02.03.1967
Neðri deild: 48. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í B-deild Alþingistíðinda. (391)

62. mál, verðlagsráð sjávarútvegsins

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 258, er komið til þessarar hv. d. frá Ed., þar sem það var samþ. með shlj. atkv. og gerð á því aðeins ein minni háttar breyting. Frv. er fram borið vegna þess að það hefur sýnt sig við ákvörðun fiskverðs á undanförnum árum, að það muni vera nauðsynlegt, að verðlagsráð sjávarútvegsins fjalli um verð á fiskúrgangi og úrgangsfiski, jafnframt því sem það fjallar um verð á ferskfiski. En þegar l. um verðlagsráð sjávarútvegsins voru upphaflega sett, voru þau eingöngu miðuð við það, að ráðið fjallaði um verð á ferskfiski. Fiskúrgangur er það mikill hluti af fiskinum, að það hefur mikil áhrif á sjálft fiskverðið, hvernig fer um sölu á fiskúrganginum og úrgangsfiskí. Þess vegna er nú lagt til í þessu frv., að verðlagsráðið fjalli einnig um verð á þeim afurðum. Eins og frv. ber með sér, er gert ráð fyrir, að tekin verði upp hliðstæð skipun verðlagsráðs, þegar það fjallar um verð á þessum afurðum, úrgangsfiski og fískúrgangi, eins og á því er, þegar það fjallar um aðrar afurðir, og sé ég ekki ástæðu til að rekja það nánar. Það kemur fram í 2. gr. frv., hvaða aðilar eiga að tilnefna fulltrúa í verðlagsráð, þegar það fjallar um þetta.

Sjútvn. þessarar hv. d. hefur fjallað um frv. og mælir einróma með því, að það verði samþ. eins og það liggur fyrir frá hv. Ed.