10.03.1967
Efri deild: 50. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í B-deild Alþingistíðinda. (508)

147. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Frsm. meiri hl ( Jón Árnason):

Herra forseti. Sjútvn. hefur haft þetta mál til athugunar og rætt efni þess á fundi sínum. Það kom fljótlega í ljós, að innan n. var ekki samstaða um afgreiðslu málsins, enda hefur það leitt til þess, að fram eru komin þrjú nál. um málið.

Segja má, að frv. þetta um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins sé niðurstaða þess samkomulags, sem náðst hefur varðandi rekstur og fjárhagslegan grundvöll sjávarútvegsins á árinu 1967. Eins og fram kemur í frv., eru þær ráðstafanir, sem lagt er til að gerðar verði, að þessu sinni eins og stundum áður tvíþættar: annars vegar varðandi fiskverðið til þess að skapa fiskibátunum viðunandi grundvöll til rekstrarins og hins vegar fjárhagslegur styrkur til fiskvinnslustöðvanna. Að þessu sinni er það hraðfrystiiðnaðurinn, sem á við mikla erfiðleika að etja vegna þess mikla verðfalls, sem átt hefur sér stað á hraðfrysta fiskinum, og ekki er enn séð fyrir, hve mikil verðlækkunin kann að verða. En samkv. þeim upplýsingum, sem lágu fyrir um síðustu áramót, var talið, að meðaltalsverðlækkun á frysta fiskinum, miðað við meðalverð 1966, væri þá þegar orðið um 10.8%, og í sumum tilfellum hefur þessi verðlagaþróun haldið áfram, og er að sjálfsögðu mjög erfitt að segja fyrir um það í dag, hvað jafnaðarverð ársins 1967 muni reynast. Það er því augljóst mál, að hér var við óvenjumikið vandamál að etja.

Það er viðurkennt, að á undanförnum árum hafi átt sér stað allmikil verðhækkun á afurðum frystihúsanna. Hafði sú hagstæða þróun hjálpað þessum atvinnuvegi til þess að standa undir þeim aukna framleiðslukostnaði, sem jafnhliða hafði átt sér stað, bæði hvað snertir stórhækkuð vinnulaun og einnig hækkaði fiskverð til sjómanna og útgerðarmanna á þessu tímabili. Það, sem réð úrslitum varðandi ákvörðun verðlagsráðs um fiskverðið 1967, eru niðurstöður þeirra athugana, sem Efnahagsstofnunin hafði gert um afkomu bátanna, og einnig þær staðreyndir, að kjör þeirra sjómanna, sem bolfiskveiðar stunda, höfðu raunverulega versnað miðað við launakjör annarra sambærilegra starfsgreina, þar sem sjómennirnir höfðu ekki hlotið verðlagsuppbót á laun sín. Það var því talið óhjákvæmilegt, að fiskverðið hækkaði nokkuð með hliðsjón af þessu og einnig vegna útgerðarinnar, sem á árinu hafði orðið að taka á sig aukinn útgerðarkostnað.

Með hliðsjón af því, sem ég hef áður sagt um afkomu frystihúsanna, var augljóst, að þau gátu ekki staðið undir óbreyttu fiskverði án viðbótaraðstoðar, hvað þá hækkuðu fiskverði. Er því lagt til samkv. frv. þessu, að þau 8%, sem samkomulag náðist um, að fiskverðið skyldi hækkað, verði greidd úr ríkissjóði og þeim auknu útgjöldum mætt með þeim ráðstöfunum, sem felast í 2. gr. frv., auk þeirra skýringa, sem er að finna í aths. við einstakar greinar frv. Samtals er þá gert ráð fyrir, að heildarupphæðin vegna fiskverðshækkunarinnar nemi um 100 millj. kr.

