10.03.1967
Efri deild: 51. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 750 í B-deild Alþingistíðinda. (521)

147. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Ég get varla trúað því, að það sé óhagganlegur ásetningur hæstv. ríkisstj. og flokka hennar að seilast til fjármuna sveitarfélaganna, eins og gert er í 2. gr. þessa frv. Vitanlega eiga sveitarfélögin eða jöfnunarsjóður þeirra þá hækkun, sem varð frá áætlun fjárl. frá 1966 á lögákveðnum hluta þeirra úr aðflutningsgjöldum og söluskatti: Það er mjög klunnaleg framkoma, að mér finnst, af ríkisvaldinu að ætla að hrifsa þessa hækkun til sín í sínar þarfir, og til þess hefur það að mínu áliti alls engan siðferðislegan rétt. Með því eru brotin lög á sveitarfélögunum, þótt það sé að vísu gert með lögum í krafti löggjafarvalds Alþingis.

Mér skilst, að tekjur ríkissjóðs hafi farið mikið fram úr áætlun 1966, og hef ég skilið það af orðum hæstv. fjmrh., sem er svo mikill búmaður, að hann mundi barma sér, ef hann teldi ástæðu til. Að sjálfsögðu hafa gjöld ríkissjóðsins einnig farið fram úr áætlun vegna verðbólguþróunarinnar, en þó mun hafa orðið allmikill tekjuafgangur. En hvernig ætli þetta hafi orðið hjá sveitarfélögunum? Það er auðvitað mál, að tekjur þeirra hafa ekki farið fram úr áætlun 1966. Þær eru teknar af stofnum, sem eru fastir í viðmiðun. Jöfnunarsjóðstillagið er nálega það eina, sem getur farið fram úr áætlun hjá þeim, og nú á að taka þann ávinning af þeim. Hins vegar vaxa margir útgjaldaliðir sveitarfélaganna vegna verðbólgunnar og fara langt fram úr áætlun, og skapar þetta mjög erfiðar niðurstöður hjá þeim. Sveitarfélögunum er með löggjöf sniðinn mjög þröngur stakkur til fjáröflunar, en margar skyldur á herðar þeirra lagðar til útgjalda, sem þau verða að bera, hvernig sem árar. Ríkisstj. getur með nýrri löggjöf aflað ríkissjóði tekna, en sveitarstjórn hefur ekki slíkt sjálfsvald. Og nú ætlar hæstv. ríkisstj. samkv. 2. gr. þessa frv. að svipta sveitarfélögin umframtekjunum af eina liðnum — eða svo að segja eina liðnum, sem hefur getað orðið þeim í vil árið 1966.

Í gær var tilkynnt, að lögð væri fram á lestrarsal ályktun frá stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga. Enginn hefur minnzt á þetta erindi, og þó er talið, að sveitarfélögin eigi að vera aðilar, sem hlusta eigi á, hvað hafa að segja, þegar um lög, er þau snertir, er að ræða. Erindi þetta er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga mótmælir harðlega því ákvæði í frv. til l. um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins, sem nú liggur fyrir Alþ., að greiðslur til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verði lækkaðar um 20 millj. kr.“ Grg.: „Lagt hefur verið fram á Alþ. frv. til l. um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins. Í frv. þessu er gert ráð fyrir að lækka greiðslur til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga fyrir árið 1968 frá því, sem ákveðið er í tekjustofnal., um 20 millj. kr. Í grg. frv. er upplýst, að tekjur jöfnunarsjóðs 1966 muni fara um 23 millj. kr. fram úr áætlun fjárl. fyrir árið 1966, og ráðgerð lækkun rökstudd með því, að sveitarfélögin njóti góðs af árangri verðstöðvunarinnar og því sé sanngjarnt, að þau taki nokkurn þátt í ráðstöfun til að tryggja framgang hennar.

Það hafði verið baráttumál sveitarfélaganna árum saman að fá nýjan tekjustofn, hlutdeild í söluskattstekjum ríkissjóðs. Með samþykkt söluskattsl. nr. 10 1960 og l. um jöfnunarsjóð sveitarfélaga nr. 19 1960 kom ríkisvaldið til móts við þessa ósk sveitarfélaganna og sýndi með því skilning á aðstöðu þeirra og á því mikilsverða hlutverki, sem þau gegna í þjóðfélaginu. Lögfesting þessa fyrirkomulags markaði tímamót í samskiptum ríkisvaldsins og sveitarfélaganna. Þetta hafa sveitarfélögin þakkað og metið. Því ber að harma það, að með ákvæðum frv. skuli nú stefnt að skerðingu þessara þýðingarmiklu réttinda sveitarfélaganna.

