09.03.1967
Neðri deild: 51. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 677 í B-deild Alþingistíðinda. (484)

20. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal ekki fara að þreyta kappræður um þetta mál, en ég harma mjög, að hv. 5. þm. Vesturl., sem flutti hina ágætu till., skuli ekki vera viðstaddur þessar umr., og skil eiginlega ekki, hvernig stendur á, að svo kappsfullur maður sem hann skuli ekki vera viðstaddur það mál, sem hann ber fram.

En út af því, sem fram hefur komið í ræðum tveggja hv. síðustu ræðumanna, verð ég nú að segja, að einhvern tíma hafa hv. þm. orðið að fást við mál, sem verra hefur nú verið að fást við og erfiðara viðfangs en þetta. Í nokkur ár er heimildin um þetta atriði búin að vera í lögum. Nokkur hluti a.m.k. af sveitarfélögum landsins hefur notað þessa heimild, og okkur er öllum ljóst, að það hefur verið að mati þeirra sveitarstjórnarmannanna, sem hana hafa notað, eins og það er mat okkar, hvort ætti heldur að fara þessa leið eða aðra til þess að ná þeim tekjum, sem sveitarfélögin þurfa: Þess vegna var sett heimildarákvæði í lögin, vegna þess að hv. þm. fannst það liggja nær, að fella elli- og örorkulífeyri en annað undan útsvars- og skattaálagningu, annars hefði það ekki verið sett inn sem heimild. Við skulum gera okkur grein fyrir því, að hv. þm. hafa áður ákveðið, að það liggi nær að fella þetta undan skatta- og útsvarsálagningu en annað, sem á er lagt, þess vegna er þetta sett inn sem heimild í lögin.

Við skulum líka muna það, að þegar verið var að setja þessi lög, þótti miklu skipta, að sem flestir færu sömu leið að þessu marki og hefðu ekki mjög marga útsvarsstiga eftir að fara. Nú hefur það hins vegar sýnt sig, eins og ljóst var, að það eru margir útsvarsstigar í landinu. Á s.l. ári munu þeir hafa verið um 37 í framkvæmdinni, en ekki 3, og þetta er auðvitað til að fækka þeim, og það verður gert út um þetta mál, eins og kom fram hjá hæstv. fjmrh., og málið er ekki svo flókið, að þess vegna getum við ekki afgreitt það. Hitt er alveg rétt, að sveitarfélögin í landinu vilja fá meiri endurskoðun á þessum lögum. Þess vegna vilja þau ekki sleppa því atriðinu út úr l., sem augljósast er, að leiðrétta þarf.