12.12.1966
Efri deild: 23. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í B-deild Alþingistíðinda. (375)

40. mál, vernd barna og ungmenna

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Nd. og var samþ. þar með shlj. atkv. að einróma meðmælum hv. menntmn. deildarinnar.

Efni málsins er einfalt. Þegar ný löggjöf um vernd barna og ungmenna var undirbúin fyrir 2–3 árum, gerði sú n., sem frv. undirbjó, ráð fyrir því, að tekið væri í lögin ákvæði um hámarksaldur þeirra manna, sem gætu setið í barnaverndarráði og barnaverndarnefndum. Þessi ákvæði frumvarps undirbúningsnefndarinnar voru felld niður í hv. Nd., en eitt ákvæði hélzt þó, að ég hygg að sé óhætt að segja fyrir misgáning hreinan. Ákvæði fyrr í lögunum hafði verið um það, að formaður barnaverndarráðs skyldi vera lögfræðingur, en undirbúningsnefndin hafði breytt þessu ákvæði þannig, að hún sagði: „Formaður barnaverndarráðs skal vera embættisgengur lögfræðingur.“ En krafan um embættisgengi táknar þarna það, að formaður ráðsins má ekki vera eldri en 70 ára. Ég hygg sannast að segja, að menn hafi bara ekki athugað, um leið og menn felldu almennu ákvæðin um hámarksaldur meðlíma barnaverndarráðs og barnaverndarnefndar niður, að ákvæði um hémarksaldur fólst í kröfunni um það, að formaður barnaverndarráðs skyldi vera embættisgengur lögfræðingur. Mér var a.m.k. ekki ljóst, hvað þetta þýddi, því að þegar ég ætlaði að fara að skipa formann ráðsins og endurskipa þann mann, sem gegnt hefur því starfi í 17 ár, Sveinbjörn Jónsson hrl., var mér af embættismönnum bent á, að ég mætti ekki skipa hann, því að hann væri nýorðinn sjötugur. En hann var tilbúinn að gegna þessu starfi áfram, enda hefur hann gegnt því með miklum sóma um langt skeið, og þegar yfirlýsing hans um það lá fyrir, var það ráð tekið að gefa þessi brbl. út, sem hér er nú leitað staðfestingar á. Í þeim felst ekkert annað en það, að ákvæðin um formann barnaverndarráðs eru eins og þau hafa verið undanfarna áratugi, að hann skuli vera lögfræðingur, en þurfi ekki að vera embættisgengur, eins og komst inn í frv., þegar það var afgreitt á sínum tíma. Þetta er efni málsins.

Ég leyfi mér, herra forseti, að óska þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og til hv. menntmn.