10.03.1967
Efri deild: 50. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 733 í B-deild Alþingistíðinda. (510)

147. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Frsm. 2 minni hl. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls fjallaði ég nokkuð um ástandið í sjávarútveginum almennt og hraðfrystiiðnaðinum, og ég ætla ekki að endurtaka það, sem ég þá sagði, en vil aðeins undirstrika nokkur atriði, sem eru meginatriði þessa máls, sem hér er um að ræða. Ég vil undirstrika, að þau úrræði, sem lögð eru til með því frv., sem hér um ræðir, eru í allan máta hrein bráðabirgðaúrræði og leysa engan vanda til frambúðar. Hitt mun rétt vera, og á það ber ég engar brigður, að í dag er hag útgerðarinnar, bæði fiskibáta og hraðfrystihúsa, þannig komið, að þessara bráðabirgðaúrræða er vafalaust þörf. Það blandast engum hugur um, að nauðsyn var að gera þær ráðstafanir, sem gerðar voru um síðustu áramót, til þess að hækka fiskverðið lítillega, og voru þær ráðstafanir þó svo naumar, að það er hæpið, að þær nái tilgangi sínum. Fiskverðið er tvímælalaust of lágt til þess að tryggja útgerð fiskibáta, svo að vel sé. Og það er einnig vafalaust rétt, og að því hafa verið færð rök, að hraðfrystihúsin þurfa á þeim stuðningi að halda, sem lagt er til með þessu frv., þau þurfa, eins og nú er komið, að fá nokkra tryggingu í sambandi við hugsanlegt áframhaldandi verðfall á erlendum mörkuðum, og það er meira að segja vafasamt, að sú trygging, sem hér er um að ræða, dugi þeim til þess að tryggja sæmilegan rekstur þeirra og skaplega afkomu á yfirstandandi ári. Og svo mikið er víst, að þessi trygging, enda þótt hún kosti allmikla fjármuni, er engin varanleg lausn á vanda hraðfrystiiðnaðarins í landinu. Þar þarf vissulega annað og meira að koma til. Á þetta hefur verið margsinnis bent og um það flutt frv. og till., enda þótt árangurinn hafi orðið næsta lítill, vegna þess að meðal ráðamanna virðist skilningur ekki hafa verið fyrir hendi á því, að úrbóta og stefnubreytinga væri þörf.

Það, sem nú er vafalaust stærsta málið og skiptir öllu fyrir hraðfrystiiðnaðinn í landinu, er, að nú þegar sé hafizt handa um að gera róttækar ráðstafanir fyrir forgöngu ríkisvaldsins eða a.m.k. með öflugum stuðningi þess og stuðningi lánastofnana til þess að tryggja mjög svo aukna hráefnisöflun fyrir hraðfrystiiðnaðinn og fyrir aðrar fiskvinnslustöðvar. Þetta er sú mesta og nauðsynlegasta trygging, sem hraðfrystihúsin geta fengið fyrir því, að þeim verði kleift að starfa með sæmilegum árangri á komandi tímum. En hér þurfa að koma til margar og samræmdar aðgerðir, ef á að tryggja þessa hráefnisöflun svo, að sæmilega eða vel sé. Í fyrsta lagi þarf að gera miklu ákveðnari og meiri ráðstafanir en gert hefur verið og gert er með þessu frv. til þess að tryggja rekstrargrundvöll þess fiskibátaflota, sem til er nú í landinu, en er ekki gerður út nema að mjög takmörkuðu leyti, í hæsta lagi um hávertíð og jafnvel tæplega það. Hér er um það að ræða að nýta þann flota, sem nú er þó tiltækur, nýta hann á þann hátt, að hann færi björg í bú. Þetta mikilvæga atriði snertir að sjálfsögðu það, sem ég ræddi um hér áðan, að fiskverðið, hráefnisverðið, hefur lengi og er enn óeðlilega lágt, á því þarf vissulega að verða breyting.

