20.10.1966
Neðri deild: 5. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í B-deild Alþingistíðinda. (410)

22. mál, námslán og námsstyrkir

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í þessu frv. er gert ráð fyrir mjög gagngerðri breytingu á núgildandi skipan opinberra námslána og námsstyrkja til stúdenta við Háskóla Íslands og íslenzkra námsmanna erlendis.

Núgildandi lög um þessi efni eru frá árinu 1961. Í þeirri lagasetningu fólst á sínum tíma mikil endurbót frá því, sem áður hafði verið. Fastari skipan var þá komið á lánveitingar og styrkveitingar, og í kjölfar þessarar lagasetningar varð veruleg aukning á bæði lánum og styrkjum til íslenzkra námsmanna. Engu að síður hefur það skipulag, sem þá var upp tekið, ekki reynzt eins æskilegt og þá var vonað, og enn er þörf verulegrar aukningar og stuðnings við íslenzka námsmenn bæði heima og erlendis. Af þessum sökum skipaði ég í júní 1964 nefnd til að endurskoða þessi lög, og skilaði hún áliti í sept. s.l. Í nefndinni áttu sæti Árni Gunnarsson fulltrúi í menntmrn., Baldvin Tryggvason framkvstj. og fulltrúi í menntamálaráði, Gunnar Vagnsson deildarstjóri, ritari lánasjóðs stúdenta, Hörður Einarsson, sem þá var stud. jur. og fulltrúi í stúdentaráði, Jón Steffensen prófessor, sem þá átti sæti í háskólaráði, Sigtryggur Klemenzson ráðuneytisstjóri í fjmrn. og Þórir Bergsson cand. act., ráðnautur Sambands ísl. námsmanna erlendis. Í nefndinni áttu þannig sæti fulltrúar bæði menntmrn. og fjmrn., menntamálaráðs, sem ráðstafað hefur lánum og styrkjum til íslenzkra námsmanna erlendis, háskólaráðs og íslenzkra stúdenta við Háskóla Íslands og erlendis. Þessi nefnd varð sammála um tillögugerð, og er þetta frv. samhljóða því frv., sem þessi nefnd samdi, að einu atriði frátöldu, sem ég mun víkja að síðar.

Ég skal nú rekja helztu breytingarnar, sem samþykkt þessa frv. mundi hafa í för með sér á núgildandi skipan þessara mála.

Samkvæmt gildandi lögum er stuðningur ríkisins við námsmenn tvenns konar: námslán, sem ekki þarf að hefja endurgreiðslu á fyrr en 3 árum eftir að námi lýkur og eru þá til 15 ára með 31/2% vöxtum, og námsstyrkir, sem ekki þarf að endurgreiða.

Þetta frv. gerir ráð fyrir því, að aðstoð hins opinbera við námsmenn sé áfram fólgin sumpart í hagstæðum lánum og sumpart í styrkjum. Sú breyting er þó gerð varðandi námslánin, að gert er ráð fyrir því, að endurgreiðsla hefjist ekki fyrr en 5 árum eftir að námi lýkur og endurgreiðist lánið þá með jöfnum afborgunum á 15 árum, en vextirnir verði hins vegar 5%. Breytingin yfir í árgreiðslu eða annuitetsgreiðslu veldur auðvitað því, að afborganirnar verða lægri fyrstu árin en verið hefur, en hins vegar hærri síðari árin.

