07.03.1967
Efri deild: 48. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í B-deild Alþingistíðinda. (503)

147. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég skal reyna að forðast að gefa tilefni til frekari umr. um þetta mál en þegar er orðið í gær og í dag og tel, að fátt nýtt hafi komið fram í þessum umr. nú hér í hv. þd. umfram það, sem kom fram í umr. í sama máli í Sþ. nú fyrir skömmu, og flest það sama tínt upp aftur og þar var gert. Ég verð þó að segja, að hefði ríkisstj. verið opin fyrir því, sem ég tel, að hún sé, að þessir hv. stjórnarandstæðingar gerðu grein fyrir till. sínum, sem miðuðu í aðra átt en þær till., sem í frv. felast, hefði verið eðlilegt og sjálfsagt að taka til þeirra tillit. Nú virðist svo af framsöguræðum þeirra beggja flokka, að þeirra till. í meginefni málsins fari nokkuð í sitt hvora átt. Annar telur, eins og ég held ég hafi rétt eftir hv. 6. þm. Sunnl., hann telur það mjög varhugaverða leið, svo að ekki sé meira sagt, að ríkisstj. geri nú till. um það, að fækka verði einhverjum frystihúsum. Hann sagði að vísu síðar í sinni ræðu, að hann vildi sjá útfærslu þessara till. nánar, þegar fram í sækti, og skyldi þess vegna ekki mótmæla því á þessu stigi málsins, en taldi mörg og mikil vandkvæði á því, að þetta yrði gert. Báðum aðilum bar þó saman um, að fiskverð í landinu sé allt of lágt, bæði til sjómanna og útgerðarmanna. Skyldi nú ekki sá hinn mikli fjöldi frystihúsa með svo mjög litla nýtingu sem raun ber vitni um, að fjöldi frystihúsa hefur, hafa nokkur áhrif á fiskverð í landinu? Ég hygg, að það fari ekki á milli mála, að hin mjög svo lélega nýting fjöldamargra frystihúsa í landinu hefur þarna hin mikilvægustu og örlagaríkustu áhrif á fiskverðið, þ.e.a.s. þegar verið er að reikna út fiskverðið á hverju hausti, er tekið — eða hefur verið gert um mörg undanfarin ár — meðaltal af rekstrarafkomu hinna einstöku frystihúsa og fiskverð ákveðið samkv. því.

Það hefur ekki verið gert í þessum umr. hér nú, en oft áður vitnað til þess, hve fiskverð Norðmanna á hinum ýmsu fisktegundum væri mun hærra en hér. Þeir hafa haft á því mjög strangt eftirlit, að frystihús yrði ekki sett niður á þessum eða hinum staðnum, nema það hefði afkastagetu yfir ákveðnu lágmarki, auk þess sem þeir styrkja og styðja með opinberum aðgerðum, eins og er lagt til í þessu frv. nú, mjög mikið fiskvinnslustöðvarnar til að greiða hærra fiskverð. Þetta hef ég frá fyrstu hendi frá sjútvmrh. Norðmanna, sem ég átti allýtarlegar viðræður við um þessi atriði á s.l. hausti. Þetta er ákaflega flókið kerfi hjá Norðmönnum og jafnvel svo, að ríkisstyrkurinn er meiri til fiskverðsins á ákveðnum stöðum í landinu, þar sem við atvinnuleysi er að etja og kannske ekki tilefni til að skýra frá því í einstökum atriðum hér, en ríkisstyrkir Norðmanna til fiskvinnslustöðva og útgerðar í landinu eru geysilega miklir, svo að skiptir mörgum hundruðum millj. norskra króna. Það sama erum við raunar að gera hér með þeim styrkjum, sem hér er farið fram á. Og þessir styrkir Norðmanna hafa á undanförnum árum verið mismunandi eftir því, hvernig fiskafurðir þeirra hafa selzt á erlendum mörkuðum, rétt eins og það, að við eigum nú við að etja ákveðna erfiðleika vegna lækkandi fiskverðs á okkar aðalmörkuðum, í Bandaríkjunum og Sovétríkjunum.

Enginn skyldi fagna því meira en ég, og ég vil ekki væna hv. þdm., þótt í stjórnarandstöðu séu nú, um það, að þeir mundu ekki fagna því eins og ég og aðrir, sem eru í stjórnarflokkunum nú, ef þetta breyttist á yfirstandandi ári. Það skyldi enginn fagna því meira og innilegar en ég, hafandi það starf, sem ég nú hef á hendi, ef fiskverð tæki að hækka á ný, og ýmsar fregnir bera þess vott, að um algjörlega óeðlilegt ástand sé á þessum mörkuðum að ræða, og við skulum vona, að svo sé og fljótlega greiðist úr þessu, þannig að sá vandi verði ekki eins erfiður og við blasir nú. Þetta vildi ég segja um ræður þessara hv. þm. beggja almennt, og í öðru lagi vil ég minna á örfá atriði, sem þeir gátu um í sínum ræðum.

