28.10.1966
Efri deild: 8. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í B-deild Alþingistíðinda. (37)

34. mál, almannatryggingar

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég verð að játa það, að mig furðaði mjög á því, að jafnhógvær og sanngjarn maður og hv. 9. þm. Reykv. skyldi geta flutt þá endemisræðu sem hann flutti hér áðan. Og mér fannst það furðulegt einmitt úr hans munni að heyra slík ummæli eins og hann viðhafði varðandi afstöðu ríkisvaldsins til heilbrigðismálanna, sem vissulega eru einn þýðingarmesti málaflokkur, sem við er að fást á hverjum tíma, vitandi þarf fullkomlega, að það, sem hann fór með, var allt í meginefnum rangt.

Hæstv. félmrh. hefur á það bent, sem er staðreynd, sem ekki verður hrakin, að það hafa aldrei verið gerð jafnmikil átök í heil­ brigðismálum og nú á síðustu árum. Og ef hv. þm. vill hafa það við að athuga fjárveitingar til þeirra mála, og ekki aðeins fjárveitingar, heldur einnig lántökur, sem átt hafa sér stað í stórum stíl í sambandi við sjúkrahúsabyggingar síðustu árin, getur hann komizt að raun um, að það er enginn tími sambærilegur hér síðustu áratugina við það, sem nú er verið að gera. Og ég get látið mér nægja í því sambandi að benda til fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir Alþ., þar sem fjárveitingar til ríkisspítalanna einna eru þar auknar um yfir 60%, sem er um þreföld sú almenna hækkun, sem er á öðrum kostnaðarliðum fjárl. Hér er því mælt af fullkominni óbilgirni, og ég harma það mjög, að það skuli vera læknir, sem við­ hefur slík ummæli, því að sízt af öllu ætti slík ósanngirni að heyrast úr þeirri átt. En það er kannske táknrænt fyrir þann anda, sem sums staðar örlar á hjá þessari ágætu og mætu stétt, að líta á þessi mál nokkuð öðrum augum en hægt hefur verið að ætlast til af henni.

Vissulega hefur íslenzk læknastétt á undanförnum árum og áratugum unnið ómetanlegt starf í okkar landi og oft við hin erfiðustu skilyrði, og það má segja, að starfsskilyrði hennar séu ekki nógu góð enn í dag. En ég vil þó ekki taka aftur neitt af því, sem ég sagði í minni fjárlagaræðu, og ég harma það mjög einmitt vegna læknastéttarinnar sjálfrar, að hún skuli hafa tekið upp þau vinnubrögð, sem nú hafa verið tekin upp af vissum hópi hennar, — ég tek það fram, að þar á ekki öll læknastéttin óskilið mál, — þar sem aðstaðan hefur óneitanlega verið notuð til þess að knýja fram kaupkröfur, sem ekki hefði af öðrum ástæðum verið gengið að og engin sanngirni var að ganga að. Og ég vil benda hv. þm. á það, að eitt af málgögnum hans sagði, eftir að læknadeilan var leyst, að nú hefðu slíkir samningar verið gerðir við læknastétt landsins og slíkar hækkanir á þeirra kjörum, að það hlyti að verða öðrum stéttum fordæmi um það, hvers þær ættu að krefjast. Og það hefur vissulega örlað á því í sambandi við þá kjarasamninga, sem nú hefur verið rætt um, að það hefur verið vitnað til hinnar óhæfilegu hækkunar, sem hefur orðið á launakjörum lækna.

