28.10.1966
Efri deild: 8. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í B-deild Alþingistíðinda. (40)

34. mál, almannatryggingar

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það er leiðinlegt að þurfa að standa í karpi við þennan hv. þm., og furðar mig með hverrí ræðu hans æ meira á því, hvernig hugarfar hans er, og ég held, að það láti nærri, að það væri engu síður ástæða til að taka það til gagngerðrar endurskoðunar heldur en skipan læknamálanna, því að þegar ályktunarhæfileikinn er kominn á það stig, sem kom hér fram áðan, þegar hann var að vitna í mína ræðu, sem hann ætlaði að láta hjá líða að vísu að vitna í, heldur að leggja mér orð í munn, sem ég hafði aldrei sagt, og segja svo, eftir að hann hafði lesið ummæli, þar sem hvergi var komizt svo að orði sem hann hafði sagt, að það sæju allir, að þetta væri meiningin. Þetta er ekki skemmtilegt að eiga orðræður við menn, sem slík vinnubrögð hafa. Og ég læt enn í ljós mikla undrun mína yfir, að það skuli vera þessi hv. þm., sem það gerir og sýnir, að hann er eitthvað kominn úr jafnvægi í sambandi við þessi læknamál, og get ég út af fyrir sig skilið það, því að þar er hann að verja mjög slæman málstað, þannig að það er eðlilegt, að grípa verði til ýmissa ekki skemmtilegra aðferða í málflutningi. Hann fjölyrti um það, að ég hafi sagt, að ekki hafi með góðu móti verið hægt að koma við þvingunaraðgerðum, og það væri svo fjarstætt að orða þetta svo, að það væri aldrei hægt með góðu móti, vegna þess að þvingunaraðgerðir væru alltaf neyðarúrræði. Þetta brýtur suðvitað ekki í bág hvað við annað. Þvingunaraðgerðir eru alltaf neyðarúrræði, það er vitanlega rétt. En það getur verið með mismunandi góðu móti hægt að koma þeim við. Og þetta hélt ég, að væri bara ósköp einföld málskýring og þetta væri ekki svo flókið orðalag, að ekki skildi það hver sæmilega meðalgreindur unglingur, hvað þá virðulegur og ágætur langskólagenginn maður.

Þetta sýnist mér ástæða til þess að harma, að svona málflutningur skuli vera hér viðhafður. Ég mælist ekkert undan neinu af því, sem ég hef sagt, og eins og ég hef áður tekið fram, stend við það hvar sem er og tel míg ekki hafa mælt af nokkrum illvilja í garð læknastéttarinnar í því, sem ég sagði. Ég tel, að læknastéttinni sjálfri hafi missézt varðandi sínar athafnir á þessu ári og hún sé komin inn á hættulega braut. Hún hefur notið almennrar samúðar og skilnings hjá þjóðinni fyrir sín miklu og merkilegu störf, og hún þarf að njóta þeirrar samúðar. En því miður vantar verulega á, að læknastéttin hafi nú þá samúð, sem hún þarf að hafa, fyrir það, hvernig að hefur verið farið nú upp á síðkastið. Og ég vona það innilega, að af þeirri braut verði vikið. Og eins og ég sagði í minni fjárlagaræðu, vænti ég þess, að þeir mætu og ágætu menn, sem íslenzka læknastétt skipa, — og þeir eru vissulega margir í fremstu röð, ekki aðeins á íslenzkan mælikvarða, heldur þótt víðar sé leitað, — leggi fram sitt lið til þess að finna viðhlítandi skipulag á okkar læknaþjónustu, því að sannleikurinn er sá, og á það er einnig vert að benda, að þær aðgerðir, sem Alþ. hefur gert á síðustu árum til þess að bæta læknaþjónustu strjálbýlisins, m.a. með því að bæta kjör lækna þar mjög verulega, þær aðferðir eru að renna út í sandinn vegna kröfugerðar lækna hér í Reykjavík og vegna þeirrar feikigóðu aðstöðu, sem aragrúi lækna hér hefur. Því miður hafa þeir horfið frá Sjúkrasamlaginu, og það er vert að taka undir það með hv. þm., að það þarf að rannsaka mjög nákvæmlega, af hverju það er. Það er fyllilega satt og rétt. Það er alvörumál, að það skuli jafnvel vera erfiðara að ná í lækni hér í Reykjavík heldur en úti á landi, þar sem þó er ekki sannarlega auðvelt fyrir fólk að fá lækna. En það er þó í ótal tilfellum, að það getur verið hreint vandamál þrátt fyrir þann aragrúa lækna, sem er í Reykjavík, að geta náð til læknis. Þetta er vissulega áhyggjuefni, og það er tvímælalaust eitt mesta vandamál okkar í dag, að heimilislæknisþjónustan er að verulegu leyti að fara í rúst, það er hárrétt.

