02.03.1967
Neðri deild: 48. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 668 í B-deild Alþingistíðinda. (474)

20. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Ég tel, að afstaða hv. 5. þm. Reykv. í sambandi við að undanþiggja fjölskyldubætur við álagningu útsvars stafi af nokkrum misskilningi og kannske af ókunnugleika á málinu í heild. Hann lét að því liggja, að slíkt mundi hafa í för með sér lækkun, svo og svo mikla, á hvern einstakling, og tilnefndi þar verkamenn í Reykjavík sem einn, að mér skildist, tekjuhærri flokk manna. Ég verð að segja, að mér kemur það mjög undarlega fyrir, að verkamenn í Reykjavík skuli allt í einu vera orðnir í hæstu tekjuflokkum, og er það nokkuð annað en við áður höfum heyrt hér á hv. Alþ.

En þetta útsvarsmál er miklu flóknara í heild en menn almennt, held ég, gera sér grein fyrir. Það kemur þannig út, að ef einn hluti tekna manna, hver svo sem hann er, er undanþeginn við álagningu útsvars, hlýtur það að koma einhvers staðar niður hjá öðrum. Bæjarstjórnir og sveitarstjórnir ákveða heildarupphæð útsvara venjulega í ársbyrjun, og framtalsnefndir eru í hverju tilfelli bundnar af þeirri ákvörðun sveitarstjórnanna. Því meira sem kann að verða undanþegið við álagningu útsvaranna, því minni afsláttur verður af útsvarsstiganum eða því meira þarf að hækka hann. Þetta liggur alveg augljóst fyrir hjá þeim sveitarstjórnarmönnum, sem með þessi mál hafa haft að gera. Það verður ekki með nokkru móti dregið út úr tekjustofnum sveitarfélaganna til álags við niðurjöfnun útsvara, nema það komi niður annars staðar. Þetta er sú staðreynd, sem sveitarstjórnarmenn þekkja og menn verða að gera sér ljósa. Ég hygg því, að í reyndinni sé það svo, og tel, að það liggi í raun og veru alveg ljóst fyrir, að það sé misskilningur, sem kom hér fram hjá hv. 5. þm. Reykv., að það sé hægt að segja, að það sé beint til hagræðis einum tekjuflokki manna, ef það yrði gert, sem hann hér leggur til, að undanþiggja þessar tekjur, sem hann tilgreinir í till. sinni. Þær koma aftur til baka á þessa sömu aðila og á aðra aðila einnig, sem eru kannske jafnvel tekjuminni, í hækkuðum útsvarsstíga. Þetta er það, sem er grundvallaratriði við álagningu útsvara og menn verða að hafa í huga, þegar þeir eru með hugmyndir um að undanþiggja ákveðnar tekjur við niðurjöfnun útsvaranna, að það verður ekki gert með öðru móti en því, að það kemur fram í annarri mynd og þá oft og tíðum að ég vil segja óréttmætt á þeim, sem sízt skyldi.

Um það, sem hér hefur verið sagt um að undanþiggja elli- og örorkulaun og sjúkrabætur, þá verkar það allt öðruvísi, vegna þess að það liggur alveg ljóst fyrir og sveitarstjórnarmönnum hefur verið það ljóst, að þar eiga í langflestum tilfellum hlut að máli aðilar, sem mjög lítið og kannske ekkert útsvar greiða. Þess vegna skiptir það sveitarfélögin miklu minna máli, þó að þær tekjur séu dregnar út, og hefur engin áhrif á heildarniðurjöfnunina.

Ég skal ekki um það segja, hvort till. hv. 5. þm. Vesturl. fær staðizt eða hvort hún mundi verka eins og hann ætlast til. Ég tel, að það þurfi nánari athugunar við, en vil undirstrika það grundvallaratriði, sem ég þekki eftir langt starf í sveitarstjórn, að slíkar tilfærslur verða ekki gerðar, nema þeim verði velt yfir á herðar annarra, sem þá kannske hafa ekkert betri aðstöðu til að bera það en þeir, sem verið er að létta gjöldunum af.