14.03.1967
Efri deild: 53. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í B-deild Alþingistíðinda. (437)

22. mál, námslán og námsstyrkir

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Þegar frv. þetta var til 1. umr. hér í hv. þd., fylgdi hæstv. menntmrh. því úr hlaði, og enn fremur fylgir frv. ýtarleg grg. ásamt ýmsum fskj. Frv. er samið af n., sem menntmrh. skipaði á miðju ári 1964 til þess m.a. að endurskoða lög um lánasjóð íslenzkra námsmanna frá 1961 og gera till. um samræmingu á gildandi úthlutunarreglum og endurskoða þær. Frv. er síðan lagt fram í þeirri mynd, sem n. gekk frá því, með einni breytingu þó, sem gerð er grein fyrir í aths.

Ég skal ekki vera margorð um efni frv., en vil aðeins drepa á það, að það er í nokkrum veigamiklum atriðum frábrugðið núgildandi lögum frá 1961, og eru þau frávik einkum þessi:

Það er í fyrsta lagi, að sú aðgreining, sem nú er viðhöfð milli annars vegar námsmanna erlendis og hins vegar stúdenta við háskólann hér, er niður felld í frv. Sú aðgreining hefur ekki verið virk að öðru leyti en því, að úthlutun námslána hefur verið í höndum tveggja aðila, menntamálaráð hefur annazt úthlutun til námsmanna erlendis og hins vegar stjórn lánadeildar stúdenta úthlutun til stúdenta hér við háskóla, og hafa þessir tveir úthlutunar aðilar hvor um sig sett sér úthlutunarreglur, sem sjóðsstjórnin hefur samkv. lögum engin bein áhrif á. Hlutverk sjóðsstjórnar í sambandi við úthlutun er samkv. núgildandi lögum í rauninni það eitt að skipta heildarfjárhæð hvers árs á milli hinna tveggja deilda, og er sú skipting raunar orðin óraunhæf, eins og gerð er grein fyrir í aths. við frv. Það hafa komið fram ýmsir annmarkar á þessu fyrirkomulagi, þessari aðgreiningu á milli námsmanna hér heima og erlendis, og fyrirkomulagið hefur beinlínis verið til þess fallið að ýta undir togstreitu milli þessara tveggja hópa, sem að sjálfsögðu verður að telja mjög óheppilegt. Með frv. er lagt til, að öll úthlutun lána og styrkja fari fram samkv. reglum, sem menntmrh. setur að fengnum till. sjóðsstjórnar. Þegar slíkar heildarúthlutunarreglur hafa verið settar, gefur auga leið, að það er eðlilegast að einn aðili annist úthlutunina, og yrði þá eflaust talið heppilegt, að það yrði sjóðsstjórnin, sem hefði hana með höndum.

Í öðru lagi er þess að geta, sem kemur nú reyndar ekki beinlínis fram í frv., að það er gert ráð fyrir því, að stúdentar við Háskóla Íslands eigi kost á námslánum þegar á fyrsta námsári, en nú eiga þeir þess fyrst kost á síðari hluta annars námsárs. Kemur þetta fram í þeim till., sem frá greinir í grg. með frv. varðandi úthlutunarreglur, sem þar eru settar fram.

Þá er í þriðja lagi lagt til, að upp verði teknir framhaldsstyrkir. N., sem undirbjó frv., bárust um þetta eindregin tilmæli frá Háskóla Íslands, og hefur verið á það bent, að kandídatar, sem lokið hafa háskólanámi, væru mjög illa settir hvað snertir möguleika til þess að fá styrki til framhaldsnáms.

Þá er það lagt til, að almennir námsstyrkir verði notaðir til þess að vega upp á móti kostnaðarauka þeirra, sem þurfa að fara utan til náms. En undanfarið mun við úthlutun námsstyrkja hafa verið hafður sá háttur á, að styrkveitingar hafa verið í beinum tengslum við úthlutun lána, þannig að hluti af heildarveitingu til hvers einstaks námsmanns væri styrkur, þegar á námstímann líður, að ég ætla eftir vissum hlutföllum.

