09.03.1967
Neðri deild: 51. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 673 í B-deild Alþingistíðinda. (481)

20. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Í þessum umr. hefur það komið fram, að ýmsir telja, að fjölskyldubætur eigi alls ekki að fella undan skatti. Þó að þeir geti fallizt á, að ellilaun og örorkubætur og aðrar bætur almannatrygginga séu skattfrjálsar, hafa þeir látið í ljós sumir hverjir, að fjölskyldubætur eigi að hlíta einhverjum öðrum lögmálum og þær eigi ekki að falla undir slíkt. Ég skil illa þessa afstöðu, því að ég lít svo á aftur á móti, að fjölskyldubætur eigi að vera í fyrstu röð, sem ekki eigi að leggja á skatta.

Hæstv. fjmrh. var að enda við að benda mönnum á, að það gæti valdið misræmi, ef nú væri farið að veita undanþágur í þessum efnum, og jafnvel valdið skattahækkunum hjá einhverjum öðrum. En heimildin til þess að undanþiggja ellilaun og bætur almannatrygginga er í lögum, og sveitarfélög geta notað þá heimild, svo að það er ekkert fyrir það girt, þó að þessi till. yrði ekki samþ. Ef það er eitthvert ranglæti í því að fella tryggingabætur, þ.e.a.s. ellilaun, örorkubætur og aðrar slíkar bætur, undan sköttum eða undan útsvari, kemur sama ranglætið fram fyrir það og það rekst þá alveg jafnmikið á löggjöfina um verðstöðvunina, meðan heimildin er í gildi. Ef menn ætla að fara að tryggja það, að ekkert slíkt geti skeð, verður að afnema þessa heimild. En ég býst við, að það sé enginn á því máli nema hv. 5. þm. Vesturl., sem flytur um það till., að hún skuli afnumin.

Ég held, að mönnum ætti að vera ljóst, að það fólk í landinu, sem á erfiðasta aðstöðu, eru fjölskyldumenn. Það eru hjón með mörg börn. Launatekjur manna, ef þeir vinna ekki nema dagvinnu, eru ekki meiri en það, að það er lítt skiljanlegt, hvernig barnmargar fjölskyldur geta komizt af, og reglan mun vera sú, að þær komast alls ekki af nema með mikilli eftirvinnu eða næturvinnu og öðru þess háttar, enda sjáum við það á skýrslum hagstofunnar um útgjöld, sem reiknað er með og miðuð eru við fjögurra manna fjölskyldu. Hvað skal þá um fjölskyldurnar, þar sem eru 8 manns í heimili eða jafnvel meira? Það er rétt, að það geta vel stæðir menn og tekjuháir menn notið góðs af því, að ellilaun séu felld undan útsvari. Ég er ekki að mótmæla því. En ég hef skilið þá, sem hér hafa tekið til máls, á þá leið, að þeir vilji hafa þetta sem viðurkenningu fyrir mikið og langt starf í þágu þjóðfélagsins, að þeir þurfi ekki að greiða þessa skatta. En ætli fjölskyldurnar með mörgu börnin eigi þá ekki líka skilið að fá viðurkenningu, fjölskyldur, sem geta ekki komizt af nema vinna geysilega yfirvinnu?

Mig furðar á því, að því skuli haldið hér fram á Alþ., að fjölskyldubætur skuli skattleggja. Það er einmitt þetta fólk, fjölskyldufólkið, sem hefur lökustu afkomuna, miklu lakari en einhleypir menn eða barnlaus hjón. Þetta fólk býr í lakasta húsnæðinu, hefur yfirleitt lökustu kjörin efnahagslega á allan hátt. Samt skal skattleggja fjölskyldubæturnar. Þessum hugsunarhætti vil ég mótmæla algerlega, og það eru einmitt þessar baetur, sem eiga að koma í fyrstu röð ásamt örorkubótum og ellilaunum, sem ætti að undanþiggja öllum sköttum.