Ég skal fúslega segja það, að það væri gleðilegt, ef hægt væri að greiða læknum þau laun, sem þeir fóru fram á og voru eitthvað frá 1 millj. til 11/2 millj. kr. á ári. Það væri vissulega ánægjulegt, ef þjóðfélagið gæti gert það. En ég held nú ekki, að það sé hægt að halda uppi miklum æsingi út af því, að það hafi sýnt mikla óbilgirni, að ekki hafi verið orðalaust gengið að slíkum kröfum, og halda því fram, eins og hv. þm. gerði, að deilan í sumar hafi aðallega veríð um starfskjör. Það er nánar sagt næsta broslegt fyrir þá, sem stóðu í þessari deilu og vissu nákvæmlega, um hvað hún snerist. Það var haft á oddi í byrjun, að það væru starfskjör, og það var sett sérstök n. til þess að rannsaka, hvernig ætti að bæta starfskjörin. Og það var vissulega fullur velvilji á því að ganga til móts við allar sanngjarnar kröfur lækna í því efni, því að það er vitanlega eðlilegt, að menn geri kröfur til þess að hafa viðunandi starfsaðstöðu. En það bara kom á daginn, að starfsaðstaðan var algert aukaatriði, enda var, þegar hin endanlega kröfugerð kom, starfsaðstaðan síðast meðal þeirra liða, sem kröfugerðin fjallaði um.

Því miður stóðu málin þannig, að læknar ætluðu að ganga út af spítölunum, hvort sem það er kallað . verkfall eða ekki. Þeir sögðu upp með löglegum hætti sínum störfum. En þegar heill hópur segir upp, eins og þarna var um að ræða, þá er það auðvitað sambærilegt við verkfall og ekkert annað. Og miðað við þá aðstöðu, sem ríkisstj. var sett í, að gæta hags þess fólks, sem lá sjúkt á spítölunum, og standa andspænis því, að læknarnir væru allir að ganga þaðan út, svo sem einnig þeir gerðu, því að það voru aðeins yfirlæknarnir, sem stóðu alllangan tíma í því að sinna sjúklingum á spítölunum, vegna þess að hinir læknarnir fóru allir, held ég, að það hafi legið nokkurn veginn ljóst fyrir, að það var ekki um annað að ræða en beygja sig fyrir því, sem ég endurtek hér, að var algerlega andstætt því, sem ríkisstj, hefur talið viðhlítandi; að fallast á það, að þessir læknar brytust undan launakerfi ríkisins og við þá væri samið með sérstökum hætti, langt fyrir ofan þau kjör, sem þeir læknar hafa, sem eru innan launakerfisins. Og það er vissulega vandamál út af fyrir sig, að það þurfi að búa miklu lakar að þeim læknum, sem þó beita ekki aðferðum eins og þarna var gert.

Ég hef enga löngun til þess að fara nánar út í þessa sálma. En ég mundi halda, að það væri sízt til neins framdráttar fyrir þessa mætu menn, sem þarna áttu hlut að máli, að sé verið að breiða sig út yfir þetta mál með árásum á skilningsleysi ríkisstj. eins og hér hefur verið gert af þessum hv. þm. Það er hægt að rekja þetta mál miklu nánar, ef þess er óskað, og ég hika ekkert við, eins ag ég sagði, að standa við allt, sem ég sagði í minni fjárlagaræðu, og ég endurtek það hér að þessu gefna tilefni frá þessum hv. þm., sem er læknir, að ég harma það mjög, að læknastéttin hafi kosið að taka upp slíka starfshætti sem hér hefur verið gert. Hún á fullkomna kröfu á því, að sanngjörnum óskum hennar sé mætt. En þegar hún notar þessa sérstæðu aðstöðu, sem læknastéttin hefur, til þess að brjóta niður það kerfi, sem með löglegum hætti hefur verið á komið með vilja Alþ. hér á Íslandi, þá tel ég, að þar sé gengið lengra en góðu hófi gegnir, með allri virðingu fyrir þessum mætu og ágætu mönnum. Þeir eiga vissulega að hafa góð kjör, mega hafa það og eiga að hafa það, en þeir mega ekki nota þá aðstöðu, sem er sérstæð og þeir .hafa í þjóðfélaginu; til þess að beita það neinu ofríki í skjóli þess, að það verður að tryggja landsmönnum viðhlítandi læknaþjónustu, í rauninni hvað sem hún kostar. Og að lokum hlýtur það auðvitað að koma niður á almenningi í landinu; jafnt þessi sem önnur þjónusta, hversu dýr hún er, þannig að það er þjóðin sjálf, sem að lokum að sjálfsögðu verður að greiða fyrir það, sem verður í þessum efnum sem öðrum hliðstæðum.