10.03.1967
Efri deild: 50. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 740 í B-deild Alþingistíðinda. (513)

147. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það er ekki ætlun mín að fara að stuðla að löngum framhaldsumr. um þetta mál. Það hefur verið rætt hér hófsamlega og þess vegna ekki ástæða til þess að fara að hleypa í það neinum ofsa. En það eru þó viss atriði, sem gera það að verkum, að það er óumflýjanlegt fyrir mig að standa hér upp og segja nokkur orð.

Það kom auðvitað hvorki mér né öðrum neitt á óvart, þótt hv. stjórnarandstæðingar segðu, að það væri mjög auðvelt að mæta öllum vanda með því að láta ríkissjóð borga, því að þótt það heiti að taka af greiðsluafgangi, er það að sjálfsögðu aðeins ein aðferð til þess að láta ríkissjóðinn greiða þetta fé. Nú má út af fyrir sig segja, að það væri ekkert við það að athuga undir venjulegum kringumstæðum, ef greiðsluafgangur væri fyrir hendi til þess að standa undir slíkum greiðslum í eitt skipti, eins og líka er gert ráð fyrir; að sé með verðjöfnunarsjóðinn. En þannig standa sakir, eins og ég upplýsti við 1. umr. málsins, að það er ekki til staðar neinn greiðsluafgangur til þess að greiða þetta fé nema með því móti að greiða ekki skuldir ríkissjóðs við Seðlabankann, sem eru lausaskuldir; yfirdráttarskuldir og með algerlega óeðlilegum hætti og myndast á erfiðleikaárum, — greiðsluafgangur er ekki til staðar til þess að greiða upp í þessi framlög, ef þær skuldir eiga að greiðast. Og það er vitanlega, þegar vel árar, eins og gert hefur s.l. ár, sjálfsögð regla og skylt að fylgja því meginsjónarmiði að nota þá greiðsluafgang, ef verður, til þess að jafna upp yfirdrátt á fyrri árum. Annað er ekki verjanlegt. Og ef menn vilja fylgja ábyrgri fjármálastjórn, sem ég efa ekki, að hv. stjórnarandstæðingar vilji í hjarta sínu fylgja, þó að till, þeirra séu nokkuð á annan veg æðioft, efast ég ekkert um, að þeim er það jafnljóst og mér, að það væri algerlega í öfuga átt og sýndi fullkomið ábyrgðarleysi að fara að ausa út greiðsluafgangi á pappírnum, sem hefur orðið á s.l. ári, í stað þess að greiða yfirdráttarskuldir við Seðlabankann. Þá er í rauninni aðeins verið að lána út fé Seðlabankans, og væri þá vissulega meiri ástæða til þess að taka upp þann hátt, sem stjórnarandstaðan í Finnlandi hafði nýlega á. Þegar ríkisstj. þar ákvað að taka 200 millj. marka lán í ríkisbankanum upp í þarfir ríkisins, gagnrýndi stjórnarandstaðan það harðlega, vegna þess að, þetta sýndi ábyrgðarlausa fjármálastjórn og stuðlaði beinlínis að verðbólguþróun í þjóðfélaginu, sem þessi ráðstöfun mundi einnig að sjálfsögðu gera nákvæmlega eins, því að hún er ekki annað en þá ný lántaka hjá Seðlabankanum. En engu að síður, eins og ég áðan sagði, kom hvorki mér né öðrum á óvart, að á þetta yrði bent, að það væri ósköp einfalt til þess að losna við óvinsæla ráðstöfun, að skera niður um 10% verklegar framkvæmdir, þá mætti láta taka þetta af greiðsluafgangi og sleppa þá að greiða þær lausaskuldir, sem myndazt hafa undanfarin ár.

En það var ekki þetta, sem ég vildi ræða um, heldur annað, sem ég kemst ekki hjá því að gera aths. við og mótmæla mjög harðlega. En það var sú staðhæfing hv. 6. þm. Sunnl., að ríkisábyrgðasjóður hefði verið stórlega misnotaður sem lánasjóður fyrir ákveðna aðila. Þetta er vissulega mjög þung ásökun, sem ekki er hægt undir að liggja. Hv. þm. gerði að vísu enga tilraun til þess að færa þeim orðum sínum stað, til rökstuðnings jafnóhæfilegri ásökun, sem er að sjálfsögðu í senn bæði ásökun á fjmrn. sem yfirstjórnanda þessa sjóðs og einnig Seðlabankann, sem nú annast um allan rekstur sjóðsins og innheimtu til hans. Rn. hefur ekki, eftir að ríkisábyrgðasjóður tók til starfa, haft nein afskipti af innheimtustarfsemi sjóðsins. Og Seðlabankinn hefur, að því er ég veit, lagt á það ríka áherzlu að innheimta, eftir því sem kostur hefur verið á, allt það, sem auðið hefur verið að innheimta. Hinu er ekki að leyna, að ríkisábyrgðir eru, ekki sízt frá gamalli tíð, meðan þær voru veittar með þeim hætti, sem þá var gert, vægast sagt ekki allar upp á marga fiska, þ.e.a.s. tryggingarnar fyrir þeim, og þetta hefur leitt til þess, að það hefur tapazt mjög verulegt fé. Hins vegar liggur það ljóst fyrir, og það vita hv. þdm. af grg., sem lagðar hafa verið fyrir þingið undanfarin ár, að nú síðustu árin hefur orðið verulegur samdráttur í beinum útgjöldum ríkissjóðs vegna ríkisábyrgðasjóðs, af því að hinar nýju reglur um ríkisábyrgðir hafa gerbreytt andrúmsloftinu varðandi vanskil og hvað á sjóðinn fellur.

