20.02.1967
Neðri deild: 43. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 638 í B-deild Alþingistíðinda. (429)

22. mál, námslán og námsstyrkir

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt aths. um það frv. til l. um námslán og námsstyrki, sem nú er hér til 3. umr. Það er nánast fsp. til n. Ég vil nú biðja afsökunar á því, hvað þetta kemur seint fram, en það stafar af því, að ég hafði ekki kynnt mér málið nægilega vel, en í 1. gr. þessa frv. segir, með leyfi forseta:

„Hlutverk lánasjóðs íslenzkra námsmanna er að veita íslenzkum námsmönnum lán til náms við Háskóla Íslands, erlenda háskóla og tækniskóla, svo og aðrar hliðstæðar erlendar kennslustofnanir, samkv. nánari ákvæðum í reglugerð.“

Sú spurning, sem ég hef verið að velta fyrir mér í þessu sambandi, er, hvort þeir menn, sem nema við innlendan tækniskóla eða innlenda tækniskóla, séu samkv. þessu frv. útilokaðir frá námslánum eða námsstyrkjum. Ég teldi illa farið, ef svo væri, og hefði viljað mælast til þess við hv. n., að hún athugaði þetta orðalag, ef það er meiningin með þessu frv., að íslenzkir námsmenn, sem nema tæknifræði við íslenzka tækniskóla, eiga að njóta góðs af þessum lögum. Eins og hv. alþm. allir vita, er nú nýbúið að setja lög um íslenzkan tækniskóla, og þeir námsmenn, sem þar stunda nám, geta nú lokið fyrri hluta námsefnisins hér heima, en hafa orðið að sækja síðari hlutann til útlanda. Mér er kunnugt um, að það er mikil hreyfing fyrir því meðal þessara manna, að þeim séu sköpuð skilyrði til þess að ljúka námi sínu hér heima, og fyrir hv. Alþ. mun nú liggja þáltill., sem gengur í þá átt. Ég verð því að álíta, að það sé á næsta leiti a.m.k., að íslenzkir tæknimenn geti lokið námi sínu að öllu leyti hér heima, enda er það sannast sagna mikið nauðsynjamál, og ég vildi af því tilefni leyfa mér að benda á þetta hér við þessa umr., hvort ekki væri ástæða til að breyta orðalagi 1. gr. á þann veg, að það gæti einnig náð til tækninema, sem stunduðu nám við íslenzkan skóla.