Skv. núgildandi lögum skiptist lánasjóðurinn í tvær deildir: lánadeild námsmanna erlendis og lánadeild stúdenta við Háskóla Íslands. Sérstök stjórn er yfir sjóðnum í heild, og hefur henni verið ætlað að skipta ráðstöfunarfé sjóðsins milli hinna tveggja deilda. Hvor deildin um sig hefur síðan sína eigin stjórn eða sinn eiginn úthlutunaraðila, sem skipt hefur því fé, sem deildirnar hafa fengið, milli umsækjenda. Námslánum til stúdenta við Háskóla Íslands hefur verið úthlutað af sérstakri nefnd, sem í eiga sæti fulltrúar kjörnir af háskólaráði og stúdentaráði ásamt formanni tilnefndum af menntmrh. Námslánum og námsstyrkjum til íslenzkra námsmanna erlendis hefur verið úthlutað af menntamálaráði. Reynslan hefur sýnt, að þessi deildaskipting er ekki heppileg. Hún var ekki tekin upp með lagasetningunni 1961. Áður hafði verið um að ræða sérstaka fjárveitingu til Lánasjóðs ísl. stúdenta við Háskóla Íslands, sem eingöngu veitti námslán, en enga styrki, og fjárveitingu til námslána og námsstyrkja til íslenzkra námsmanna erlendis. Það, sem m.a. var gert með lagasetningunni 1961, var að stofna allsherjar lánasjóð íslenzkra námsmanna, sem fengi fjárveitingar í fjárlögum og gæti tekið lán í bönkum, eins og sjóðurinn hefur gert síðan 1961. Þá var hins vegar ekki unnt að ná samkomulagi um það, að einn aðili úthlutaði námslánum og námsstyrkjum. Þess vegna gerðu lögin ráð fyrir því, að sömu aðilar og áður önnuðust sjálfa úthlutunina, en sjóðurinn fékk hins vegar heildarstjórn, sem tók ákvarðanir um lántökurnar og átti að skipta heildarfénu milli deildanna. Nú eru hins vegar allir aðilar, sem hlut eiga að málí, sammála um, að rétt sé að fella þessa deildarskiptingu niður, að lánasjóðurinn verði í raun og veru ein heild og einn aðili úthluti öllum námslánum og námsstyrkjum, bæði til stúdenta við Háskóla Íslands og til námsmanna erlendis.

Í stjórn sjóðsins eiga skv. þessu frv. að vera einn aðili samkv. tilnefningu háskólaráðs, einn samkv. tilnefningu Sambands ísl. stúdenta erlendis, einn skv. tilnefningu stúdentaráðs Háskóla Íslands, einn skv. tilnefningu fjmrh. og 2 skipaðir af menntmrh, án tilnefningar, og skal annar vera formaður stjórnarinnar, en hinn valinn með hliðsjón af kunnugleika á námi og högum þeirra námsmanna, sem ekki eru stúdentar. Er þannig gert ráð fyrir því, að allir, sem hagsmuna eiga að gæta í sambandi við úthlutun námslána og námsstyrkja, eigi fulltrúa í stjórn lánasjóðsins.

Í gildandi lögum um lánasjóðinn er ekki gert ráð fyrir því, að hliðsjón sé höfð af efnahag námsmanna við ákvörðun námslána. Í þessu frv. er heimilað, að ákvörðun um lán til einstakra námsmanna verði byggð á mati á efnahag þeirra. Ljóst er, að erfitt getur verið að framkvæma slíkt mat af hlutlægni og réttlæti, en ef það tekst, ætti það að tryggja réttlátari skiptingu heildarfjárins, sem lánað er.