Ég er enginn sérfræðingur. Það var sagt hér áðan, að ríkisstj. hefði sett metnað sinn í að setja sig ekki inn í læknamálin og ég hefði eiginlega verið harla ánægður yfir því að geta sagt, að ég hefði ekki vit á þessu. Það er síður en svo, að ég sé ánægður yfir því. Ég harma það. En hins vegar er þetta svo sérhæft, eins og t.d. sjúkrahúsamálin, nauðsynlegt fólkshald þar og annað þess konar að það er erfitt að setja sig inn í þetta, og þess vegna hefur það verið gert, sem frá sjónarmiði hv. þm. ætti ekki að virðast nein neyðarúrræði, að það hefur yfirleitt verið farið algerlega eftir till. læknanna varðandi starfsmannahald hér á ríkisspítölunum. En hin hlið málsins, sem ég tel ekki síður alvarlega, og má segja, að ég sé þá farinn að hætta mér út á hálan ís í efni, sem ég hef ekki mikla þekkingu á, en ég hef þó tilfinningu fyrir því og hef rætt um það við marga ágæta lækna, að það sé rétt, að það sé áhyggjuefni, að hér séu allir að verða sérfræðingar. Það eru líka ástæður fyrir því, að menn vilji verða sérfræðingar, því að þeir taka töluverða þóknun fyrir það að vera sérfræðingar. En það hefur jafnvel verið talað um, að það væri e.t.v. nauðsynlegt að gera heimilislæknisstörfin að sérfræðingagrein, og ég hef lesið það eftir fræga lækna, að eitt grundvallaratriði heilsugæzlunnar sé heimilislæknisstörfin, það sé hin almenna læknisþekking, sem ekki sé sérfræðibundin, það sé að sjálfsögðu hin brýnasta nauðsyn að hafa sérfræðinga í öllum greinum, en þeir sérhæfa sig aðeins í þeim hluta líkama eða sálarlífs, sem þeir eru sérfræðingar í, en hafa ekki þá yfirlitsþekkingu, sem hinn almenni heimilislæknir þarf að hafa, læknirinn, sem um leið er vinur og ráðleggjandi sjúklingsins, því að ég hygg það rétt vera, að það sé talið eða almennt viðurkennt að læknum, að það sé ekki aðeins sjúkdómurinn sjálfur, heldur séu það ótalmörg önnur bæði ytri og innri atvik, sálræn, og aðbúnaður á ýmsan hátt, sem hafi ekki síður þýðingu varðandi heilsugæzluna. Og það getur ekki nema að litlu leyti fallið í hlut sérfræðinganna að veita þessa aðstoð, heldur verður það að vera heimilislæknirinn. Og ég er hv. þm. algerlega sammála um, að það er hin brýnasta nauðsyn að gera sér grein fyrir því, hvernig stendur á, að það er að verða slíkt vandamál, því að ég hygg, að það sé rétt, að það sé illmögulegt, ef ekki ómögulegt fyrir nýja aðila núna að fá samlagslækni, svo að það er vissulega atriði, sem er til endurskoðunar og athugunar. Eins og hæstv. félmrh. sagði, ætti það að vera allra áhugamál að gera sér grein fyrir því. Það eru uppi alls konar sögusagnir og sumar misjafnlega vinsamlegar um það í garð læknanna, af hverju þetta stafi, og þess vegna held ég, að það væri æskilegt, að þetta yrði krufið til mergjar.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja þetta, og það er rétt, sem hæstv. forseti sagði hér áðan, og læknadeilan er ekki til umr., og ég bið afsökunar, að svo miklu leyti sem ég hef farið hér í mínum ræðum algerlega út fyrir efni þessa máls. Ég vænti, að það verði afsakað af þeirri ástæðu, að hv. þm. kaus að nota meginhluta ræðu sinnar til að víkja hér persónulega að mér.