06.03.1967
Efri deild: 47. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í B-deild Alþingistíðinda. (500)

147. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Tveir hæstv. ráðh. hafa nú gert grein fyrir þeim bjargráðum, sem gripið skal til í því skyni að halda sjávarútveginum gangandi. Enda þótt ég eigi sæti í þeirri n., sem kemur til með að fjalla um þetta frv., þykir mér ástæða til að ræða nokkuð um ástandið í sjávarútvegsmálum almennt við 1. umr. þessa máls.

Þetta frv. um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins hefur, eins og hæstv. sjútvmrh, rakti, að geyma ákvæði um uppbætur og styrki, sem nema samtals nokkuð yfir 300 millj. kr. Á fjárl. þessa árs er 80 millj. kr. fjárveiting til stuðnings sjávarútveginum. Þetta frv. kveður á um skiptingu þess fjár, og eru þar farnar hinar troðnu slóðir undanfarinna ára. Það er gert ráð fyrir 50 millj. kr. fjárveitingu til framleiðniaukningar frystihúsa og annarra endurbóta í framleiðslu frystra fiskafurða. Þannig er þetta orðað í frv., og þannig mun það hafa verið orðað í lögum um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins, sem samþ. hafa verið undanfarin ár.

Ég vil vekja athygli á því, að fram hefur komið gagnrýni á þessu orðalagi, hér er, að því er maður bezt veit, um hreint rangnefni að ræða. í framkvæmdinni er þetta í rauninni fyrst og fremst rekstrarstyrkur eða í rauninni styrkur til hráefnakaupa. Mér vitanlega hafa ekki verið settar um úthlutun þessa fjár aðrar reglur en þær, að úthlutun fjárins miðast við magn þess hráefnis eða verð þess hráefnis, sem frystihúsin kaupa. Mér vitanlega eru engar reglur til um þetta efni, sem tryggi raunverulega, að þetta fé fari til framleiðniaukningar fyrst og fremst, eins og lög undanfarinna ára um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins hafa þó mælt fyrir um. Ég tel, að það sé ekki viðkunnanlegt að vera með þetta orðalag, sem í rauninni felast í blekkingar í þessu efni. Þessi stuðningur á vitanlega að heita réttu nafni, ef ekki er um það að ræða, að þetta sé raunverulega fé til framleiðniaukningar.

Þá eru í þessu frv. ákvæði, að 20 millj. kr. af fénu á fjárlögum sé varið til uppbóta á handfæra- og línufisk og 10 millj. til verðuppbóta á skreið og fleiri sjávarafurðir. Þetta er svipað og áður. Enn fremur er svo fyrir mælt í þessu frv. eða ráð fyrir því gert, að togararnir fái eins og áður rekstrarstyrk úr aflatryggingasjóði. En síðan koma nýju pinklarnir. Þar er í fyrsta lagi um að ræða 100 millj. kr. vegna 8% viðbótar við fiskverð, sem ákveðið var um s.l. áramót, sem kunnugt er. Til þess að mæta þessum útgjöldum, sem ætlazt er til að greiðist úr ríkissjóði, er nú lagt til, að verklegar framkvæmdir yfirstandandi árs verði skornar niður um 10% eða alls 85 millj. kr. Enn fremur er lagður til niðurskurður á greiðslum til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, af tekjum sjóðsins árið 1966, 20 millj. kr. verði teknar af þessu fé til sveitarfélaganna. Loks er ákveðið í þessu frv., að greiða skuli eigendum frystihúsa minnst 55 og allt upp í 75% af verðfalli frystra fiskafurða í ár miðað við meðalverðlag ársins 1966. Til þessara greiðslna skal varið allt að 130 millj. kr. af greiðsluafgangi ríkissjóðs 1966. Það er vitanlega ekki vitað nú, hversu háar þessar greiðslur verða, það fer eftir verðlagi á erlendum mörkuðum í ár. Þó er talið, að hér sé um skuldbindingar að ræða, sem geta numið allmiklu hærri upphæð en þessum 130 millj. eða allt að 170–180 millj., ef til þess þarf að grípa að nota þetta ákvæði að fullu, um allt að 75% af verðfallinu.

