14.02.1967
Neðri deild: 41. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í B-deild Alþingistíðinda. (420)

22. mál, námslán og námsstyrkir

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Frv. til l. um námslán og námsstyrki er komið frá n. Hún hefur gert á því ýmsar breytingar, og verð ég að segja, að ég tel þær allar til bóta, enda þótt kannske megi deila um einstök smáatriði, sem betur mættu fara. Sérstaklega fagna ég því, að gerð hefur verið sú efnisbreyting, að lán námsmanna, sem látast eða verða öryrkjar, verða óafturkræf. Hins vegar hafa ekki verið gerðar ýmsar aðrar breytingar til bóta á frv., sem nauðsynlegt hefði verið að gera og bent var á við 1. umr. málsins. Ég tók það fram við 1. umr., að frv. væri ótvírætt spor fram á við, en þörfin á þessu sviði væri svo brýn, að frv. væri eftir sem áður ófullnægjandi á ýmsan hátt. Ég fagnaði því sérstaklega við 1. umr. málsins, að í frv. er það tekið fram í 2. gr., að stefnt skuli að því, að námsmenn fái alla umframfjárþörf greidda með aðstoð hins opinbera, þ.e.a.s. þeir skuli fá aðstoð, sem nægi til að standa straum af árlegum námskostnaði, þegar tekið hefur verið eðlilegt tillit til aðstöðu þeirra til fjáröflunar. En ég harmaði það, að ekki skyldi koma fram í frv., hvenær þessu marki skyldi náð. Einnig taldi ég mjög óeðlilegt, að ekki væri tekið tillit til erfiðleika þeirra námsmanna, sem hafa fjölskyldu á framfæri sínu, því að vitað er, að þriðjungur þeirra námsmanna, sem lánakerfið nær til, er í hjónabandi.

Í grg., sem fylgir frv., kemur fram, að lánakerfið eins og það var í fyrravetur, fullnægði aðeins 38% af umframfjárþörf stúdenta við Háskóla Íslands og þeirra námsmanna erlendis, sem notið hafa lána. En nýja kerfið mun ekki fullnægja nema 46% af umframfjárþörf sömu námsmannahópa, og þar af munu stúdentar við Háskóla Íslands aðeins fá lán fyrir 36% af umframfjárþörf sinni. Ég benti einnig á, að sumir stúdentahópar við Háskóla Íslands munu alls ekki fá hærri lán, enda þótt þetta frv. verði að lögum. Allstórir námsmannahópar munu jafnvel fá lægri lán en þeir hafa hingað til fengið. Ég held því, að það muni öllum vera ljóst, að þó að þetta frv. verði að teljast spor fram á við, er þó skammt stigið. Það verður langt í land að því marki, sem lögin setja sér. Vegna þess að n. hefur ekki séð sér fært að hagga við þessu ákvæði, höfum við ákveðið, tveir þm. Alþb., 3. þm. Reykv. og ég, að flytja hér brtt. við 2. gr. frv., og vil ég leyfa mér að lesa hana hér upp, með leyfi hæstv. forseta. Við leggjum til, að 2. gr. orðist svo:

„Stefnt skal að því í jöfnum áföngum á árum, að opinber aðstoð við námsmenn samkv. lögum þessum nægi hverjum námsmanni til að standa straum af árlegum námskostnaði, þegar eðlilegt tillit hefur verið tekið til aðstöðu hans til fjáröflunar. Við útreikning á námskostnaði ber jafnframt að taka tillit til þess, ef námsmaður hefur fjölskyldu á framfæri sínu.“

Eins og þeir munu sjá, sem bera saman brtt. við frvgr., eins og hún liggur fyrir, er hér lagt til, að takmarkinu verði náð á 4 árum og verði stefnt að því að ná því með jöfnum áföngum. Í öðru lagi er hér sérstaklega tekið fram, að taka skuli tillit til þess, ef námsmaður hefur fjölskyldu á framfæri sínu.

Eins og kunnugt er, hefur ríkisstj., sem leggur þetta frv. fram, látið semja það á grundvelli álits, sem 7 manna n. skipuð af ráðh. hefur skilað. Menntmrh. hefur fylgt till. n. að öllu leyti nema að því einu, að fellt hefur verið úr 12. gr. það ákvæði, að ríkissjóður greiði vexti af lánum, sem lánasjóðurinn tekur. Eins og kunnugt er, er aðstoð ríkisins enn sem komið er nær eingöngu lán. Ég held, að það sé því ekki óeðlilegt, ef svo ber undir eins og segir í 12. gr., að ríkissjóður leggur ekki fram nægilegt fjármagn til þess að mæta fjárþörf sjóðsins og stjórn sjóðsins neyðist til þess að taka lán, að ríkissjóður greiði þá vexti af þessum lánum. Ég vil undirstrika það, að sú n., sem samdi þetta frv., samþykkti einróma, að þessi tilhögun skyldi viðhöfð. En það var í meðförum menntmrh. og ríkisstj., sem þetta ákvæði var fellt úr, eins og skýrt kemur fram í grg. fyrir frv.

Með 2. brtt., sem við leyfum okkur að flytja hér, er lagt til, að 12. frvgr, verði breytt í það horf, sem hún var í, þegar n. skilaði till. sínum til ríkisstj. 12. gr. mundi þá orðast svo, ef þessi brtt. okkar næði fram að ganga:

„Nú nægir það ríkisframlag eigi, sem ákveðið hefur verið, til þess að mæta fjárþörf sjóðsins á því fjárhagsári og er þá stjórn sjóðsins heimilt að fengnu samþykki menntmrn. og fjmrn. að taka innanlands lán í bönkum eða öðrum lánastofnunum með tryggingu í verðbréfaeign sjóðsins til þess að endurlána námsmönnum. Lánasjóður íslenzkra námsmanna stendur straum af afborgunum af lánum þessum, en ríkissjóður greiðir af þeim vexti. Eigi má sjóðsstjórnin lána meira fé úr sjóðnum en svo, að sjóðurinn geti staðið straum af afborgunum af lánum þeim, sem tekin verða samkv. lögum þessum, svo og af þeim lánum, sem þegar hafa verið tekin til starfsemi hans.“

Eins og ég tók fram, er sú ein breyting fólgin í 12. gr., að þar er gert ráð fyrir því, að ríkissjóður greiði vexti af þeim lánum, sem sjóðurinn tekur.

Ég vil leggja þessar skriflegu brtt. fram og óska eftir því, að forseti leiti afbrigða.