Í gildandi lögum er svo fyrir mælt, að ríkissjóður skuli leggja sjóðnum tiltekið lágmarksframlag á fjárlögum, þ.e.a.s. 4 millj. 650 þús. kr. Þetta ákvæði hefur verið þýðingarlaust, því að þegar á næsta ári eftir samþykkt laganna var framlagið ákveðið næstum 1 millj. kr. hærra og er á fjárlögum þessa árs meir en tvöfalt lágmarkið, eða 10.9 millj. kr. Þess vegna gerir þetta frv. ekki ráð fyrir neinu ákveðnu lágmarksframlagi. Í 2. gr. frv. er í stað þess mörkuð sú stefna, að opinber aðstoð við námsmenn nægi þeim til þess að standa straum af árlegum námskostnaði, þegar eðlilegt tillit hefur verið tekið til aðstöðu þeirra til fjáröflunar. Láta mun nærri, að opinber aðstoð við námsmenn nú, þ.e.a.s. samanlögð upphæð lána og styrkja, svari til um það bil helmings þess fjár, sem þeir þurfa á að halda sér til framfærslu, þegar tekið hefur verið eðlilegt tillit til aðstöðu þeirra til fjáröflunar. Núgildandi reglur hafa verið þær, að stúdentar við Háskóla Íslands hafa aðeins fengið námslán en enga styrki, og námslán hafa þeir ekki fengið fyrr en á síðari hluta 2. námsárs. Námsmenn erlendis hafa eingöngu fengið námslán á fyrstu tveim námsárunum, en úr því bæði lán og styrki. Námslánin hafa yfirleitt verið jafnhá öll árin, bæði til stúdenta við Háskóla Íslands og námsmanna erlendis. Ef þetta frv. nær fram að ganga, er ætlunin að gera þá grundvallarbreytingu á úthlutun námslána, að lánin verði vaxandi hluti af umframfjárþörf námsmannsins, eftir því sem lengra líður á námstímann. Er gert ráð fyrir því, að 1. námsárið nemi lánveitingarnar 30% af umframfjárþörfinni, 2. árið 40%, 3. árið 50%, 4. árið 60%, 5. árið 70%, 6. árið 80% og 7. árið 90% af fjárþörfinni, fengju þá námsmenn mismunandi hundraðshluta af heildarumframfjárþörf sinni frá lánasjóðnum eftir því, hversu langt námið væri. Miðað við 3 ára nám fengju menn úr lánasjóðnum 40% umframfjárþarfarinnar, miðað við 4 ára nám 45%, miðað við 5 ára nám 50%, miðað við 6 ára nám 55% og miðað við 7 ára nám 60% umframfjárþarfarinnar. Til viðbótar þessu kæmu síðan styrkirnir, en þeim er framvegis ætlað að verða til þess að jafna aðstöðumun námsmannanna. Mundu þá styrkirnir einkum vera veittir þeim, sem þurfa að greiða verulegan ferðakostnað og há skólagjöld, og þeim, sem hafa erfiða aðstöðu til tekjuöflunar. Tel ég, að stefna sú, sem hér er mörkuð, sé miklu skynsamlegri og réttlátari en sú, sem hingað til hefur verið fylgt. Bæði hækkar nú heildarhlutfallið, sem námsmenn fá frá hinu opinbera til að greiða umframfjárþörf sína, en einkum dreifist þó aðstoðin réttmætar en verið hefur, þannig að hún verður hlutfallslega mun hærri en nú er til þeirra, sem langt nám stunda.

Þá er það eitt mikilvægasta nýmæli þessa frv., að gert er ráð fyrir, að teknir verði upp námsstyrkir til kandídata, þ.e.a.s. til þeirra, sem leggja stund á framhaldsnám að loknu háskólaprófi. Fram að þessu hefur verið mikill skortur á skilyrðum til að styrkja kandídata til framhaldsnáms. Meðan menn hafa verið við háskólanám, hafa menn átt kost á aðstoð, og þegar menn hafa verið orðnir færir til vísindaiðkana eftir talsvert framhaldsnám, hafa menn einnig átt völ á styrkjum úr Vísindasjóði, sem hefur um 4–5 millj. kr. árlega til ráðstöfunar. Þeir, sem að loknu háskólanámi hafa viljað búa sig undir það að verða vísindamenn eða búa sig undir að gegna tilteknum störfum, hafa hins vegar ekki átt neinna fastra styrkja völ. Frv. gerir ráð fyrir, að úr þessu verði bætt. Stjórn lánasjóðsins skal hafa heimild til þess að veita árlega slíka kandídatastyrki. Í þeirri fjárveitingu, sem gert er ráð fyrir árið 1967 til lánasjóðsins, er gert ráð fyrir 1 millj. kr. til slíkra kandídatastyrkja, og er tilætlunin, að þar verði um að ræða 20 styrki að fjárhæð 50 þús. kr. hver.

Önnur mikilvæg breyting, sem gert er ráð fyrir að sigla mundi í kjölfar þessa frv., er sú, að stúdentar við Háskóla Íslands fái framvegis námslán þegar á 1. ári, svo sem verið hefur um námsmenn erlendis, en til þessa hafa stúdentar við háskólann hér ekki fengið námslán fyrr en á síðari hluta 2. námsárs.

Rétt er að gera nokkurn samanburð á raunverulegri námsaðstoð, eins og hún er í ár og hvernig hún mundi verða á næsta ári að óbreyttum lögum og óbreyttu úthlutunarkerfi og hvernig hún verður á næsta ári, ef þetta frv. nær fram að ganga og þær reglur settar skv. því, sem gert er ráð fyrir.

