31.10.1966
Neðri deild: 9. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í B-deild Alþingistíðinda. (368)

40. mál, vernd barna og ungmenna

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Síðasta Alþ. samþykkti ný lög um vernd barna og ungmenna. Samkv. þeim l. bar að skipa nýtt barnaverndarráð. Formaður þess hefur verið undanfarin 18 ár Sveinbjörn Jónsson hrl. Þegar ég ætlaði að endurskipa hann samkv. hinum nýsamþykktu l., var mér bent á, að samkv. orðalagi l. væri það ekki heimilt, vegna þess að sú breyting hafði verið gerð frá fyrri l., að formaður barnaverndarráðsins skyldi vera embættisgengur lögfræðingur, en í löggjöfinni áður hafði aðeins staðið, að formaður barnaverndarráðs skyldi vera lögfræðingur. En svo vildi til, að Sveinbjörn Jónsson var einmitt nýorðinn sjötugur eða 71 árs og gat því ekki talizt embættisgengur lögfræðingur lengur. í mínum huga var það alltaf tilætlunin að fara þess á leit við þann ágæta lögmann að gegna áfram þessu starfi, og tjáði hann sig reiðubúinn til þess.

Ég held, að engum hafi hugkvæmzt það eða dottið það í hug, þegar þessi smávægilega breyting var gerð á fyrri barnaverndarlögum, að lögfræðingur skyldi vera embættisgengur, að það mundi hafa í för með sér, að ráðh. yrði ekki unnt að endurskipa þann mann, sem með miklum sóma hefur gegnt formennsku í barnaverndarráði um hvorki meira né minna en 18 ára skeið. Þess vegna voru þau brbl., sem hér eru nú lögð fyrir hv. d., gefin út, en efni þeirra er það, að felld er niður sú krafa, að lögfræðingur skuli vera embættisgengur, og greinin orðuð eins og hún áður var í gömlu barnaverndarlögunum, að formaðurinn skuli vera lögfræðingur. Vona ég, að hv. d. fallist á þessi rök mín fyrir þessum brbl.

Að svo mæltu leyfi ég mér að óska þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.