10.03.1967
Efri deild: 50. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 749 í B-deild Alþingistíðinda. (518)

147. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég er hissa á því, að jafnglöggur maður og hæstv. fjmrh. skyldi ekki skilja orð mín betur en hann vildi vera láta, og sérstaklega er ég hissa á því, þegar hann hefur verið í læri hjá hv. form. Framsfl., fyrrv. fjmrh., eins og hann gat um hér áðan.

Mér er það að sjálfsögðu ljóst, að það má verja greiðsluafgangi til þess að greiða skuldir eins og til ýmissa annarra hluta. En staðreyndin er bara sú, að það hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um það enn, svo að mér sé kunnugt, að greiðsluafgangi ársins 1966 skuli varið til þeirra hluta. Hann er því fyrir hendi enn óráðstafaður, og honum má því verja til þessa, sem hér er lagt til, ef menn vilja það.

Hæstv. fjmrh. sagði, að það væri ekkert dregið úr fjárveitingum til verklegra framkvæmda frá því, sem þær hefðu verið, þegar fjárlög voru sett. Það, sem um er að ræða, er það, að það er dregið úr fjárveitingum til verklegra framkvæmda eins og þær voru áætlaðar og ákveðnar í desember 1966 og Alþ. þá gekk frá þeim. Og þá var það ekki álit Alþ., að það væri verðbólguaukandi að verja þessu fé, sem þá var samþ., til verklegra framkvæmda. Nú er því aftur á móti haldið fram af hæstv. fjmrh., að það sé verðbólguaukandi, ef ekki sé skorið niður sem þessari upphæð nemur eða 10%. af verklegum framkvæmdum. Þetta er kjarni málsins, og um það þarf í sjálfu sér ekki að hafa fleiri orð.

Hugleiðingar hæstv. fjmrh. um önnur atriði, sem að nokkru leyti voru óskyld þessu afmarkaða efni, sem ég talaði hér um, er ekki ástæða til þess að fjölyrða hér um. Þetta stendur sem sagt algerlega, að hæstv. ráðh. hefur játað, að það hafi verið til greiðsluafgangur til þess að mæta þessu, en til þess greiðsluafgangs væri ekki hægt að grípa og láta fjárveitingar til verklegra framkvæmda standa ólækkaðar, af því að slíkt mundi leiða til verðbólguþróunar.