21.02.1967
Efri deild: 42. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í B-deild Alþingistíðinda. (384)

62. mál, verðlagsráð sjávarútvegsins

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Sú breyt. á l. um verðlagsráð sjávarútvegsins, sem með frv. þessu er lagt til að gerð verði á verðlagsráðslögunum, er í því fólgin, að verðlagsráðið ákveði verð á fiskúrgangi, en allt til þessa má segja, að síldar- og fiskimjölsverksmiðjurnar hafi sjálfar verðlagt þetta hráefni og metið, hversu hátt verð þær gætu greitt fyrir fiskúrganginn hverju sinni. Út af þessu hefur komið í ljós óánægja hjá þeim aðilum, sem hráefnið selja, og hafa krafizt þess, að verðlagsráð taki málið í sínar hendur og verðleggi fiskúrganginn, eins og nú á sér stað um aðrar greinar sjávarútvegsframleiðslunnar yfirleitt.

Frá Félagi síldar- og fiskimjölsverksmiðja á Suður- og Vesturlandi barst nefndinni erindi, þar sem þess er óskað, að deild sú í verðlagsráði sjávarútvegsins, sem kemur til með að fjalla um verðlagningu á fiskúrgangi til mjölvinnslu samkv. frv. þessu, verði einnig látin ákveða verð á úrgangsfiski til mjölvinnslu. N. er sammála um að verða við umræddri ósk félagsins og hefur í samræmi við það leyft sér að bera fram brtt. á sérstöku þskj., en að öðru leyti mælir n. með því, að frv. verði samþ. óbreytt eins og það liggur fyrir.