Þetta eru í stuttu máli þær ráðstafanir, sem hæstv. ríkisstj. hyggst nú gera seint og síðar meir, þegar komið er fram í miðja vertíð, til þess að halda útveginum gangandi. Og þegar liggur fyrir dómur þeirra, sem við sjávarútveginn starfa, um það, hversu þessar ráðstafanir hrökkva til til þess að mæta þeim vanda, sem þar er við að etja. Og dómurinn er nokkuð einróma á þá leið, að í rauninni séu þessar ráðstafanir allsendis ófullnægjandi og viðhlítandi rekstur sé með þeim engan veginn örugglega tryggður. Sjómenn og útgerðarmenn fiskibáta hafa gagnrýnt fiskverðið, þeir telja það allt of lágt, þegar miðað er við hinn gífurlega tilkostnað og við almennt verðlag og kaupgjald í landinu. Hraðfrystihúsin telja, að rekstrargrundvöllur þeirra, þrátt fyrir þessi ákvæði í frv., sé mjög hæpinn og raunar tæplega fyrir hendi, þessar ráðstafanir dugi ekki eða tæplega til þess að tryggja rekstrargrundvöllinn. Afleiðingin getur því orðið sú, að útvegurinn verði rekinn með hálfum afköstum eða engan veginn með fullum afköstum. Þannig er þá komið fyrir þróttmesta atvinnuvegi okkar, þeim atvinnuvegi, sem hefur átt sterkastan þátt í því að byggja upp íslenzkt efnahagskerfi, sem hefur átt mestan þátt í því að standa undir þeim framförum og þeim bættu lífskjörum, sem orðið hafa hér á landi á undanförnum áratugum, — þannig er þá komið fyrir þeim atvinnuvegi, sem hefur lagt mest í þjóðarbúið, sem hefur framleitt 95–97% allra útflutningsafurða landsins um langt árabil.

Er það þá raunverulega svo, að sjávarútvegur, annar en þá síldveiðar, á meðan uppgripaafli helzt við þær veiðar, sé orðinn eða þurfi að vera eins konar ómagi á framfæri annarra, eins og styrkja- og uppbótakerfið kynni að benda til og ýmsir hafa jafnvel orð á, að þessar greinar sjávarútvegsins séu? Nei, ég held, að það sé síður en svo, að þannig sé komið þrátt fyrir vissa erfiðleika. En hvers vegna þarf að grípa til slíkra ráðstafana sem þessara, ráðstafana, sem þó eru taldir af þeim, sem þeirra eiga að njóta, meira eða minna kák, sem tryggir engan veginn full og eðlileg og nauðsynleg afköst þessarar mikilvægu atvinnugreinar? Ástæðan er vissulega ekki sú, að við séum hér að ræða um atvinnuveg, sem sé einhver vandræðaatvinnuvegur í sjálfu sér, ef svo mætti að orði kveða. Það er þvert á móti. Það hefur margsinnis verið sýnt fram á, að í sjávarútveginum hér á landi hefur verið um að ræða meiri afköst, meira afla á skip en yfirleitt þekkist annars staðar, meiri meðalafla á mann en um er að ræða nokkurs staðar annars staðar, þar sem við höfum spurnir af. En eitthvað hefur gerzt, og það er í stuttu máli þetta: Ríkjandi stefna, sú stefna, sem alllengi hefur ríkt í atvinnu- og fjármálum, hefur nú leitt til þess, að helzti útflutningsatvinnuvegur okkar eða verulega þýðingarmiklar greinar hans eru mjög illa farnar og jafnvel að þrotum komnar eftir 7 ára svokallaða viðreisn. Þar stendur nú í rauninni ekkert upp úr nema síldveiðarnar, á meðan það varir, að síld veiðist í líkum mæli og hún hefur gert 3–4 undanfarin ár.

Það skorti svo sem ekki, að stór orð og nokkuð digurbarkaleg voru viðhöfð, þegar viðreisnarfleytunni var ýtt úr vör á sínum tíma, þetta hefur verið rifjað upp nokkuð oft og er kannske farið að verða dálítið leiðigjarnt, en ég get ekki látið hjá liða af tilefni þessa frv. að mínna á það einu sinni enn. Fyrirheitin, sem þá voru gefin, voru vissulega ekki slorleg. Viðreisnin átti, ef ég man rétt, að tryggja atvinnuvegunum varanlegan og traustan grundvöll. Þetta var eitt meginatriði viðreisnarstefnunnar, að því er sagt var, og ég man svo langt, að gamla bátagjaldeyriskerfið var mjög harðlega fordæmt, þegar viðreisnin var að hlaupa af stokkunum, þ.e.a.s. það kerfi, þær tilfærslur, sem á þeim tíma tíðkuðust, til þess að flytja yfir til sjávarútvegsins hluta af þeim verðmætum, sem þessi atvinnuvegur lagði í þjóðarbúið. Að vísu mátti tala um tvöfalt gengi í þessu sambandi, og þetta millifærslukerfi var svo sem engan veginn gallalaust, það skal fúslega viðurkennt. En þó tókst á þeim tíma fyrir viðreisn að halda útgerðinni gangandi, að halda sjávarútveginum í sókn, og það var gert við margfalt erfiðari þjóðfélagsaðstæður en hafa verið fyrir hendi nú nokkur síðustu árin. Þá voru hin mikilvægustu framleiðslutæki sjávarútvegsins svo að segja fullnýtt, útvegurinn starfaði að heita mátti með hámarksafköstum. Síðan hafa nú í nokkur ár orðið stórfelldar verðhækkanir sjávarafurða á erlendum mörkuðum ár fram af ári. Þessar verðhækkanir sjávarafurða á erlendum mörkuðum hafa átt sinn mikla þátt í því að ileyta útveginum án verulegra skakkafalla yfir erfiðleika, þær hafa forðað honum frá því að komast í strand vegna hinnar mjög svo óhagstæðu verðlagsþróunar innanlands, sem orðið hefur, en jafnskjótt sem verðlag sjávarafurða á erlendum mörkuðum hættir að hækka, jafnskjótt og það lækkar nokkuð, lækkar frá hæsta toppverði, er allt að komast í strand, og þá er til þess grípið að bæta einni uppbótinni á aðra ofan, og virðist þó hvergi nærri hrökkva til.

