14.02.1967
Neðri deild: 41. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í B-deild Alþingistíðinda. (418)

22. mál, námslán og námsstyrkir

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég þakka hv. menntmn. fyrir afgreiðslu þessa frv., og læt í ljós ánægju yfir því, að hún skuli einróma mæla með samþykkt þess í öllum meginatriðum.

Þetta frv. var lagt fram snemma á þessu þingi, svo að segja við upphaf þingsins, og var það upphaflega ætlun mín og ríkisstj., að það yrði afgreitt fyrir nýár. En svo tókst þó til vegna sérstakra anna þingsins í desembermánuði, að af því varð ekki. En venjan hefur verið sú að úthluta námslánum og námsstyrkjum einhvern tíma á fyrstu þrem mánuðum ársins, venjulega í febr. eða marsmánuði. Þegar mér þess vegna varð ljóst, að ekki yrðu tök á því að afgreiða þetta frv. fyrr en í fyrsta lagi einhvern tíma í þessum mánuði, í febrúarmánuði, en frv. gerir hins vegar ráð fyrir mikilli breyt. á aðstoð hins opinbera við námsmenn, þótti mér sýnt, að hætta kynni að vera á því, að óheppilegur dráttur yrði á úthlutun námslána og námsstyrkja nú á þessu ári. Taldi ég því rétt að gera sérstakar ráðstafanir í því sambandi, sérstaklega vegna þess, að við afgreiðslu fjárlaga fyrir yfirstandandi ár var gert ráð fyrir því, að þetta frv. yrði að l., kæmi til framkvæmda nú á árinu 1967.

Í kjölfar samþykktar þessa frv. kemur veruleg hækkun á opinbera aðstoð við námsmenn, bæði hér við Háskóla Íslands og erlendis, og eru gildandi fjárlög miðuð við þá hækkun opinberrar aðstoðar. Á s.l. ári fengu stúdentar við Háskóla Íslands í námslán 7.4 millj. kr., en skv. reglum þessa frv. og skv. þeim fjárveitingum, sem eru í gildandi fjárlögum, munu lán til stúdenta við Háskóla Íslands aukast upp í 12.1 millj. kr. Í fyrra námu lán til íslenzkra námsmanna erlendis 10.1 millj. og styrkur þeim til handa 2.6 millj. kr. Opinber aðstoð við íslenzka námsmenn erlendis var þannig í fyrra 12.7 millj. kr. Skv. reglum þessa frv. munu lán til íslenzkra stúdenta erlendis nema 13.2 millj., styrkir til þeirra munu nema 3.5 millj., og auk þess er gert ráð fyrir 1 millj. kr. í styrki til kandídata. Heildaraðstoðin við íslenzka námsmenn erlendis, sem var í fyrra 12.7 millj., mun á þessu ári verða 17.7 millj. kr. Heildaraðstoð hins opinbera við íslenzka námsmenn nam í fyrra 20.1 millj. kr., en mun skv. þessu frv. verða 29.8 millj. kr., þ.e.a.s. aukast um 9.7 millj. kr. Langmestur hluti aukningarinnar er bein aukning á ríkisframlagi. Það eykst um 8 millj. kr.. en eigin tekjur sjóðsins aukast um 1.7 millj. kr., þannig að heildaraukningin verður 9.7 millj. kr. Gildandi fjárlög gera sem sagt ráð fyrir þessari aukningu á opinberri aðstoð við íslenzka námsmenn. Nú var um tvennt að velja að láta styrkveitingar og lánveitingar bíða, þangað til þetta frv. væri orðið að lögum, og mátti þá búast við því, að nokkur dráttur yrði á úthlutuninni, miðað við það, sem áður hefur verið, eða þá að fela þeim aðilum, sem skv. gildandi l. annast úthlutun námslána og námsstyrkja, að annast úthlutunina einnig í ár og úthluta því fé, sem fjárlög gera ráð fyrir, og reyna að haga úthlutuninni í sem nánustu samræmi við þær reglur, sem í þessu frv. felast.

Að höfðu nánu samráði við stúdentaráð Háskóla Íslands og samtök íslenzkra stúdenta erlendis var sá kostur tekinn nú fyrir skömmu að fela þeim aðilum, sem annast úthlutun námslána og námsstyrkja til námsmanna við Háskóla Íslands og erlendis skv. gildandi lögum, að úthluta því fé, sem veitt er í gildandi fjárlögum, og reyna við þá úthlutun að hafa sem nánasta hliðsjón af þeim reglum, sem þetta frv. byggist á. Þetta var eindregin ósk beggja aðilanna, bæði stúdentaráðs Háskóla Íslands og stjórnar samtaka íslenzkra stúdenta erlendis. Er því nú verið að vinna að úthlutun námslána og námsstyrkja, úthlutun á því fé, sem í gildandi fjárlögum er, og í meginatriðum verður fylgt þeim reglum, sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Má því segja, að í ár komi meginreglur frv. til framkvæmda, þó þannig, að ekki er skipaður nýr úthlutunaraðili, eins og frv. gerir ráð fyrir, heldur fara þeir aðilar, sem með þetta verkefni fara að gildandi lögum, með úthlutunina enn einu sinni á þessu ári, væntanlega í síðasta sinn, ef þetta frv. nær fram að ganga, sem ég vona fastlega.

Þessu taldi ég rétt að skýra hv. d. frá og vona, að hv. alþm. hafi ekki við það að athuga, að þessi aðferð sé við höfð. Þó er rétt að geta þess, að ein tegund styrkja í frv. er algert nýmæli þ.e.a.s. kandídatastyrkirnir. Ég hef talið rétt að láta úthlutun þeirra styrkja bíða þess nýja úthlutunaraðila, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, enda má segja, að engin töf megi teljast í því sambandi, þar sem þeir styrkir eru algerlega nýir. Það er einungis nemendunum við háskólann hér og nemendunum, sem nám stunda úti, sem við vildum forða frá því að þurfa að bíða lengur eftir sinni aðstoð en þeir hafa þurft að gera á undanförnum árum, og það á að takast með þeim hætti, sem ég hef nú skýrt hinu háa Alþingi frá.