Í fjárl. yfirstandandi árs er fjárveiting að upphæð 80 millj. kr. á 16. gr. B, og skal upphæðinni verja til aðstoðar við sjávarútveginn. Er hér um að ræða sömu upphæð og varíð var í þessu skyni á s.l. ári. Samkv. þessu frv. er einnig gert ráð fyrir, að upphæðinni verði í ár varið að mestu leyti á sama hátt og gert var 1966, þó er um nokkra orðalagsbreytingu að ræða varðandi skreiðarframleiðsluna, og hefur meiri hl. n: talið rétt að orða þá grein um að nokkru leyti og flytur um það sérstaka brtt. Það hefur komið í ljós, að vegna minnkandi línuveiða hefur sú upphæð, sem ætluð er til stuðnings þeirri útgerð, 20 millj, kr., ekki notazt að fullu miðað við 25 aura uppbótina, eins og upphaflega var ákveðið. Hæstv. sjútvmrh. beitti sér fyrir því á s.l. hausti, að línustyrkurinn var aukinn síðustu mánuði ársins þannig að öll upphæðin kemur til styrktar línuútgerðinni. Er víst um það, að þessi ráðstöfun var vel séð af útvegsmönnum og sjómönnum og ýtti verulega undir það, að línuútgerð varð allmiklu meiri á s.l. hausti en sum undanfarin ár. Að þessu sinni er hins vegar ákveðið, að uppbótin á línufisk verði 30 aurar pr. kg. Það er álit margra — og ég er einn þeirra, að þessi styrkur, sem línuútgerðinni er veittur, sé sízt of mikill. Hér er að vísu um veiðiskap að ræða, sem hefur orðið undir í samkeppninni, en það er að sjálfsögðu m.a. vegna þess, að hér hafa orðið hvað minnstar tækniframfarir enn sem komið er. Hitt er svo staðreynd, að þessi útgerð veitir hvað bezt og fjölbreyttast hráefni, sem völ er á, og á sinn stóra þátt í því að afla íslenzka fiskinum góðs álits á erlendum markaði.

Af þeim 80 millj. kr., sem ætlaðar eru í fjárl. til aðstoðar við sjávarútveginn, verður svo sem á s.l. ári varið 50 millj. kr. til framleiðniaukningar frystihúsanna og annarra endurbóta í framleiðslu frystra fiskafurða. Er hér um sama orðalag að ræða og var í samnefndu frv. 1966. Sú breyting er nú tekin upp að ósk framleiðenda, að fé þetta verður nú að verulegu leyti greitt framleiðendum, jafnóðum og framleiðslan fellur til, í stað þess, sem áður var, að hagræðingarféð var greitt verulega eftir á og þá í stærri slumpum. Vegna þess nýja viðhorfs, sem skapazt hefur í sambandi við það mikla verðfall, sem átt hefur sér stað á afurðum frystihúsanna, er hér um nýtt vandamál að ræða, vandamál, sem ekki er búið til hér heima. Það er því ekki óeðlilegt, að við þessum vanda sé snúizt að sumu leyti með öðrum hætti en ef þar hefði verið um að ræða, að allir erfiðleikarnir stöfuðu af innanlands, heimatilbúnum áhrifum vegna verðbólgu, kauphækkana eða annars verðlags, sem áhrifa gætir í þessari framleiðslu.

Það er viðurkennt í aths. með þessu lagafrv., að það verðfall, sem þekkt var um s.l. áramót, væri þegar orðið um 11%. Síðan er vitað, að enn hefur til komið eitthvert meira verðfall. Hvort þessi þróun heldur áfram í sömu átt, verður ekki sagt um eða hvort verðhækkun getur átt sér stað, þegar lengra kemur fram á árið. Það verður því að telja, að sú ákvörðun, sem ríkisstj. hefur tekið til að firra þjóðina þeim vandræðum, sem við blasa, ef ekkert væri að gert, sé spor í rétta átt, og ber að fagna því samkomulagi, sem náðst hefur við frystihúsaeigendur og byggt er á þeim ráðstöfunum, sem frv. þetta gerir ráð fyrir.

Oft hefur verið um það rætt, hvað sveiflur á íslenzkum sjávarútvegi geti haft alvarleg áhrif á lífsafkomu þjóðarinnar. Af þeirri reynslu höfum við byggt upp sjóð, sem á að tryggja útgerðina fyrir mestu áföllum, þegar óvenjulegan aflabrest ber að höndum. í aflatryggingasjóð leggjum við nokkuð af mörkum af tekjum betri áranna, og vegna þess að þjóðin öll á hér mikið í húfi, hefur hið opinbera einnig talið rétt að styrkja þessa líftryggingu með nokkru fjármagni árlega. Ég held, að öll íslenzka þjóðin sé sammála um, að hér var mikið gæfuspor stigið, þegar aflatryggingasjóðurinn á sínum tíma var stofnaður.

