10.03.1967
Efri deild: 50. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í B-deild Alþingistíðinda. (511)

147. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess að þakka hv. sjútvn. fyrir mjög fljóta og góða afgreiðslu á þessu frv. í n., sem lýsti sér í því, hve nál. komu fljótt fram og n. vann sín störf rösklega.

Aðaltilefni þess, að ég stend hér nú upp núna, er ekki, að komið hafi ný atriði fram í umr. umfram tvær spurningar, sem sérstaklega var til mín beint, og svo eitt atriði almenns eðlis, sem ég mun víkja að síðar, sem minnzt hefur verið á í umr. til þessa.

Í fyrsta lagi spurði hv. 6. þm. Sunnl. (HB) að því, hver hefði orðið niðurstaðan af dreifingu þess afgangs, sem sýnilegt var, að yrði af 25 aura uppbótinni á síðari hluta s.l. árs. Samkv. upplýsingum, sem ég fékk frá Fiskifélaginu nú rétt áðan, nam þessi viðbótargreiðsla á þessari tegund fisks 35 aurum á línu- og handfærafisk veiddan síðari helming ársins sem leið, þannig að heildaruppbótin á þennan fisk á þeim tíma hefur verið um 65 aurar á kg.

Annað atriðið, sem hv. þm. spurði um, var viðvíkjandi útreikningi þeirra uppbóta eða þess styrks, sem gert er ráð fyrir í frv., að ríkissjóður eða ríkisstj. aðstoði við greiðslu á eða sjái um greiðslu á. Taldi hann, að eitt þrepið í þessari greiðsluaðferð væri æðivafasamt, þar sem þá væri nánast hagnaður fyrir frystihúsin, að verðfallið yrði sem næmi 15%, þó að tap væri, vegna þess, hve uppbótin til þeirra væri á því stigi óeðlileg. Ég hef ekki aðstöðu til þess að fara eins nákvæmlega ofan í þann útreikning og skyldi, en mér sýnist, að þó að þetta stæði, sem ég skal ekki á þessu stigi málsins rengja, sé báðum megin við uppbótina með þeim hætti, bæði í 14% og 16% með þeim hætti, að ekki sé þarna um verulega röskun að ræða. En það er sjálfsagt, að þetta verði endurskoðað undir meðferð málsins hér á hv. Alþ., og ef þarna er um eitthvað óeðlilegt að ræða umfram það, sem samið hefur verið um, verði það endurskoðað. En ég lít svo á, meðan annað er ekki upplýst, að öll þau atriði, sem í frv. eru, séu beint og óbeint liður í því samkomulagi, sem gert var við hlutaðeigandi aðila. Ég mun því ekki flytja brtt. við frv. Það verður þá að koma frá þeim, sem gagnrýna það. Það er sjálfsagt, að þetta verði athugað, þó að ég telji, að í þessu geti varla falizt mikil hætta. Þar sem um er að ræða meðaltalsverðfall á 20–30 mörkuðum, þó að tveir aðalmarkaðir beri þetta uppi, getur varla orðið mikil tilhneiging hjá hraðfrystihúsunum til þess að spyrna við eða stöðva verðfallið endanlega á 15%. Þetta er meðaltalsverðfall á öllum þeim mörkuðum, sem við verzlum við, sem við verður miðað. Það er sem sagt rétt og eðlilegt, að það verði skoðað betur meðan málið er til meðferðar hér á hv. Alþ. En ef það reynist svo, eins og ég sagði áðan, að þarna sé um óeðlilega reikningsaðferð að ræða og ekki hafi verið gert ráð fyrir því í þessu samkomulagi, þá er eðlilegt, að það verði endurskoðað. En ég vil aðeins upplýsa það í sambandi við þessa fsp. hv. þm., að það er ekki krafa sjútvmrn., að þessi útreikningsaðferð skyldi viðhöfð, og eins og ég áðan sagði liður í samkomulagi, sem fulltrúar ríkisstj. gerðu með samþykki ríkisstj. við þessa aðila, sem þarna áttu hlut að máli.

Nú hefur oft verið á það minnzt og var reyndar gert af mér sjálfum í framsöguræðu minni, hve alvarleg þróun hefði átt sér stað í togveiðiskipaflotanum og hve hrörnun hans hefði orðið ör á skömmum tíma, og er óþarft að rekja það nánar. Þær tölur blasa við öllum og eru öllum opinberar, hvaða þróun þar hefur átt sér stað. Það eru allir sammála um, að við henni verði með einhverjum hætti að spyrna. Sannleikurinn er sá, að rekstur þeirra skipa, sem fyrir eru í landinu, hefur gengið það illa, að fáir, svo að ég segi sárafáir aðilar hafa bókstaflega leitt hugann að því að fá slík skip til rekstrar, ef ekki ættu sér stað stórfelldar breytingar á útgerðarkostnaði togveiðiskipa frá því, sem nú er í landinu, og hv. 5. þm. Reykn. gerði þetta að sérstöku umræðuefni í framsöguræðu sinni fyrir nál. sínu hér áðan, og get ég að sjálfsögðu undir flest tekið af því. — Það ástand, sem í þessum málum ríkir, er alls ekki æskilegt. En mér þykir rétt að nota þetta tækifæri, sem hér gefst, til þess að lýsa því yfir, að til athugunar er nú hjá ríkisstj., með hvaða hætti verði bezt greitt fyrir kaupum á 3–4 togveiðiskipum af skuttogaragerð. Áætlað er, að skip þessi verði af mismunandi gerðum eða stærðum, þannig að sem raunhæfastur grundvöllur fáist undir framtíðarskipan þessara mála varðandi endurnýjun togaraflotans. Þetta taldi ég rétt, að kæmi fram nú við þessar umr. hér, þar sem þetta atriði málsins hefur verið inn í umr. tekið.

Ég ítreka svo þakklæti mitt til sjútvn. fyrir mjög góða og skjóta afgreiðslu málsins í nefnd.