Það má vafalaust á það benda, og ég efast ekkert um, að hv. 6. þm. Sunnl. getur á það bent, að það séu ýmsir, sem skuldi, og aðrir hliðstæðir aðilar hafi greitt. Það vill nú einu sinni verða svo. En það merkir ekki endilega, að það hafi verið þarna um einhverja misbeitingu valds að ræða. Aðstaðan til að greiða getur verið mjög mismunandi, og mér er ekki kunnugt um nokkurt dæmi þess, að það hafi verið með óeðlilegum hætti staðið að innheimtuaðgerðum hjá ríkisábyrgðasjóði eða einn beittur þar einhverjum fantatökum, sem svo hafi verið látið hjá liða að beita annan. Og ég veit, að hv. þdm. skilja það, að hér er um svo alvarlega ásökun að ræða um misnotkun aðstöðu, að það verður ekki hjá því komizt að gera sér grein fyrir því, hvað hér er á ferðinni og hvað menn meina, þegar um svona lagað er að ræða.

Það er alveg rétt hjá hv. þm., að það þarf ekki að vera neitt réttlæti eða réttsýni í því, að ríkisábyrgðasjóður fari að gefa eftir kröfur þessum aðila, en ekki öðrum, vegna þess að hann hefur staðið í skilum, og vissulega er það stundum svo, — og ekki aðeins stundum, það er auðvitað misjafnt, það er auðvitað æðioft svo, að menn leggja sig misjafnlega fram að borga þessa skuld eins og aðrar í viðskiptalífinu. Það fer ákaflega mikið eftir samvizkusemi manna, og verður ekki alltaf komið við viðhlítandi ráðum því til varnar. En ég held, að hjá því verði þó ekki komizt, að enda þótt þetta sé í ýmsum tilfellum ranglátt, að sumir hafi greitt skuldir, þótt aðrir hafi ekki greitt þær, þá er þó staðreynd málsins sú, að yfirleitt eru þó þeir aðilar verr settir, sem eiga skuldir sínar ógreiddar, og því eðlilegt, að það sé tekið til meðferðar þeirra mál. Mál hinna verða ekki tekin til meðferðar með þessum hætti, heldur þá með einhverjum öðrum, með lánafyrirgreiðslum og á annan hátt, sem auðvitað sjálfsagt er að gera, en ekki fellur undir þetta ákvæði. Ég held líka, að það sé misskilningur hjá hv. þm., að meiningin með þessari gr. í frv. varðandi breytingu lána og jafnvel eftirgjöf sé sú, að ríkisábyrgðasjóður gangi á undan með því að taka á sig einhverjar kvaðir. Það verður einhver aðili að hafa forgöngu um þessi mál, og það er eðlilegt, að ríkisábyrgðasjóður komi þar mikið við sögu, vegna þess að það eru auðvitað ekki aðeins vanskilin við ríkisábyrgðasjóð, sem hér koma til greina, heldur hitt, að ríkisábyrgðasjóður er í ábyrgð fyrir miklu af þeim kröfum, sem aðrir sjóðir eiga á hendur þessum aðilum, og þeir mega ekki gefa eftir af þeim skuldum, nema því aðeins að ábyrgðaraðilinn sé þá með í ráðum og að hve miklu leyti hann taki á sig þá eftirgjöf eða lánveitandinn sjálfur, það er auðvitað samningsatriði. Og ég tek alveg undir með hv. þm., að ég tel auðvitað ekkert eðlilegt við það, að allur þunginn af þessu falli á ríkisábyrgðasjóð, því að það er ekki annað en fella þetta á hinn almenna skattgreiðanda, þannig að það þarf ekkert að vera eðlilegt við það, og ég tek það þess vegna skýrt fram, að ég lít alls ekki svo á þetta ákvæði, að það eigi að fela í sér, að ríkisábyrgðasjóður eigi að ganga á undan í þessu efni. Hins vegar er þarna bent á aðferð, sem áður hefur verið og menn voru sammála um, þegar ríkisábyrgðasjóður var settur á laggirnar, að þá væri farið yfir þessar kröfur og það yrði háð samþykki fjvn. Alþ., hvað endanlega yrði eftir gefið. Það var þá gert í stórum stíl, þegar hreinsað var til og reynt að koma þessum málum í það horf, að það væri nokkurn veginn öruggt að skuldararnir gætu þá staðið í skilum og það væri skárra að gefa eitthvað eftir heldur en hafa á pappírnum háar kröfur á hendur þessum eða hinum, sem hafa svo aldrei verið greiddar. Ég held, að reynslan af þeim vinnubrögðum, sem þá voru viðhöfð, hafi verið góð, og það náðist um það alger samstaða hér í þingi og við rn. á sínum tíma, hvernig með þau mál væri farið, og ég veit ekki, að um það hafi komið fram neinar kvartanir frá einum né neinum.

Ég skal ekki orðlengja um þetta frekar, en ég harma það mjög, að það skuli vera uppi sú kenning, að hér sé um að ræða misferli í sambandi við ríkisábyrgðasjóð og mismunun einstakra aðila, og ég teldi það mjög miklu varða, að þeim málum yrði komið á hreint og það yrði þá komið fram með þau rök og sannanir fyrir því, að þarna hafi átt sér stað einhver óhæfileg vinnubrögð af hálfu þeirra aðila, sem eiga að stjórna þessum sjóði.