Sveitarfélögunum er það vissulega hagsmunamál, að verðstöðvunin nái tilgangi sínum, enda hafa þau þegar tekið á sig þær byrðar, sem af henni leiðir, þar sem tekjustofnar þeirra voru bundnir með verðstöðvunarl. en ýmsar útgjaldahækkanir höfðu orðíð á árinu 1966, m.a. kaupgjaldshækkanir allt að 15%, eftir að fjárhagsáætlunin hafði verið samþ. Þessar hækkanir haldast á þessu ári, en tekjustofnar sveitarfélaganna eru bundnir. Því hefur orðið að draga úr frjálsu ráðstöfunarfé sveitarfélaganna. Það eru minnkuð framlög til verklegra framkvæmda, svo sem gatnagerðar og skólabygginga. Með þessum hætti hafa sveitarfélögin þegar lagt fram sinn skerf til að tryggja árangur verðstöðvunarinnar.

Sveitarfélögin telja því mjög ranglátt, að til viðbótar eigi að koma hvort tveggja, skerðing á framlagi til jöfnunarsjóðs og lækkun á framlagi ríkisins til sameiginlegra framkvæmda þess og sveitarfélaganna, svo sem gert er ráð fyrir í frv. Stjórnin telur þess vegna eðlilegra, að byrðum vegna þeirra ráðstafana, er í frv. greinir, verði deilt á aðrar stofnanir í þjóðfélaginu.

Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga vill vekja athygli á því, að sveitarfélögin, a.m.k. þau stærstu, hafa þegar afgreitt fjárhagsáætlun sína fyrir áríð 1967, svo sem lögboðið er, og að sjálfsögðu reiknað með framlagi úr jöfnunarsjóði samkv. gildandi lögum, þ. á m. samþ. fjárl. fyrir árið 1967. Samþykki Alþ. téð ákvæði frv., verða sveitarfélögin að taka fjárhagsáætlunina til endurskoðunar. Aðrir tekjustofnar þeirra eru bundnir með verðstöðvunarl., og eigi er unnt að lækka lögboðin útgjöld. Sveitarfélögin verða því neydd til að draga enn meira úr framlögum til verklegra framkvæmda, sem víðast hvar eru knýjandi nauðsyn.

Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga treystir því, að hv. Alþ. leysi þetta mál á farsælan hátt fyrir sveitarfélög landsins, þannig að þeim verði ekki torveldað að gegna þeim þýðingarmiklu verkefnum, sem löggjafinn hefur falið þeim.

Reykjavík, 8. marz 1967.

Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga. Gunnlaugur Pétursson, Hermann Eyjólfsson,

Hjálmar Ólafsson, Vigfús Jónsson,

Magnús E. Guðjónsson.“

Þetta er þá erindi stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, sem lagt var fram í gær á Alþ. og ég hef nú lesið upp. Ég trúi því ekki, fyrr en reynt er til þrautar, að hæstv. ríkisstj. sé óhagganleg í þessu efni eða allir liðsmenn hennar. Þess vegna leyfi ég mér að leggja fram skrifl. brtt. um, að ríkissjóður taki á sig þær 20 millj. kr., sem um er að tefla, og greiði þær af umframtekjum sínum af aðflutningsgjöldum og söluskatti 1966. Þar er áreiðanlega af meiru að taka og ólíkt frjálsari hendi tekið. Till., sem ég ber fram, er þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Við 2. gr. Í stað seinni efnisliðar gr. (þ.e.: „Þó er ríkisstj. heimilt“ o.s.frv.) komi: Einnig er ríkisstj. til sömu þarfa heimilt að greiða af greiðsluafgangi ríkissjóðs á árinu 1966 20 millj. kr.“

Þessa till. vil ég biðja hæstv. forseta fyrir til venjulegrar fyrirgreiðslu.

Nú hefur hæstv. fjmrh. lýst því, að tekjuafgangur sé í raun og veru enginn til frá 1966 nema á pappírnum, honum sé ráðstafað af sjálfu sér upp í yfirdráttarskuld við Seðlabankann. En af því að ég veit, að hann er ráðdeildarsamur, þykist ég viss um það, að honum verði auðvelt að færa þetta þannig til, að þessar 20 millj., sem þarna er um að ræða, þurfi ekki að takast af fátækt sveitarfélaganna.