Í öðru lagi ber brýna nauðsyn til að endurnýja bátaflotann, þann hluta flotans, sem stundar þorskveiðar og aðrar veiðar bolfisks. Endurnýjun þess hluta flotans þarf vissulega að halda áfram, þar á má ekkert hlé verða, eins og verið hefur undanfarin ár, þegar þeir bátar eru stórum færri, sem komið hafa í flotann, en hinir, sem hafa verið teknir út af skipaskrá. Ríkisvaldið þarf að stuðla hér að á raunhæfari hátt en gert hefur verið, og það þarf einnig og alveg sérstaklega að stuðla að því, að hér verði reynd ýmis ný tækni, sem farið er að hagnýta erlendis hjá öðrum fiskveiðiþjóðum, tækni, sem miðast bæði við það að spara mannafla og ekki síður við hitt að tryggja stórbætta meðferð á fiski, þannig að hægt sé að vinna úr fiskinum, sem á land kemur, gæðavöru, en það verði ekki annars eða þriðja flokks vara. Hér skortir afar mikið á, að þessum málum hafi verið sinnt eins og skyldi. Það hefur, eins og kunnugt er, verið þannig á undanförnum árum, að magnið hefur skipt mestu, en gæðin miklu minna máli. Þessu þarf að snúa við, því þarf að verða öfugt farið. Ef það er rétt, sem ýmsir óttast, að um ofveiði sé eða geti verið að ræða á fiskimiðum okkar og yfirleitt á fiskimiðum í norðurhöfum, hlýtur takmarkið, sem að skal stefna, að vera það að auka verðmætið án þess að þurfa að auka magnið. Hér hefur lengi viðgengizt, að það hefur verið gerður óeðlilega og ég vil segja háskalega lítill verðmunur á fiski eftir því, hvort hann er gæðavara eða kannske léleg vara. Þetta þarf að breytast, og það gerist tæplega með öðrum hætti en þeim, að afskipti ríkisvaldsins komi til með ýmsum hætti.

Við 1. umr. þessa máls vék ég stuttlega að því, hvernig komið er fyrir togaraflotanum. Þar hefur orðið átakanleg öfugþróun nú á undanförnum árum. En þegar rætt er um erfiðleika hraðfrystihúsanna og nauðsyn þess að gera umbætur í sambandi við rekstur þeirra, kemur það mjög til tals og hefur veruleg áhrif á allt það dæmi, að togararnir eru nú svo að segja algerlega hættir að leggja upp fisk til vinnslu hér. Það stafar í fyrsta lagi af því, að togaraútgerðin má nú heita að fara í rúst hér hjá okkur, og svo er verðmunurinn gífurlegur eftir því, hvort lagt er upp til vinnslu hér heima eða ísaður fiskur seldur á erlendum markaði. En það vil ég leggja áherzlu á og undirstrika alveg sérstaklega, að ég er sannfærður um, að hraðfrystiiðnaður í stórum stíl og með vinnslu allt árið verður ekki rekinn hér á landi, án þess að togaraafli komi til. Þetta er staðreynd, sem menn verða að gera sér ljósa. Bátaflotinn er þess ekki umkominn og verður þess ekki umkominn á nálægum tímum a.m.k. að afla hinum stórvirku hraðfrystihúsum nægilegs fisks, til þess að rekstur þeirra geti verið tryggur og eðlilegur meginhluta ársins eða helzt allt árið, eins og nauðsynlegt væri. Hitt er einnig ljóst, að verði togaraútgerðin algerlega afvelta,, verði hún lögð niður, erum við þess ekki umkomnir lengur að nýta fiskimiðin við strendur landsins og því síður að nýta að einu eða neinu leyti fjarlæg fiskimið. Menn virðast ekki hafa á því nægilegan skilning vegna þess, hve erfiðlega hefur gengið fyrir togaraútgerðinni nú um sinn, að botnvarpan er stórvirkasta veiðitæki, sem enn hefur verið fundið upp, og hún er að flestra dómi, sem til þekkja, skaðminna veiðitæki, að því er stofnana varðar og að því er sjálfan fiskinn og meðferð hans varðar, heldur en netaveiði og nótaveiði, og togarar eru, eins og ég hef oft bent á, einu veiðiskipin, sem enn þekkjast og geta veitt svo að segja á hvaða fiskimiðum sem er, geta veitt allan ársins hring og næstum því hvernig sem viðrar, nema í hreinum aftökum. Bátar eru hins vegar að verulegu leyti bundnir við hin grynnri mið. Þeir eru bundnir við vertíðarveiðar, þeir eru bundnir við það, þegar fiskur gengur á grunnmið, og þeirra veiðar takmarkast allmikið af veðráttu. Togaraútgerð hefur hvað eftir annað á undanförnum 60 árum eða þar um bil verið einhver þróttmesta útgerðin, sem við höfum stundað. Togaraútgerðin hefur hvað eftir annað átt sinn þátt í því að bjarga þjóðinni að verulegu leyti eða sjávarþorpum og útgerðarstöðum.

