21.02.1967
Neðri deild: 44. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í B-deild Alþingistíðinda. (460)

20. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég vildi leyfa mér að leggja fram við það frv., sem hér liggur fyrir, svo hljóðandi brtt., að við frv. bætist ný gr., sem verði 2. gr. frv. og mundi hljóða á þessa leið:

„2. mgr. 33. gr. l. orðist svo:

Bætur almannatrygginga skulu undanþegnar útsvarsálagningu, og heimilt er að lækka útsvör gjaldenda, sem orðnir eru 65 ára.“

Sá háttur mun vera orðinn á hjá allmörgum sveitarfélögum að leggja ekki útsvör á bætur almannatrygginga, og eru mörg rök, sem mæla með því, sem ég hygg að hv. þm. séu kunn, svo að það sé ástæðulaust að rekja þau nánar að þessu sinni. Ég hygg, að það væri heppilegt, að það skapaðist alveg föst regla um þetta, og það verður ekki gert á annan hátt eðlilegri en þann, að þetta væri bundið í l. Vel má vera, vegna þess að hér eru um sinn viðstaddir tiltölulega fáir þm., að það væri æskilegt að fresta atkvgr. um þessa till. til 3. umr., en mér finnst samt rétt að leggja hana fram hér að þessu sinni, til þess að hún væri þá þm. kunn, þegar 3. umr. fer fram.