eftir rólega yfirvegun skoðar þessi mál á réttan hátt. Það kann að vera hægt að deila um það, hvernig þessu fé hefur verið varið í einstökum atriðum. En hitt er eigi að síður staðreynd, sú hærri upphæð til þessara mála hefur ekki áður verið veitt, hlutfallslega hærri upphæð.

Hann skoraði mjög á mig að beita mér fyrir því, að fram færi endurskoðun á starfsemi sjúkrasamlaganna og tryggingalaganna. Nýlega hefur slík endurskoðun farið fram, og þótt að sjálfsögðu verði aldrei endanlega gengið frá jafnvíðtækri og viðkvæmri löggjöf og tryggingalöggjöfin er og lögin um sjúkrasamlögin og þau þurfi sífellt að vera í endurskoðun og athugun til að svara tímans kröfum, þá hefur stundum liðið lengri Umi á milli endurskoðana á þessum ákvæðum heldur en verið hefur nú. Það er hins vegar sjálfsagt og rétt að leiða hugann að því, ef þar yrði bætt eitthvað um frá því, sem kann að vera ábótavant í dag, þá er eins og ég segi sjálfsögð skylda og eðlilegt, að sífelld og vökul endurskoðun sé á ýmsum ákvæðum þessara laga, jafnvíðtæk og þau eru.