14.03.1967
Neðri deild: 54. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 679 í B-deild Alþingistíðinda. (490)

20. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það liggur hér fyrir brtt. við þetta frv. á þskj. 256 frá hv. 5. þm. Reykv. um, að bætur almannatrygginga skuli undanþegnar útsvarsálagningu. Nú hefur það gerzt, að hæstv. fjmrh, hefur andmælt þessari till. og talið óráðlegt að samþykkja hana. Mér sýnast því allar horfur á, að hún muni ekki ná fram að ganga, því að það er nú venjan hér á hinu háa Alþ., að þegar einhver af forsöngvurunum, þ.e.a.s. einhver af hæstv. ráðh., hefur upp sína raust og byrjar lagið, þá tekur allt liðið undir. Og ég geri ráð fyrir, að eins mundi verða hér.

Nú kom hv. 5, þm. Vesturl. með brtt. við þessa till. hv. 5. þm. Reykv.; og mátti líta á hana sem tilraun til málamiðlunar. En hann hefur nú tekið hana aftur, enda var það mála sannast, að hún var þannig gölluð, að það var ekki hægt að samþykkja hana, vegna þess að hefði hún verið samþ., hefði það verið þannig, að hjá þeim, sem bæturnar frá almannatryggingum námu 50% af heildartekjunum, áttu þær allar að falla undan útsvarsálagningu, en hefðu þær hins vegar ekki verið nema 49% af heildartekjunum, átti ekkert af þeim að falla undan útsvarsálagningu. Þarna kom stór stallur, og það gerði það að verkum, að það var ekki hægt að fallast á hans till. En um hana þarf nú ekki að ræða meira, því að hún hefur verið tekin aftur.

Hins vegar hefur mér komið í hug að leggja fram aðra till., sem eins og till. hv. 5. þm. Vesturl. ætti að geta orðið hér til málamiðlunar, og hún er þannig gerð, að þar myndast ekki þessi stóri stallur eða þrep eins og í hans till. Og ég vil — með leyfi hæstv. forseta — lesa þessa till. mína, en hún er skrifleg, og ég þarf að biðja hann að leita eftir afbrigðum. Hún er um það, að á eftir 1. gr. frv. komi ný gr., svo hljóðandi:

„Við 33. gr. l. nr. 51 1964 bætist ný mgr., svo hljóðandi.“ — Menn athugi það, að ég geri ekki hér brtt. við brtt. hv. 5. þm. Reykv., heldur vil setja þarna inn nýja mgr., og þar af leiðandi verður ekkert haggað við þeirri heimild, sem nú er í l. til þess að undanþiggja bætur almannatrygginga útsvarsálagningu. En sú mgr., sem ég legg til að hér verði bætt við gr., hljóðar svo: „Nú eru bætur frá almannatryggingum yfir 40% af hreinum tekjum gjaldþegns, og skal þá við ákvörðun útsvarsskyldra tekna draga frá bótunum 10% fyrir hvern heilan hundraðshluta, sem bæturnar eru umfram 40% af hreinum tekjum, þannig að þegar bæturnar hafa náð 50% af tekjum, skulu þær allar undanþegnar útsvarsálagningu.“

Þarna er sem sagt lagt til, að frádráttur bóta frá útsvarsskyldum tekjum hefjist, þegar þær hafa náð 40% af heildartekjunum eða þar yfir, og þessi frádráttur fari stighækkandi og eftir að komið er upp í 50%, þ.e.a.s. bæturnar eru orðnar 50% af heildartekjunum, falli alveg niður að leggja á þær útsvör. Þarna er komizt hjá því að hafa þetta þrep, sem hefði myndazt, ef till. hv. 5. þm. Vesturl. hefði verið samþ.

Ég vænti þess, að hv. þdm, sé ljóst, hvað hér er á ferð, án þess að ég skýri það frekar, og vil leyfa mér að afhenda hæstv. forseta þessa skriflegu brtt. mína.

Ég tel, að þetta sé tilraun til málamiðlunar í málinu, og vænti, að hv. þm. geti á hana fallizt.