Það er vissulega helzt til ömurlegt tímanna tákn og þungur áfellisdómur yfir þeirri stjórnarstefnu, sem hér hefur ríkt, hvernig komið er í dag fyrir mikilvægum þáttum sjávarútvega, hvernig komið er í dag fyrir þeim þáttum sjávarútvegsins flestum, sem báru uppi íslenzkt atvinnu- og efnahagskerfi fyrir nokkrum úrum, á meðan síldveiðarnar voru í lágmarki. Íslenzk togaraútgerð má nú heita í kaldakoli. Í stað 40–50 togara, sem gerðir voru út héðan fyrir víðreisn, er verið að basla við það núna að halda úti 14–16 skipum, og öll eru þau rekin með bullandi tapi. Í stað þess, að fyrir viðreisn lögðu togararnir tugi þús. lesta upp til vinnslu í hraðfrystihús, telst það nú til algerra undantekninga, ef uggi af togarafiski kemur hér á land. Þau fáu skip, sem útgerðarmenn togara eru enn að reyna að basla við að gera út, leifarnar af þessum áður svo glæsilega flota, þessi fáu skip sigla með aflann beint á erlendan markað, og þeim er það víssulega vorkunnarmál, slíkur er verðmunurinn, þau munu fá um 4 kr. á kg hér heima, en hafa að undanförnu fengið 12–14 kr. á kg á enskum og þýzkum markaði. Enginn nýr togari hefur bætzt í íslenzka togaraflotann s.l. 8–9 ár, og flestir eru togarar okkar 18–20 ára gamlir. Á sama tíma, sem orðið hefur gjörbylting í togarasmíð og togaraútgerð hjá flestum öðrum fiskveiðiþjóðum, stöndum við ekki aðeins í stað, okkur stórhrakar í þessum efnum.

Því er haldið fram af sumum, að þetta mikla hrun togaraútgerðar og þessi stórfellda fækkun togara stafl að verulegu leyti af því, að þeir hafi ekki á undanförnum árum getað hagnýtt fiskimið, sem þeir áður höfðu, þ.e.a.s. fiskimið, sem eru innan hinnar nýju 12 mílna fiskveiðilandhelgi. Ég neita því ekki, að þetta hefur haft nokkur áhrif, en þó er það alveg augljóst, að það hefur engan veginn ráðið neinum úrslitum og liggur ekki við, að svo hafi verið, og þó að segja megi og það með fullum rétti, að togarar okkar, hinir elztu af þeim, sem eftir eru, séu nú orðnir úreltir, er staðreyndin samt sú, að yngstu, stærstu og beztu skipin í þessum flota eru í dag einhver fengsælustu aflaskip, sem yfirleitt þekkjast, og það sannar e.t.v. ekkert eins vel, hvernig aðstaða til útgerðar á Íslandi er orðin í dag eftir alla viðreisnina, heldur en það, að uppgripaafli og sala þess afla, þótt jafnvei heimsmet sé, virðist ekki lengur hrökkva til, það er ekki hægt að gera hér út samt, þó að hvort tveggja fari saman, metafil og metsala. Það er tap á útgerðinni samt, segja menn, og þeir, sem eiga metaflaskipið í íslenzka flotanum í dag, munu vera í óða önn — eða forráðamenn þeirra — að reyna að selja þetta skip fyrir svipað verð og einn nýr síldarbátur kostar í dag. Og hvernig hafa svo þessi viðreisnarár leikið bátaflota landsmanna, þ.e.a.s. þann hluta flotans, þann mikilvæga hluta hans, vil ég segja, sem ekki hentar til þess að stunda síldveiðar á djúpmiðum? Þetta er sá hluti flotans, sem staðið hefur að mjög verulegu leyti undir hraðfrystiiðnaði okkar, undir saltfisks- og skreiðarverkun í landinu, þetta eru skipin, sem sjávarþorp og kaupstaðir víðs vegar um land hafa að verulegu leyti byggt afkomu sína á. Í aðalmálgagni viðreisnarinnar, Morgunblaðinu, var á þetta drepið lauslega í forustugrein í gær. Tæplega vænir neinn Morgunblaðið um að bera viðreisninni lakar söguna en efni standa til. Ég ætla því að leiða Morgunblaðið í gær sem vitni. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Hitt er alvarlegra, hversu sá floti, sem bolfiskveiðar stundar, hefur dregizt saman. Á árunum 1963–1966 hafa 87 bátar, samt. 4713 rúmlestir, verið strikaðir út af skipaskrá. Á sama árabili hafa verið skráð 37 ný fiskiskip undir 120 rúmlestum. Þar af voru á s.l. ári aðeins tvö ný skip, samt. 109 rúmlestir. Ljóst er, að hér er um alvarlega þróun að ræða, þar sem þessi skipafloti ásamt togurunum hefur aflað þess hráefnis, sem rekstur frystihúsanna byggist á og þar með atvinna í fjölmennum byggðarlögum um land allt.“