Þá er lagt til, að heimilt verði að ákveða lán til einstakra námsmanna með hliðsjón af efnahag þeirra, en í núgildandi lögum er ekki gert ráð fyrir slíku mati.

Þá er lagt til, að vextir af lánum verði 5% og afborganir hefjist fyrst að 5 árum liðnum frá námslokum. Samkv. núgildandi lögum frá 1961 eru vextirnir 31/2% og afborganir hefjast þrem árum eftir námslok. Einnig er í frv. gert ráð fyrir því, að lánin séu endurgreidd með jöfnum ársgreiðslum, annuitetsgreiðslum, á allt að 15 árum.

Þá skal ég loks víkja að því, að í núgildandi lögum er kveðið svo á, að ríkissjóður leggi lánasjóðnum til árlegt framlag, eigi lægra en 4 millj. 650 þús. Þessi upphæð er löngu orðin gersamlega óraunhæf, enda lágmarksupphæð, miðuð við framlag ríkissjóðs í lánasjóðinn fyrsta árið, og eins og fram kemur í aths. um frv., hefur þessi upphæð farið síhækkandi með hverju ári síðan. Á s.l. ári var hún 10 millj. 140 þús., í fjárl. yfirstandandi árs 15 millj. 690 þús. Með frv. er ráð fyrir, því gert, að framlag ríkissjóðs verði ekki lögbundið, en í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á því, að í 2. gr. er lagt til, að stefnt verði að því, að opinber aðstoð við námsmenn nægi þeim fyrir almennum námskostnaði, þegar eðlilegt tillit hafi verið tekið til aðstöðu þeirra til fjáröflunar. Það gefur auga leið, að eftir því sem lengra miðar í þessa átt, hlýtur framlag ríkissjóðs að þurfa að aukast umfram það, sem þegar er og verður við eðlilega fjölgun námsmanna.

Þetta frv. tók nokkrum minni háttar breytingum í hv. Nd. Þar voru samþ. nokkrar brtt. frá menntmn. d., sem m.a. gengu sumar til móts við óskir stúdentaráðs Háskóla Íslands og Sambands ísl. námsmanna erlendis, en álitsgerðir þessara aðila eru birtar sem fskj. með nál. menntmn. Nd. Aðrar brtt. menntmn. voru ýmist leiðréttingar eða staðfesting á því, sem tíðkazt hefur.

Ég sé ekki ástæðu til þess að víkja að einstökum gr. frv., en vil þó láta þess getið, að við athugun menntmn. þessarar hv. þd. á málinu bar nokkuð á góma 1. mgr. 9. gr. frv., sem er nýmæli og fjallar um kandídatastyrkina, þ.e.a.s. styrki til handa þeim, sem leggja stund á framhaldsnám að loknu háskólaprófi, sem sé lokapróf, er krefst að öðru jöfnu fjögurra ára náms hið skemmsta. Því var hreyft í n., að þetta fjögurra ára skilyrði kynni af einhverjum að vera túlkað á þann veg, að námsmaður yrði fortakslaust að hafa stundað námið í 4 ár til þess að koma til greina við kandídatsstyrkveitingu. N. taldi þó, að orðalag gr. þar sem segir orðrétt: „Lokapróf, er krefst að öðru jöfnu 4 ára náms hið skemmsta“, þetta orðalag útilokaði ekki þá kandídata, sem hafa afrekað það að ljúka prófi á skemmri tíma en 4 árum, en við töldum rétt, að þetta kæmi hér fram í framsögu.

Nm. í menntmn. voru á einu máli um það, að frv. stefndi til bóta í lána- og styrkjamálum íslenzkra námsmanna, og eins og fram kemur í nál. á þskj. 322, leggur menntmn. til, að frv. verði samþ., en einstakir nm. áskilja sér rétt til að flytja brtt. við frv. og fylgja brtt:, sem fram kunna að koma, og er reyndar þegar komin fram brtt. frá einum nm. Hv. 4. landsk. þm. var fjarverandi, þegar málið var afgreitt í nefndinni.