20.10.1966
Neðri deild: 5. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 622 í B-deild Alþingistíðinda. (414)

22. mál, námslán og námsstyrkir

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Mig langar til að segja örfá orð í tilefni af ummælum hv. þm. Ragnars Arnalds í ræðu hans hér áðan. Hann gagnrýndi þá hækkun vaxta, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, úr 3.5% í 5%. Ég vil benda á, að þessi breyting á lánskjörum hefur verið gerð með samþykki fulltrúa stúdenta við Háskóla Íslands og námsmanna erlendis í þeirri nefnd, sem frv. samdi. Þeir komust eins og aðrir nm. að raun um, að það væri til bóta fyrir sjóðinn að gera þá breytingu, annars vegar að lengja tímann, sem hvorki afborganir né vextir yrðu greiddir, úr 3 árum í 5 ár og breyta endurgreiðsluforminu í annuitetslán, en á móti því kæmi hins vegar hækkun vaxtanna úr 3.5% í 5%, þetta mundi vera sjóðnum til bóta og þar af leiðandi koma námsmönnum nú og framvegis til góða. Það er alger misskilningur, að námsmennirnir séu að greiða einhverjum óviðkomandi aðilum þessa vexti. Þeir eru að greiða sjóðnum vextina. Sjóðurinn er eign námsmannanna. Í raun og veru eru námsmennirnir að bæta hag sinnar eigin lánsstofnunar, þeir eru að greiða sjálfum sér vexti, réttara sagt: þeir, sem fengið hafa lánin og eru komnir væntanlega í góða stöðu 5 árum eftir sitt nám, þeir eru að bæta skilyrði þeirra, sem á eftir koma, til þess að geta fengið hagkvæm lán úr sinni eigin lánastofnun. Ég veit ekki betur en alls staðar annars staðar séu greiddir nokkrir vextir af námslánum, þau séu hvergi, að ég bezt veit, algjörlega vaxtalaus. Reglan er sú, að vextir af námslánunum eru hafðir mun lægri en almennir markaðsvextir, og svo verður enn hér, jafnvel eftir að vextirnir eru komnir upp í 5%.

Þá sagði hv. þm. Ragnar Arnalds, að svo gæti farið, að lán til einhverra námsmanna beinlínis lækkuðu, ef þetta frv. næði fram að ganga. Ég þykist vita, að þarna á hann við þá breytingu, sem gert er ráð fyrir að gera á upphæð námslánanna, að á fyrstu 3 árunum verði lánin hlutfallslega nokkru lægri en þau hafa verið, en hins vegar þeim mun hlutfallslega hærri á seinni árunum. Auðvitað mun væntanleg stjórn lánasjóðsins taka ákvörðun um þessi efni. Þó geri ég ráð fyrir, án þess þó að vilja binda hendur hennar að nokkru leyti, að hún muni halda óbreyttum hætti gagnvart þeim, sem hafið hafa nám sitt, og hinar nýju reglur komi til framkvæmda gagnvart þeim, sem byrja nám, eftir að þetta frv. hefur náð fram að ganga.

Annars þótti mér vænt um að heyra, að þeir 3 hv. þm. stjórnarandstöðunnar, sem talað hafa, hafa allir talið þetta frv. vera til mikilla bóta. Hitt kom mér í sjálfu sér ekki á óvart, að þeir vildu, að meira yrði að gert og meira að segja margir hverjir miklu meira að gert. Sérstaklega tók hv. þm. Ragnar Arnalds djúpt í árinni hvað þetta snertir: Í því sambandi vildi ég minna hann og hv. þm. Framsfl., sem talaði, sem báðir eru tiltölulega nýkomnir á þing, á það, að þetta er ekki í fyrsta skipti, sem málefni námsmanna og aðstoð við þá er á döfinni á Alþingi, og þetta er ekki í fyrsta skipti, sem ég fjalla um þau mál bæði hér á Alþingi og í ríkisstjórn. Ég hef farið með menntamálin síðan 1956 og fyrstu 2–3 árin einmitt í samvinnu við þá flokka, sem þessir hv. þm., sem talað hafa, eru fulltrúar fyrir. Áhugi minn á því að efla hag námsmanna bæði heima og erlendis hefur verið hinn sami öll þessi ár, sem ég hef haft með þessi mál að gera. En árangurinn af viðleitni minni, árangurinn af áhuga mínum hefur verið mjög misjafnlega mikill á þessu tímabili. Ég hef hér fyrir framan mig vísitölu eða töflu um vísitölu yfir raunverulegt framlag á námsmann á þessum undanförnum 10 árum. Með raunverulegu framlagi á ég þá við heildaraðstoðina, sem hið opinbera veitir námsmönnum, eftir að tillit hefur verið tekið til breytinga á verðlagi og breytinga á tölu námsmanna, þ.e.a.s. fjölda námsmanna. Ef aðstoð við námsmann er talin vera 100 árið 1956, varð hún 90.3 1957 og 82.6 1958. M.ö.o.: á þeim tveimur eða þremur árum, sem stjórn Hermanns Jónassonar var að völdum og Alþfl. átti samstarf við Alþb. og Framsfl., fór aðstoð við námsmenn minnkandi á hvern námsmann um 17%. Það er ekki fyrr en síðar, rétt þarna á eftir, það er raunverulega ekki fyrr en núverandi stjórnartlokkar taka upp sitt samstarf, sem veruleg breyting verður hér á. Þessi vísitala er á þessu ári 313. Frá árinu 1958 hefur því vísitala raunverulegs framlags hins opinbera á námsmann ferfaldazt. Aðstoðin hefur ferfaldazt í raunverulegum verðmætum á hvern námsmann, sem aðstoðar nýtur, síðan 1958. Með hliðsjón af þessu finnst mér það hafa verið ómaklega mælt hjá hv. 3. þm. Reykv., þegar hann gerði því skóna, að um sérstakan fjandskap af hálfu Sjálfstfl. væri að ræða að því er snertir aðstoð við námsmenn.

Þm. spurði, hverjar mínar óskir væru í þessum efnum. Mínar óskir eru þær, að þetta frv. nái fram að ganga á þessu þingi. Og ég tel hér vera um stórmikið framfaraspor að ræða, stærsta framfarasporið, sem stigið hefur verið í einu um langt skeið, ég mundi halda allt frá því að hið opinbera hóf aðstoð við íslenzka námsmenn.

Hv. 3. þm. Reykv. Einar Olgeirsson benti alveg réttilega á, að námslán til stúdenta við Háskóla Íslands hafa verið allt of lág. Einmitt þess vegna er meginbreytingin, sem þetta frv. mundi hafa í för með sér, sú, að sú aðstöð verður stóraukin. Framlag úr lánasjóði stúdenta við Háskóla Íslands vex úr 7.4 millj. í 12.1 millj., það vex um 63%, samtímis því sem heildaraðstoðin vex um 48%. En það hefur aldrei gerzt í einu lagi áður, að eitt stökk hafi verið tekið, sem hafi aukið aðstoðina við íslenzka námsmenn, bæði heima og erlendis, að meðaltali um næstum helming eða um næstum 50%. Þetta, sem sagt, gefur ekki tilefni til frekari aths.