Þetta segir nú Morgunblaðið. Hér á það vissulega við, „að bragð er að, þá barnið finnur“, Svo gersamlega er nú fyrir það tekið, að nokkur endurnýjun eigi sér stað í þessari grein skipaflotans, að á s.l. ári bættust skv. þessum upplýsingum Morgunblaðsins einungis 2 nýir bátar í þennan hóp, samt. 109 rúmlestir að stærð. Til viðhalds eingöngu, til þess rétt að halda í horfinu, virðist mér, að þurft hefðu að bætast í flotann 22 bátar eða þar um bil á s.l. ári og þeir hefðu þurft að vera um 1200 rúmlestir samt. til þess rétt að halda í horfinu. Þeir urðu tveir, 109 tonn.

Hér er þó engan veginn öll sagan sögð. Rekstur þeirra fiskibáta, sem til eru í landinu undir 120 tonnum, er langt frá því að vera með eðlilegum og æskilegum hætti. Ástæðan er sú, að rekstrargrundvöllurinn er ekki til staðar. Víða hefur gengið erfiðlega að fá mannskap á þessa fiskibáta. Tekjuvonin þar er nú ekki meiri en svo, að menn kjósa flest önnur störf fremur, og þó að útgerðarmönnum takist að fá menn á bátana, t.d. frændur okkar Færeyinga, á vetrarvertíð, eru fjárhagsörðugleikar útgerðarinnar víða svo miklir, að mörgum útgerðarmanni reynist illkleift að yfirstíga þá. Þess vegna liggur meiri eða minni hluti þessa bátaflota aðgerðarlaus verulegan hluta ársins, nema þá rétt á hávertíðinni, og nú er jafnvel svo komið, að ýmsir sæmilegir og jafnvel góðir fiskibátar hreyfa sig ekki, þótt vertíð standi sem hæst. Þetta hefur síðan algerlega lamandi áhrif á frystihúsin, þau eru mörg hver rekin með lágmarksafköstum vegna hráefnisskortsins, þau frystihúsin, sem ekki hafa beinlínis neyðzt til þess að loka algerlega, þar sem þau fá ekki hráefni.

Af fiskiðnaðinum er þá sögu að segja í stuttu máli, að þar sem aðstaða hefur á undanförnum árum verið sæmileg til þess að afla hráefnisins, má telja, að a.m.k. á árunum 1964 og 1965 hafi afkoma frystihúsanna verið heldur góð. Hækkandi afurðaverð á erlendum mörkuðum átti að sjálfsögðu mjög mikinn hlut að því, jafnvel drýgstan hlut, að frystihúsin gátu lengi vel mætt auknum rekstrarkostnaði. En jafnskjótt og þessi þróun stöðvaðist, jafnskjótt og fiskafurðirnar erlendis hættu að hækka, þegar fiskverðið erlendis lækkar nokkuð, telur frystihúsaiðnaðurinn og það vafalaust alveg réttilega, að enginn rekstrargrundvöllur sé lengur fyrir hendi.

En hér kemur einnig fleira til, sem ég vil aðeins benda á og fara um örfáum orðum, þótt það sé raunar stórt mál, sem vert hefði verið að ræða ýtarlega. Jafnframt því sem bátum og togurum hefur verið að fækka á undanförnum árum, hefur einnig átt sér stað sú þróun, að fjölmargar litlar fiskverkunarstöðvar hafa risið upp. Þær hafa þotið upp undanfarin ár, svo að tugum skiptir, mörgum tugum. (Forseti: Má ég spyrja hv. þm., hvort hann á mikið eftir af ræðu sinni? ) Ég mundi geta lokið henni á svona kortéri. (Forseti: Já, þá verð ég að fresta umr.) [Frh.]