Nú hefur, eins og alkunnugt er, á síðustu árum orðið bylting að því er snertir gerð togara. Til hafa komið nýir togarar, sem venjulega eru kallaðir „skuttogarar“, þó að það sé aðeins ein af þeim stórbreytingum, sem orðið hafa, að því er snertir smíði og gerð hinna nýjustu togara, og allar fiskveiðiþjóðir svo að segja nema Íslendingar eru þegar byrjaðar að hagnýta þessar nýju gerðir togara, og þær hafa, er mér óhætt að segja, sýnt yfirburði sína fram yfir hina gömlu togara með margvíslegu móti. Fréttir um það, að aðrar fiskveiðiþjóðir séu að breyta frá gömlum skipum og til nýtízku skuttogara, berast hvaðanæva að. Nú síðast fréttist um það, að fyrir lægi stórfelld uppbygging flota Nýfundnalandsmanna á þann veg, að þar komi skuttogarar til, og nánustu frændur okkar, Færeyingar, eru með áætlanir um að koma sér upp allmyndarlegum flota skuttogara.

Því miður er það nú af í bili, sem áður var, þegar við Íslendingar vorum forustuþjóð, að því er snerti togaraútgerð. Við höfum átt oftar en einu sinni einna bezt búinn og myndarlegastan togaraflota, sem um hefur verið að ræða. En nú um nokkuð langt skeið hefur í þessu efni sigið á ógæfuhlið, og hefur það með öðru haft sín áhrif að því er varðar frystiiðnaðinn í þessu landi. Ég vil því leggja á það ríka áherzlu, að einhver mesta umbótin fyrir hraðfrystiiðnaðinn í landinu til frambúðar er í því fólgin að byggja hér upp að nýju myndarlegan og nýtízkulegan togaraútveg. Og sú uppbygging togaraflotans, undirbúningur að henni, verður að hefjast strax, ef ekki á illa að fara. Og hér á ríkisvaldið að hafa forgöngu. Það verður að beita sér fyrir því á svipaðan hátt og það gerði eftir síðari heimsstyrjöld að láta smíða til reynslu nokkra togara og fá þannig þá nauðsynlegu reynslu, sem fyllri endurnýjun togaraflotans verður að sjálfsögðu að byggjast á.

Í sambandi við rekstur hraðfrystiiðnaðarins má gera ráð fyrir, að það séu einkum tvær gerðir togara, sem til mála kemur að reka hér við land og væri brýn nauðsyn, að hingað yrðu keyptir, til þess að hægt yrði að prófa rekstrarhæfni og rekstrarmöguleika þeirra. Þar er annars vegar um að ræða togara, sem sennilega yrðu af stærðinni 500 tonn eða þar um bil, togara, sem ísi fisk og leggi hann upp í hraðfrystihús, og séu þeir við það miðaðir að mestu eða öllu leyti. Með þeirri tækni, sem nú er nýjust að því er varðar slíka litla skuttogara, að því er varðar útbúnað lesta og að því er varðar losun afla o.fl., er hægt með slíkum skipum sem þessum að tryggja það, að fiskurinn helzt óskemmdur og verður fyrsta flokks hráefni, ég vil segja nokkurn veginn eða algerlega jafngott hráefni og línu- og færafiskur eða sá bezti fiskur, sem um getur verið að ræða. Í annan stað þyrfti hið allra fyrsta að gera hér tilraun eða tilraunir með stærri skuttogara, sennilega 1000–1400 tonna skip, skip, sem bæði gætu stundað veiðar á fjarlægum miðum, þegar um það væri að ræða, og hagnýtt hin dýpri mið hér við land. Þessir stóru togarar, það væri við það miðað, að þeir heilfrysti fiskinn og landi honum þannig í hraðfrystihús. Með þeim hætti er einnig hægt að koma með ágæta vöru til vinnslu, og nú er búið að leysa þann vanda, sem áður var allmikill, að það er hægt að þíða upp þennan heilfrysta fisk og vinna hann síðan í hraðfrystihúsum á sama hátt og um algerlega nýjan fisk væri að ræða, og í rauninni væri þetta nýr fiskur á þann veg, að gæði hans væru hin sömu eða svipuð og um nýjan fisk væri að ræða.