Á þessu ári fá stúdentar við Háskóla Íslands námslán að upphæð 7.4 millj. kr., en námsmenn erlendis námslán að upphæð 10.1 millj. og námsstyrki að upphæð 2.6 millj., eða samtals námsmenn erlendis 12.7 millj. kr. Samanlögð aðstoðin til stúdenta við háskólann hér og námsmenn erlendis nemur því í ár 20.1 millj. kr. Vegna aukins námslánafjölda og hækkandi verðlags mundu lán og styrkir þurfa að vaxa nokkuð á næsta ári, þótt lögin yrðu óbreytt og úthlutunarreglur óbreyttar. Námsaðstoð við stúdenta við Háskóla Íslands mundi á næsta ári að óbreyttum lögum og reglum þurfa að verða 8.8 millj. og lán til námsmanna erlendis 12.3 millj. og styrkir til þeirra 3 millj., eða samtals til námsmanna erlendis 15.3 millj. og þannig samtals til námsmanna yfirleitt 24.1 millj. Námsaðstoðin þyrfti því að hækka á næsta ári, þó að lögum og reglum yrði ekki breytt, um u.þ.b. 4 millj. kr. frá því, sem á sér stað nú í ár.

Ef þetta frv. nær fram að ganga og þær reglur, sem gert er ráð fyrir að settar verði samkvæmt því, munu lánin til stúdenta við Háskóla Íslands hækka upp í 12.1 millj. kr. úr 7.4 millj. Þau munu aukast um 63%, lánin til stúdenta við Háskóla Íslands, frá því sem nú er. Lán til námsmanna erlendis munu verða 13.2 millj., aukast úr 10.1 millj. eða um 31%. Styrkir munu verða 3,5 millj., hækka úr 2,6 millj. eða 35%. Samkvæmt þessu frv. og reglunum, sem gert er ráð fyrir að setja samkvæmt því, mun heildaraðstoðin við íslenzka námsmenn á næsta ári verða 29.8 millj. kr. miðað við 20.1 millj. á þessu ári, og þannig aukast um 48%.

Í fjárlagafrv. fyrir árið 1967 er fjárveitingin til lánasjóðsins miðuð við, að heildarnámsaðstoðin geti orðið þessi, 29.8 millj. kr. Ríkisframlagið er í fjárlagafrv. ákveðið 21.6 millj. kr., en auk þess hefur sjóðurinn eigin tekjur að upphæð 3.4 millj., og gert er ráð fyrir 4.8 millj. kr. lántöku frá bankakerfinu samkvæmt samningum, sem gerðir hafa verið við bankana þar að lútandi, en sjóðurinn mun framvegis geta staðið undir þeim lánum af tekjum sínum.

Eina breytingin, sem gerð var á frv. frá till. n., sem samdi það, snerti einmitt bankalánin. Nefndin hafði gert ráð fyrir því, að ríkissjóður greiddi vexti af bankalánunum, en talið var við nánari athugun, að sjóðurinn gæti staðið undir þeim lánum sjálfur.

Að síðustu er rétt að gera grein fyrir því, hver orðið hefur þróun opinberrar aðstoðar við námsmenn á undanförnum 10 árum. 1956 nam aðstoð til námsmanna erlendis 1 millj. 275 þús., þar af 875 þús. í styrki, en stúdentar við Háskóla Íslands fengu , í sinn lánasjóð 650 þús. kr. Samtals var því heildaraðstoðin 1956 1 millj. 925 þús. kr. 1957 og 1958 voru þessar upphæðir óbreyttar. 1959 varð aukningin á lánum til námsmanna erlendis 1 millj. 350 þús. kr., þar af styrkir 875 þús., en upphæð í lánasjóð stúdenta við Háskóla Íslands óbreytt, 650 þús. kr. Heildaraðstoðin var 2 millj. kr. 1960 verður veruleg aukning. Heildaraðstoðin til námsmanna erlendis var þá aukin upp í 4 millj. 245 þús., þar af styrkir 1 millj. 395 þús., í lánas jóð stúdenta við Háskóla Íslands 2 millj. 350 þús., samtals heildaraðstoð 6 millj. 595 þús. 1961 kemur mesta aukningin í framhaldi af lögunum, sem þá voru sett. Aðstoð við námsmenn erlendis var þá aukin upp í 8 millj. 777 þús., þar af styrkir 2 millj. 320 þús., í lánasjóð stúdenta við Háskóla Íslands 2 millj. 311 þús. Samtals 11 millj. 88 þús. 1962 er aðstoð við námsmenn erlendis 9 millj. 549 þús., þar af styrkir 2 millj. 480 þús., og í lánasjóð stúdenta við Háskóla Íslands 3 millj. 657 þús. Samtals heildaraðstoð 13 millj. 206 þús. 1963 var aðstoðin við námsmenn erlendis 9 millj. 789 þús., þar af styrkir 2 millj. 560 þús., í lánasjóð stúdenta við Háskóla Íslands 4 millj. 409 þús. Heildaraðstoð 14 millj. 198 þús. 1964: til námsmanna erlendis 10 millj. 167 þús., þar af styrkir 2 millj. 104 þús., til stúdenta við Háskóla Íslands 5 millj. 458 þús. Heildaraðstoð 15 millj. 634 þús. 1965: til námsmanna erlendis 11 millj. 730 þús., þar af styrkir 2 millj. 304 þús., til stúdenta við Háskóla Íslands 6 millj. 27 þús. Heildaraðstoð 17 millj. 757 þús. Og nú í ár til námsmanna erlendis 13 millj. 61 þús., þar af styrkir 2 millj. 861 þús., til stúdenta við Háskóla Íslands 7 millj. 600 þús. Heildaraðstoð 20 millj. 661 þús.

