14.03.1967
Neðri deild: 54. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í B-deild Alþingistíðinda. (492)

20. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Það hefur komið hér greinilega fram í umr. um þetta mál, bæði hjá mér í framsögu með nál., hæstv. fjmrh. og fleiri ræðumönnum, að það er orðið mjög almennt hjá sveitarfélögunum, a.m.k. á meðal hinna stærri sveitarfélaga, að viss hluti af almannatryggingagreiðslum, þ.e. elli- og örorkulaun, sjúkrabætur o.fl., hefur á undanförnum árum verið dreginn frá tekjum, áður en útsvar hefur verið lagt á. Þetta hefur verið nokkuð föst og almenn regla hjá öllum hinum stærri sveitarfélögum, þannig að það liggur ljóst fyrir, að þannig er þetta orðið í framkvæmd, að heimíld, sem um þetta er í lögum, hefur almennt verið notuð hjá sveitarfélögunum, a.m.k. í kaupstöðunum.

Þegar hv. 5. þm. Reykv. bar fram till. sína, lýsti ég því yfir sem formaður heilbr: og félmn., að till. mundi verða tekin til athugunar hjá n. og þá leitað um hana umsagnar stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga. Fyrir þetta þakkaði flm. till. mér og lýsti ánægju sinni yfir því, og ég satt að segja stóð í þeirri meiningu, að hann mundi eitthvert tillit taka til þeirrar niðurstöðu, sem kæmi úr þeirri athugun, sem ég hafði boðað að mundi verða látin fram fara. Till. var send til umsagnar stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga og einnig til félmrn. eða ráðuneytisstjórans þar. Báðir þessir aðilar leggjast gegn því eða mæla ekki með því, að till. verði samþ. Ég ætla ekki að fara að ræða það neitt nánar. Ég las hér upp umsögn þeirra beggja, sem báðar voru neikvæðar. Ég benti á það sérstaklega, sem ráðuneytisstjóri félmrn. sagði, að þetta mundi verka þannig, að það kæmi fyrst og fremst þeim til hagræðis, sem hærri tekjurnar hefðu, en skipti engu eða minna máli hjá þeim, sem með lægri tekjur væru. Þetta er líka reynsla sveitarstjórnarmanna, að mjög mikill hluti af þeim bótum, sem ég gat hér um, er hjá aðilum, sem bera hvorki útsvar né tekjuskatt, þannig að þetta skiptir ekki sveitarfélögin að því leyti neinu máli, sem heitir.

Ég verð að viðurkenna, að mér er ekki almennilega ljóst enn þá um þá till., sem hér hefur veríð flutt af hv. 1. þm. Norðurl. v., hvort þar er ekki alveg sama þrepið, sem hann var að tala um að væri í till. hv. 5. þm. Vesturl. Hvað skeður, ef bæturnar ná ekki nema 39%? Kemur þá ekki alveg sama þrepið. Þá sýnist mér fljótt á litið, að þær komi ekki til greina að verða undanþegnar, en ef þær ná 40%, koma þær til með að verða að vissu marki undanþegnar og að öllu leyti, ef þær ná 50%.

Ég vil endurtaka það, sem ég sagði hér síðast, þegar málið var rætt hér í þessari hv. d., að þetta er miklu flóknara mál en svo, að það sé gerlegt fyrir einstaka þm. að ætlast til þess að breyta þessum 1., nema að undangenginni mjög nákvæmri athugun hjá þeim aðilum, sem þessi mál þekkja bezt, en það er Samband ísl. sveitarfélaga og félmrn. Og þegar það liggur alveg ljóst fyrir, að báðir þessir aðilar óska eftir því, að till., sem hér var borin fram, verði ekki samþ., og Samband ísl. sveitarfélaga óskar mjög eindregið eftir því, að sá réttur, sem sveitarstjórnir hafa til þess að framkvæma tekjustofnalögin, eins og þau eru nú, verði ekki skertur, þá a.m.k. get ég ekki mælt með því, að þær till., sem hér liggja fyrir um þetta atriði, verði samþ., og ég mun greiða atkv. gegn þeim. Ég vil ítreka og undirstrika, að þetta er orðið í framkvæmd hjá sveitarfélögunum. Það, sem hér er verið að fara fram á, er að miklu leyti þegar komið í framkvæmd og hefur verið það í nokkur ár.