14.02.1967
Neðri deild: 41. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 628 í B-deild Alþingistíðinda. (419)

22. mál, námslán og námsstyrkir

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að taka það fram, að ég er samþykkur því frv., sem hér liggur fyrir, og tel, að þær brtt., sem lagðar eru fram, skipti ekki meginmáli, en á þeim eru að mínu viti formlegir gallar og að nokkru leyti efnislegir, svo að ég tel, að athuga þurfi þetta mál nánar.

Ástæðan til þess, að ég fór að íhuga þetta, er sú, að mig minnti, að það væri í lögum enn ákvæði um forgangsrétt kandídata frá Háskóla Íslands til embætta, og svo er a.m.k. enn talið í lagasafninu frá 1965. Hvort það hefur verið fellt niður síðan, hef ég ekki flett upp, en ég minnist þess ekki. Það verður þá leiðrétt. En upphaf 1. gr. þeirra laga hljóðar svo: „Eftir að Háskóli Íslands er tekinn til starfa, hafa þeir einir rétt til embætta hér á landi, er tekið hafa embættispróf við háskólann. Þó á þetta aðeins við þær fræðigreinar, sem þar eru kenndar og próf er haldið í“. Meðan þetta ákvæði er í lögum og ef það er í lögum, er mjög umhendis að ginna menn með opinberum styrkjum til þess að fara til náms erlendis og þeir hafa síðan ekki embættisrétt hér á landi. Ég held því, að þeir, sem vilja auka frjálsræði stúdenta í þessum efnum, þurfi fyrst og fremst að athuga þessi lög og láta hitt eiga sig, þangað til búið er að breyta þeim, ef mönnum kemur þá saman um þá breyt. Auk þess vil ég benda á, að vegna rökfærslunnar er a.m.k. engin ástæða til þess að breyta ákvæði 1. gr. frv., vegna þess að þar segir: „Lán skulu að jafnaði því aðeins veitt til náms erlendis, að eigi sé unnt að leggja stund á það á Íslandi.“ Hér er einungis um almenna reglu að ræða. Og eftir grg. n. og grg. stúdentanna, sem nema erlendis, ætlast þeir ekki til, að öðru sé fylgt en þarna er sagt, að það sé aðeins í undantekningartilfellum veitt lán, ef menn geta stundað sams konar nám hér á landi. Þar við bætist svo um þau tilfelli, sem þeir minnast á, eins og sérstaklega sagnfræði og málanám, að fullkomið háskólanám erlendis er auðvitað allt annað en þau kennarapróf, sem hægt er að taka a.m.k. í málum hér á landi, og þar er því fjallað um allt annað atriði en 1. gr. og raunar 8. gr. einnig segir til um. Ég vil álíta, að hvað sem líður ákvæðinu frá 1911, sé ekki ástæða til þess að jafnaði að lána mönnum fé eða styrkja þá til þess að nema það, sem við höldum uppi fullkominni kennslu í hér á landi. Ef sérstök atvik eru fyrir hendi, er skv. 1. gr. heimilt að veita lán í þessu skyni. Ákvæðið er fortakslausara í 8, gr., og ég játa, að þegar litið er hjá ákvæðinu frá 1911, væri ástæða til að endurskoða ákvæðið í 8. gr. og gera það linara en nú er og veita þar heimild til undantekninga. Þetta vildi ég benda hv. n. á og spyrja hv. frsm., hvort hann teldi ekki ástæðu til þess að skoða þetta mál nokkru nánar.

Eins held ég, að ef samþ. yrði brtt. hv. n. við 5. gr., mundi koma allt annað út úr þeirri samþykkt heldur en fyrir hv. n. vakir. Mér skilst, að það vaki fyrir hv. n., að stjórn sjóðsins eigi að geta kveðið á um, hvort veita eigi tryggingu eða ekki. Ég þori að fullyrða, að samkv. venjulegum lagaskýringareglum mundi samþykkt till. n. verða skilin þannig, að það væri ekki heimild fyrir sjóðsstjórnina til þess að krefjast tryggingar. Ég sé ekki, að það sé annars staðar í frv. heimild til þess að krefjast tryggingar heldur en í þessu niðurlagi 5. gr., og ef það niðurlag er skilyrðislaust fellt niður, vantar heimild í l. til þess að krefjast tryggingar. Þá er einungis heimilt að krefjast skuldabréfs, sem er sjálfsagt. En úr því að búið er að fella niður ákvæðið um tryggingu, skortir heimild til þess, að sú krafa sé gerð. En þetta vakir ekki fyrir n., og því þá að setja ákvæði, sem a.m.k. má skilja á þann veg? Ég mundi þvert á móti telja, að eins og ákvæðið er núna samræmist það algerlega fyrirætlun n. Ákvæðið hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Fyrir lánum þessum skulu lántakar gefa út skuldabréf og setja tryggingu samkv. ákvörðun stjórnar sjóðsins.“ Ég mundi skilja þetta þannig, að ef stjórn sjóðsins telur ekki þörf á eða ástæðu til að krefjast tryggingar, hafi hún heimild til þess að taka ákvörðun um, að svo skuli ekki gert. Ef ekki á að skilja ákvæðið á þennan veg, er þetta orðalag meiningarlaust að mínu viti. Nú mætti þetta vera e.t.v. eitthvað skýrara, þannig að það væri alveg ótvírætt, að stjórnin hefði þetta alveg í sinni hendi. En ef menn ætlast til þess, að það sé heimilt að krefjast tryggingar, og það segir n. að sé hennar meining, að sé aðalreglan, dugir ekki að fella ákvæðið niður skilorðslaust, eins og n. leggur til.