20.03.1967
Neðri deild: 56. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 816 í B-deild Alþingistíðinda. (538)

147. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki verða til þess að lengja þessar hógværu umr. hér, þó að vissulega hefði verið ástæða til þess að gera að umtalsefni ýmislegt af því, sem hér kom fram hjá tveimur hv. síðustu ræðumönnum, ekki sízt hjá hv. 4. þm. Reykn., en til þess að fara ekki að efna til neinna eldhúsumr. um það efni, — það gefst tækifæri til þess, þegar til þess kemur að ræða efnahagsmálin almennt, — þá skal ég láta það hjá líða. En ástæðan fyrst og fremst til þess, að ég stóð hér upp, er í sambandi við það, sem hann síðast sagði varðandi eftirgjafir fjárkrafna ríkisábyrgðasjóðs. Ég lýsti því yfir í Ed., einnig vegna ummæla, sem þar komu fram, og brtt., sem þar var flutt og mun vera shlj. þeirri, sem hér er flutt, varðandi breytingu á þeirri gr. frv., að þótt orðalag hennar kynni að orka eitthvað tvímælis, þá hefði aldrei verið hugmyndin, að það væri ríkisábyrgðasjóður einn, sem ætti að gefa eftir af fjárkröfum. Það er hins vegar svo ástatt, eins og öllum hv. þdm. er kunnugt, að meginhluti þeirra fjárkrafna, sem hér um ræðir, er væntanlega með ríkisábyrgð og þar af leiðandi á snærum ríkisábyrgðasjóðs beint eða óbeint, og allar breytingar á slíkum kröfum eða nýir samningar um þær gætu að sjálfsögðu ekki komið til greina, nema ríkisábyrgðasjóður væri við það riðinn. Það hefur því þótt eðlilegt, að ríkisábyrgðasjóður væri sérstaklega nefndur sem forgönguaðili um að rannsaka þessi mál og hlutast til um eftir atvikum nýja samninga í sambandi við þær kröfur, sem hér um ræðir. Náttúrlega kemur ekki til mála, að ríkisábyrgðasjóður gefi eftir kröfur, sem eru þannig til komnar, að þær eru ekki gjaldfallnar, heldur vegna ábyrgða, sem sjóðurinn er í, en hefur ekki útlagt. Það, sem hér eitt kemur til greina, er, hvort að einhverju leyti yrði gefið eftir eða samið um lengri tíma um kröfur, sem ríkisábyrgðasjóður hefur þegar lagt út vegna vanskila skuldara. En ég tel ekki, að enda þótt sú till., sem hv. framsóknarmenn hér flytja varðandi orðalagsbreytingu á þessari gr., yrði felld, þá feli það í sér neina yfirlýsingu um, að ríkisábyrgðasjóður eigi að ganga hér sérstaklega á undan öðrum í þessu efni. Þetta taldi ég rétt, að kæmi fram.

Varðandi svo annað atriði er kannske freistandi aðeins að segja það í sambandi við ummæli hv. þm. um þá miklu erfiðleika, sem stafa að útgerðinni, og orsakir þeirra, að það væri fyrst og fremst óðaverðbólgan, sem þar réði úrslitum, að vissulega hefur verðbólgan haft sín slæmu áhrif, bæði fyrir útgerðina og margt annað í okkar efnahagskerfi og okkar atvinnulífi, en ég tel ekki, að það væri sérstaklega í anda þeirrar stefnu að vinna gegn þeirri verðbólguþróun, sem hv. þm. talaði um, að leggja til að verja út í atvinnulífið 140 millj. kr. með þeim hætti, sem hann gerir ráð fyrir, þ.e.a.s. með því að halda áfram yfirdrætti við Seðlabankann, sem óumflýjanlega yrði að koma til, ef þetta ætti að gerast. Þetta held ég, að við hljótum allir í alvöru talað að geta verið sammála um, að sé ekki í samræmi hvað við annað.

Við vitum það svo auðvitað jafnframt allir, að það er ekki eingöngu verðbólguþróun, sem hefur skapað erfiðleika útgerðarinnar og veldur því, að ýmsar greinar hennar eiga við meiri erfiðleika að stríða en aðrar. Það er vegna misræmis, sem þar hefur skapazt, mjög mismunandi aðstöðu, sem hefði vafalaust verið til staðar, hvort sem hefði verið verðbólga eða ekki, að það væri mismunandi aðstaða í dag, sem allir vita, að er mjög misjöfn, varðandi vissar greinar síldarútvegs annars vegar, minni báta hins vegar og í þriðja lagi togara, þannig að ef verðlagsmyndun sjávarafurða ætti að vera með þeim hætti, að hún t.d. nægði togurum, án þess að þar kæmu til verulegir styrkir, þá hygg ég, að það mundi leiða til einkennilegrar niðurstöðu í þjóðfélaginu og líklegt, að það mundi þá skapa ósamræmi í hina áttina, að aðrar greinar sjávarútvegs kynnu þá að bera óeðlilega mikið úr býtum, þannig að þetta verður auðvitað ekki jafnað með þessum hætti, heldur með ýmsum öðrum ráðstöfunum, sem hv. þm. hafa minnzt hér á, að þyrftu að koma til, og ekki verða kenndar stjórnarfari, heldur ýmiss konar þróun, sem orðið hefur í þessum efnum og hefur orðið mjög misjöfn fyrir ýmsar greinar sjávarútvegsins, og það er vissulega miklum vandkvæðum bundið og mikilvægt viðfangsefni að gera sér grein fyrir því í fullri alvöru, hvernig hægt er að leysa þann vanda.

Ég skal ekki, herra forseti, efna til frekari umr. um málið, en taldi aðeins rétt, að þetta kæmi fram, fyrst og fremst varðandi það, sem ég áðan gat um, um ríkisábyrgðasjóðinn, til þess að það ylli engum misskilningi, hver ætlunin væri í því efni í sambandi við orðalag frv.