14.02.1967
Neðri deild: 41. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 634 í B-deild Alþingistíðinda. (423)

22. mál, námslán og námsstyrkir

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég ræddi þetta frv. nokkuð við 1. umr. þess og lýsti þá yfir þeim skilningi mínum, að frumvarpið væri til bóta, svo langt sem það næði, og auk þess hef ég átt sæti í menntmn., og þar hefur þetta frv. verið til umr. nokkrum sinnum. Hins vegar hittist nú svo á, að ég var ekki á þeim fundi, þegar þetta mál var tekið til lokaafgreiðslu, og kom mér satt að segja dálítið á óvart, að það skyldi vera sá hraði á, sem viðhafður var, því að ég hygg, að menntmn. hefði getað athugað marga þætti frv. og margt í kringum það betur en orðið hefur. Hins vegar skil ég það öðrum þræði, að nauðsyn hafi borið til að hraða afgreiðslu frv., einkum ef tekið er tillit til þess, að það eigi að framkvæma ákvæði þess nú á þessu ári. Nú hefur hæstv. menntmrh. talað hér og hann hefur lýst yfir því, að hann muni láta frv. koma til framkvæmda, eða reglur þess, jafnvel þó að frv. sjálft verði ekki samþ. Ég tel því, að það hafi ekki verið svo brýn þörf fyrir að hraða þessu frv, eins og gert hefur verið, þar sem hæstv. menntmrh. hefur fundið leið til þess að framkvæma ákvæði þess í höfuðdráttum, án þess að það yrði að lögum. Ég álít, að þetta mál sé það viðamikið og margslungið, að Alþ. þurfi að gefa því alveg sérstakar gætur.

Þetta frv. er vissulega til bóta, og það er spor fram á við. En eigi að síður er grundvöllurinn undir námsaðstoðarkerfinu sá sami og verið hefur. Hann er sá, að námsaðstoðin nær fyrst og fremst til langskólamanna og hún nær til tæknimanna, sem nema erlendis. Hins vegar eigum við alveg eftir að athuga fleiri þætti þessa máls, og einkum eigum við eftir að athuga það, hvort námsaðstoðarkerfið á ekki að ná til fleiri en þeirra aðila, sem venja hefur verið á undanförnum árum og áfram er ætlað að verði. Ég tel og hef m.a. viljað leggja áherzlu á þann skilning minn með því að flytja þáltill. oftar en einu sinni um það efni, að það þurfi að taka þetta mál til rækilegrar endurskoðunar og láta námsaðstoðarkerfið ná til miklu fleiri aðila, til fólks á fleiri skólastigum heldur en nú er. Og ég tel einnig, að það sé hin mesta nauðsyn fyrir okkur að fylgjast með því, hvað er að gerast í öðrum löndum í þessu efni. Ég hef haft nokkrar spurnir af því, þó að ég geti játað, að ég hafi ekki athugað það svo gaumgæfilega, þá hef ég haft af því spurnir, að þessi mál hafa verið til verulegrar endurskoðunar á Norðurlöndum, einkum í Noregi og Svíþjóð, og í Svíþjóð er beinlínis búið að gerbylta námsaðstoðarkerfinu með nýrri lagasetningu eða þriggja ára gamalli lagasetningu, sem nú er farið að framkvæma. Þar er um mjög víðtækt námsaðstoðarkerfi að ræða, og þó að ég geri varla ráð fyrir því, að við getum tekið það upp í einu og öllu, hefði mér þó fundizt rétt, að menntmn. þessarar hv. d. hefði kynnt sér þetta atriði rækilegar en reyndin varð. Og jafnframt er þess að geta, að í Noregi hafa þessi mál verið til umr, að undanförnu og þar hefur stjórnskipuð nefnd unnið að þessum málum og skilað áliti fyrir einum 2–3 árum, en mér er ekki kunnugt um, hvort ríkisstj. þar hefur tekið undir þær till. Hins vegar er það augljóst, af áliti þessarar n., að Norðmenn telja það mjög brýnt að auka námsaðstoðina og láta hana ná yfir miklu víðtækara svið heldur en verið hefur og heldur en gert er ráð fyrir t.d. með því frv., sem hér er til umr. hjá okkur í hv. Nd. í dag. Ég vil því, jafnframt því sem ég lýsi yfir stuðningi mínum við frv. eins og það er, lýsa yfir, að það er ekki hægt að láta staðar numið. Við verðum að gera meira í þessu máli. Við verðum að auka okkar námsaðstoð mjög verulega, bæði við langskólamennina og einnig við menn á öðrum skólastigum, jafnvel við fólk í barnaskóla og á hinum lægstu framhaldsskólastigum. Það getur verið mjög eðlilegur hlutur. Það er nefnilega þannig, að námsaðstaða í landinu er ákaflega ójöfn. Hún er svo ójöfn, að margt fólk verður að senda börn sín í skóla í aðra landsfjórðunga. Og það er mjög dýrt að þurfa að gera þetta, og þeir, sem eiga mörg börn og þurfa kannske að senda allmörg börn sín í gagnfræðaskóla, kannske í aðra landsfjórðunga, en mjög oft í önnur sveitarfélög, þá er þetta mjög mikill baggi á heimilunum og kostar stórkostleg útgjöld. Ég get ímyndað mér, að það kosti t.d. námsmann á Akureyri, við menntaskólann, það kosti hann 60–65 þús. kr. á ári. Og þannig mun það einnig vera með héraðsskólana. Ég veit ekki um tölur þar eða hve mikið það kostar, en það kostar tugi þús. kr. að vista sig til námsdvalar á slíkum skólum. Og oft er hér um að ræða námsfólk, sem ekki hefur aðstæður til þess að vinna fyrir öllum þessum kostnaði, og það hlýtur því að koma í hlut foreldranna að greiða þennan kostnað, ef ekki að öllu leyti, þá að mjög verulegu leyti. Ég tel, að þarna sé m.a. eitt atriði, sem við þurfum að leiða hugann að, og sé ekki síður sanngirnis- og réttlætismál heldur en hitt, að greiða fyrir háskólastúdentum með námsaðstoð. Sem sagt: ég vil leggja áherzlu á það, að jafnvel þó að þetta frv. verði að lögum, tel ég að það sé engu endanlegu marki náð og að mjög fljótlega þurfum við að endurskoða þessi lög og fleira, sem þessi mál varðar.