02.03.1967
Neðri deild: 48. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í B-deild Alþingistíðinda. (473)

20. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Í tilefni af því, sem hæstv. fjmrh. sagði hér áðan, tek ég alveg undir það, að það sé mikil nauðsyn að endurskoða löggjöfina um tekjustofna sveitarfélaga. En þó að slík heildarendurskoðun sé nauðsynleg og þyrfti að gerast sem fyrst, þarf það ekki að standa í vegi þess, að vissar leiðréttingar, sem réttmætar eru, verði gerðar á þessum l., á meðan verið er að bíða eftir þessari heildarendurskoðun. Og þetta frv., sem hér liggur fyrir og mun vera lagt fram af hæstv. ráðh., gerir einmitt ráð fyrir einni slíkri endurbót, og þess vegna er það alveg í samræmi við það, að sú tili. komi hér fram, sem ég flyt.

Ég vil árétta það, sem ég sagði hér áðan, að ég tel það misskilning, að þessi brtt., sem ég er flm. að, komi fyrst og fremst þeim til hags, sem efnaðri eru. Eins og ég sýndi fram á, kemur hún að sömu notum fyrir þá, sem efnaminni eru, þar sem t.d. hér í bænum verða langsamlega flestir þeirra, sem má telja lágtekjumenn, eins og verkamenn, að greiða í útsvar 30% af toppnum af sínum tekjum, og þess vegna verða þeir yfirleitt að greiða 30% af þeim fjölskyldubótum, sem þeir fá, í útsvar. Og þó að þetta að vísu sé jafn ávinningur fyrir alla, er hann þó tiltölulega mestur fyrir þá efnaminni, vegna þess að þá munar meira um slíka leiðréttingu en þá, sem efnameiri eru. Það hefur t.d. sitt að segja fyrir verkamannafjölskyldu, sem hefur fyrir 3 börnum að sjá, að útsvarið á henni lækki um 4 þús. kr., en það mundi það gera skv. þessari tillögu.

Í tilefni af því, sem hv. 5. þm. Vesturl. sagði, vil ég aðeins segja það, að ég held, að ég muni það rétt, að það sé á stefnuskrá Alþfl. að undanþiggja bæði sjúkrabætur; örorkubætur og ellilaun sköttum, og alveg án tillits til þess, hvort um efnaða eða efnaminni skattgreiðendur er að ræða. Og ég veit ekki betur en fulltrúar Alþfl. í bæjarstjórnum hafi fylgt þeirri till. fram. Hins vegar finnst mér sjálfsagt, að þessi till., sem hann flytur, verði tekin til núnari athugunar, og ef hann t.d. vildi fallast á það, að fjölskyldubætur væru teknar þarna inn líka og það sama yrði látið gilda um þær og hinar bæturnar, getur það vel komið til mála, að við getum orðið sammála um þá breyt. En mér finnst, að það sé ekki nema eðlilegt og sanngjarnt, að ef hann fylgir þeirri stefnu, að undanþiggja eigi efnaminni ellilauna- og örorkubótaþega skatti af bótum, eigi það að ná til annarra efnaminni skattgreiðenda einnig, ef því er hægt að koma fyrir. Ég vil þess vegna taka undir þau tilmæli hans, að málið verði ekki afgreitt núna á þessum fundi, heldur verði því frestað, og ég vil enn fremur bera þau tilmæli fram til hæstv. forseta, að hann slíti ekki umr. nú, þó að enginn sé á mælendaskrá, því að menn kunna að vilja ræða nánar um þetta mál; þegar búið er að athuga till. hv. 5. þm. Vesturl.