Á þessu 10 ára tímabili hefur heildaraðstoðin við námsmenn heima og erlendis m.ö.o. rúmlega tífaldazt, aukizt úr 1 millj. 925 þús. í 20 millj. 661 þús. Hér er að sjálfsögðu ekki um sambærilegar tölur að ræða milli ára, því af verðgildi peninganna hefur breytzt mjög á þessu 10 ára tímabili. Ef tölurnar um heildaraðstoðina við námsmenn eru umreiknaðar skv. þeirri breytingu, sem orðið hefur á meðalvísitölu framfærslukostnaðar á þessu árabili og miðað við verðlagið 1956, þá verður talan á þessu ári 9 millj. 739 þús., og er það rúmlega fimmföldun í raunverulegum verðmætum, þ.e.a.s. óbreyttu verðlagi. En einnig þarf að taka tillit til þess, að námsmönnum hefur að sjálfsögðu fjölgað á þessu tímabili, þannig að þessar tölur sýna ekki aukningu raunverulegrar námsaðstoðar við hvern einstakan námsmann, heldur við námsmennina í heild. Ef tekið er tillit til aukningar námsmannafjöldans, þannig að athugað sé, hver aukningin hefur orðið á hvern einstakan námsmann, þrátt fyrir mikla fjölgun, þá kemur í ljós, að aðstoðin í ár er rúmlega þreföld miðað við það, sem hún var 1956. Vísitala raunverulegs framlags á námsmann er 313.3 á árinu 1966 miðað við 100 á árinu 1956. Það er mjög ánægjulegt, að aðstoðin við íslenzka námsmenn, bæði þá, sem stunda nám við Háskóla Íslands og erlendis, skuli hafa aukizt jafnmikið á undanförnum árum og þessar tölur bera vott um.

Enn mun þessi aðstoð aukast verulega, ef þetta frv, nær fram að ganga. Á hitt vildi ég þó ekki síður leggja áherzlu, að ég tel, að aðstoðin mundi dreifast miklu skynsamlegar og réttlátar en verið hefur, og það af fjórum ástæðum. Í fyrsta lagi mundi aðstoðin vaxa hlutfallslega, eftir því sem námið er lengra. Í öðru lagi yrðu stúdentar við Háskóla Íslands nú í fyrsta sinn settir algjörlega jafnfætis íslenzkum námsmönnum erlendis. Í þriðja lagi yrðu styrkirnir fyrst og fremst notaðir til að jafna aðstöðumun. Og í fjórða lagi ættu kandídatar nú í fyrsta sinn aðgang að föstu lánakerfi.

Í n., sem samdi þetta frv., var ekki aðeins samstaða um efni þess, heldur einnig mikill áhugi á því, að það næði fram að ganga. Ríkisstjórnin ákvað að flytja frv., þótt það hefði í för með sér mjög auknar fjárveitingar úr ríkissjóði til lána og styrkja, og er gert ráð fyrir þeim auknu fjárveitingum á fjárlagafrv. næsta árs. Ég vona, að samstaða verði einnig um þetta mál hér á hinu háa Alþingi.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að óska þess, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.