Hv. 6. þm. Sunnl. talaði um, m.a. til að draga úr útgerðarkostnaði, að lækka útflutningsgjöldin. Hvað eru útflutningsgjöldin í dag? Hvert renna þessi gjöld? Þau renna til útgerðarinnar sjálfrar, þannig að það yrði af útgerðinni dregið og yrði þá að færast yfir á ríkissjóð. ef þessi gjöld yrðu lækkuð. Hvað þm. sagði hér í gær — og ég kallaði fram í hans ræðu — sem dæmi um það, að rn. hefði ekki sinnt till. vélbátaútgerðarnefndar, þá nefndi hann eitt atriði af mörgum, sem er ekki þörf á að rifja upp hér. Því var svarað í umr. um fsp. í hliðstæðu málí í Sþ. fyrir örskömmum tíma, að rn. hefði ekkert gert varðandi það að bæta mönnum það tjón, sem þeir hefðu orðið fyrir, vegna þess að síldveiði hér sunnan- og suðvestanlands hefði að mestu fallið niður, og taldi, að rn. hefði algjörlega vanrækt þessa till. vélbátaútgerðarnefndar. Það er rangt, eins og ég kallaði fram í í gær. Fiskifélaginu hefur verið falið að gera till. um, með hvaða hætti bezt verði fyrir þessu séð og bezt að því staðið, og L.Í.Ú. hefur verið beðið einnig um till. um sama efni. Fyrr en till. þessar liggja fyrir, vita menn ekki, hvað dæmið er stórt eða hve miklar fjárhæðir yrði hér um að ræða, og verður að meta það, þegar þeirri rannsókn er lokið. Þetta vildi ég að kæmi fram.

Að öðru leyti, til að lengja ekki umr. hér, vísa ég til þess svars, sem ég gaf í Sþ. varðandi það, hvað rn. hefði gert til þess að leysa úr till. vélbátaútgerðarn., og er óþarft að rekja það aftur hér.

Það var minnzt á það af hv. 5. þm. Reykn., að bátagjaldeyriskerfinu á sínum tíma hefði verið mjög hallmælt og það talið innleiða hvers konar spillingu, sem hann taldi að hefði nú sízt minnkað og jafnvel ætti að auka hana með þessu frv., sem hér lægi fyrir. Ég held, að ég fari ekki með rangt mál, og ég skal þá taka þá fullyrðingu mína aftur, ef hún reynist röng, en mig minnir, að sú ágæta og margnefnda vinstri stjórn hafi afnumið þetta bátagjaldeyriskerfi, áður en hún lét af völdum, og tekið upp annað kerfi til styrktar útgerðinni með sínum síðustu till. um bjargráð, áður en hún lét af störfum, þannig að jafnvel henni sjálfri var ljóst, að það kerfi var ekki nógu haldgott til að tryggja, að útgerð yrði hér áfram rekin.

Þá hefur einnig almennt verið talað um það, bæði með ljósum og óljósum fullyrðingum hv. beggja stjórnarandstæðinga, að þessi vandamál útgerðarinnar nú væru algjörlega óvenjuleg, og nánast látið í það skína, að íslenzk útgerð hefði aldrei átt við slíka erfiðleika að etja eins og hún hefur átt við nú. Ég er sjálfur fæddur og uppalinn við sjó og hef átt lífsafkomu mína lengst af ævinni undir því komna, hvernig þar hefur gengið til, og það þýðir þess vegna ekki að segja mér slíkar fullyrðingar sem þessar. Ég hef oft orðið ásjáandi þess, bæði á síðari árum og unglingsárum, að sveiflukenndir hlutir hafa átt sér stað í íslenzka sjávarútveginum. Og þessum hv. þm. er alveg eins fullkunnugt um það og mér, þó að kunningsskapur þeirra af þessum hlutum kunni að vera æðimisjafn áður, að sá atvinnuvegur í landinu, sem á allt undir því komið, hvernig verðlag á erlendum mörkuðum sveiflast til frá ári til árs, hann hlýtur að taka á sig mikla áhættu, hlýtur að taka á sig þá áhættu að geta orðið fyrir þungum áföllum af og til. Og það sama er að ske hér eins og oft hefur skeð áður. Ég minnist þess í ráðherratíð flokksmanna þessara ágætu stjórnarandstæðinga, að til stöðvana kom í íslenzkum sjávarútvegi út af sams konar erfiðleikum og nú er við að etja, þannig að það er bæði villandi og rangt að reyna að draga upp þá mynd, að nú sé í fyrsta skipti eða nánast í eina skiptið í sögu íslenzkrar útgerðar eða fiskvinnslu í landinu við einhverja erfiðleika að etja. Ég skal taka undir það með þeim hv. þm. báðum, að íslenzkur sjávarútvegur hlýtur að verða enn um ókomin ár burðarás íslenzks atvinnulífs og erfiðleikum hans verður þjóðin að mæta öll vegna þess, hve mikill grundvallaratvinnuvegur hann er, og leysa hans tímabundna vanda á hverjum tíma, eftir því sem kostur er á og viðunandi getur talizt að þeirra dómi, sem þar stýra málum.