Þetta held ég hljóti að vera framtíðin að því er varðar a.m.k. rekstur hinna stærri hraðfrystihúsa. Með þessum hætti, með útgerð slíkra togara sem þessara gætu hraðfrystihús komið sér upp hráefnisbirgðum, sem geymdust óskemmdar vikum saman og væri hægt að taka til vinnslu jöfnum höndum eða smám saman, eftir því sem þörf er á og mannafli er fyrir hendi. Þetta gæti gjörbreytt rekstrarmöguleikum hraðfrystihúsanna. Nú er það oft þannig, að þegar fiskur berst einhver að ráði, þarf við hraðfrystihúsin að vinna e.t.v. nótt og dag í 1, 2 eða 3 sólarhringa, síðan er oft margra daga hlé, þangað til kemur ný skorpa. Með hinni breyttu tækni, sem ég hef vikið hér að og byggist á hráefnisöflun togara, sem gætu heilfryst fiskinn, mundi aðstaða hraðfrystiiðnaðarins gjörbreytast, vinnslutilhögunin mundi gjörbreytast. Þá mætti segja, að hlutunum væri þannig fyrir komið, að hraðfrystiiðnaðurinn gæti orðið í líkingu við hverja aðra verksmiðjuvinnu, þar gæti komizt á nokkuð fastur vinnutími og tiltölulega stöðug vinnsla. Ég vil segja, að það er með öllu óafsakanlegt, að ekki skuli hafizt handa fyrir frumkvæði ríkisvaldsins að gera tilraunir í þessu skyni, — tilraunir, sem síðan mætti byggja á frekari framkvæmdir í þessum efnum.

Að því er snertir það frv., sem hér er um að ræða, og einstakar greinar þess, vil ég aðeins segja til viðbótar við það, sem ég mælti hér við 1. umr., að að því er varðar tekjuöflunarleiðir þessa frv. lít ég þannig á, að fráleitt sé að skerða hið nauma ríkisframlag til verklegra framkvæmda hins opinbera og skerða framlagið til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Það er staðreynd, sem ekki hefur verið á móti mælt og hæstv. fjmrh. viðurkenndi fyllilega við 1. umr. þessa máls, að hlutur opinberra aðila í heildarfjárfestingunni hefur farið hlutfallslega minnkandi á undanförnum árum og það verulega minnkandi. Aukin fjárfesting í landinu hefur fyrst og fremst verið á vegum einkaaðila, og á það vil ég leggja áherzlu, að á meðan slík fjárfesting er algerlega ótakmörkuð, algerlega skipulagslaus, er ekkert, sem réttlætir það, að bráðnauðsynlegar opinberar framkvæmdir, hvort heldur á vegum ríkisins eða bæjar- og sveitarfélaga, séu látnar sitja á hakanum og dregnar saman. Þegar það er á hinn bóginn upplýst, að ríkistekjurnar árið 1966 hafa farið a.m.k. 800 millj. kr. fram úr áætlun fjárl. og þegar það er upplýst eða a.m.k. ómótmælt, að greiðsluafgangur er eitthvað á milli 400 og 500 millj., virðist í alla staði eðlilegt, að þeim útgjaldaliðum, sem leiðir af samþykkt þessa frv., sé mætt með því að greiða þær fjárhæðir af greiðsluafgangi ársins 1966 í stað þess að fara hina leiðina, sem lagt er til í þessu frv., að skera niður verklegar framkvæmdir. Í samræmi við þessa skoðun hef ég lagt fram eina brtt. við þetta frv. á þá lund, að í stað niðurskurðar verklegra framkvæmda ríkisins um 65 millj. og í stað 20 millj. kr. skerðingar á framlagi til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verði þetta fé tekið af greiðsluafgangi ríkissjóðs s.l. ár.

Um þetta mál í heild vil ég svo að lokum aðeins segja þetta: Frv. það, sem hér er á ferðinni, markar því miður enga stefnubreytingu að því er varðar afstöðu ríkisvalds og Alþ. til sjávarútvegsins og hraðfrystiiðnaðarins. En eigi okkur að takast að halda hér uppi góðum lífskjörum, eigi okkur að takast að búa við atvinnuöryggi á komandi árum, verður að mínu viti að taka upp algerlega nýja stefnu gagnvart undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar og þá alveg sérstaklega sjávarútvegi og fiskiðnaði. Með skipulegu átaki verður að endurnýja fiskiskipaflotann. Stóraukin hráefnisöflun er eina varanlega lausnin á vanda hraðfrystiiðnaðarins. En á meðan engu öðru og haldbetra er til að tjalda en þeim ráðstöfunum, sem lagt er til, að gerðar verði með þessu frv., tel ég ekki rétt að standa gegn því, að þær séu gerðar sem alger og nauðsynleg bráðabirgðaúrræði. En ég legg á það áherzlu, að þetta eru einungis bráðabirgðaúrræði og þau hrökkva því miður ákaflega skammt.