Hinn þátturinn hefur einnig oft verið ræddur, en minna orðið úr framkvæmdum, þ.e. að byggja upp sjóð, sem verði þennan áhættusama atvinnuveg fyrir þeim áföllum, sem þessu frv. er öðrum þræði ætlað að forða frá. Sú verðtrygging, sem hér er lagt til að stofnuð verði með sjóðsmyndun samkv. 6. gr. frv., er að vísu fyrst og fremst miðuð við ráðstafanir fyrir yfirstandandi ár. En ef betur tekst til en á horfist, kann svo að fara, að nokkur upphæð verði afgangs, sem verður þá til ráðstöfunar í því skyni, að stofnaður verði verðjöfnunarsjóður fyrir framtíðina, ef um það næst samkomulag milli þeirra aðila, sem hér eiga mestra hagsmuna að gæta.

10. gr. þessa frv. kveður é um það, að í samráði við samtök framleiðenda og þær lánastofnanir, er sérstaklega starfa fyrir sjávarútveginn, er gert ráð fyrir, að ríkisstj. láti fara fram athugun á rekstraraðstæðum og fjárhagslegri uppbyggingu frystiiðnaðarins. Á grundvelli þeirrar athugunar er síðan gert ráð fyrir, að gerðar verði till., er miði að því að bæta uppbyggingu iðnaðarins, m.a. með aukinni hráefnaöflun og fjárhagslegri endurskipulagningu. Hér er um stórmál að ræða og athugun. sem óhjákvæmilega tekur nokkurn tíma að framkvæma. Þá eru einnig í 10. gr. frv. ákvæði um heimildir til handa ríkisábyrgðasjóði til þess að gefa eftir kröfur á einstök frystihús, ef slíkt verður talið óhjákvæmilegt til þess að koma þeim á viðunandi grundvöll, enda gegni sáma máli um aðra kröfuhafa, eftir því sem eðlilegt þykir.

Þá hefur hæstv. sjútvmrh. upplýst um þær ráðstafanir, sem gerðar verða í lánamálum vélbátaflotans eða minni bátanna, sem viðurkennt er, að eiga við óvenjumikla örðugleika að etja. Á þeirra málum verður þannig tekið, að þeim gefst kostur á að semja um sín vanskil á þeim grundvelli, að lán þeirra verði framlengd í 3 og 5 ára lán eftir því, hvort um er að ræða lán vegna tækjakaupa eða stofnlán. Um þessi mál hefur verið samið við Landssamband ísl. útvegsmanna, og hafa þeir sætt sig við þau tilboð, sem fyrir liggja í þessum efnum.

Eins og fram kemur í nál. frá meiri hl. sjútvn., mælir hann með því, að frv. verði samþ. með tveimur breyt.

Önnur breyt. er við 6. gr. frv., en þar leggjum við til, að upphæð sú, sem ríkissjóður leggur til verðtryggingarsjóðsins, hækki um 10 millj. og verði 140 millj. kr. Það þótti rétt með tilliti til þeirrar áhættu, sem sjóður þessi hefur, að hafa upphæðina ekki lægri, og er það í samræmi við það, sem fram kom hjá hæstv. sjútvmrh. í framsögu fyrir málinu.

Hin brtt. er við 9. gr., sem er nánast orðalagsbreyting. Það er vitað, að sú grein sjávarútvegsframleiðslunnar, sem hefur haft hvað veikastan grundvöll á að byggja, er skreiðarframleiðslan: En þrátt fyrir þá hækkun, sem átt hefur sér stað á verðlagi skreiðarinnar, sem þó er fyrst og fremst vegna þeirrar sölu, sem tekizt hefur nú hin síðari ár til Ítalíu, er það álit okkar, að ekki sé rétt að fella

skreiðina út úr þessari gr. frv., og leggjum því til, að gr. orðist eins og þar segir.

Herra forseti. Ég sé svo ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar um málið, en legg til, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem meiri hl. n. leggur til, og því verði síðan að lokinni þessari umr. vísað til 3. umr.