20.03.1967
Neðri deild: 56. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 826 í B-deild Alþingistíðinda. (541)

147. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs í sambandi við umr. um þetta mál á þskj. 290 til þess að ræða hér 2. gr. frv. Ég hafði ekki hugsað mér að fara út í almennar umr. í sambandi við það, sem ég ætla að segja hér.

Ég get ekki látið hjá líða að gefnu tilefni að þakka hv. 3. þm. Austurl. fyrir þá ræðu, sem hann flutti hér áðan. Hún var á ýmsan hátt fróðleg og á margan hátt skemmtileg. Hún sýnir betur en flest annað, hvernig fer fyrir mönnum, þegar þeir trúa blint á áróður Morgunblaðsins og annað, sem frá ríkisstj. kemur, án þess að kynna sér það nánar.

Það voru 4 atriði, sem ég tel, að máli hafi skipt í ræðu þessa hv. þm. Í fyrsta lagi sagði hann, að ríkisstj. hefði beitt sér gegn verðbólgunni allt sitt stjórnartímabil og náð verulegum árangri. En ástandið sannar betur en nokkuð annað og þetta frv., sem við erum að fjalla um nú, getuleysi hæstv. ríkisstj. Þessi þáttur var sönnun fyrir getuleysi ríkisstj., fyrst þetta var aðalverkefnið. Ástandið er þannig, að vísitalan hefur tvöfaldazt. Meira er nú varið til niðurgreiðslna en nokkru sinni fyrr, svo að hundruðum millj. nemur er meira varið til niðurgreiðslna núna en áður hefur verið, beinir styrkir með atvinnuvegunum í landinu, og í raun og veru ástand þeirra þannig að sögn þeirra, sem fyrir atvinnuvegunum standa, að ekki er séð um framtíð þeirra, og ráðstafanir, sem nú er verið að gera, eru aðeins til bráðabirgða.

Í öðru lagi sagði hv. 2. þm., að aðeins væri til einn hópur manna, sem hefði aðra stefnu í efnahagsmálum þjóðarinnar, og það væri Framsfl. Það er vel, að hv. þm. hefur áttað sig á því, að það er einn flokkur í þessu landi, sem hefur aðra stefnu í efnahagsmálum þjóðarinnar, þ.e. Framsfl. Á þessu vil ég vekja alveg sérstaka athygli, og ég held, að hv. þm, hefði gott af því að kynna sér stefnu Framsfl. í efnahagsmálunum.

Í þriðja lagi ræddi hv. þm. í sambandi við þáttinn Þjóðlíf. Þegar heyrist í þjóðinni, þegar þjóðlífið sjálft kemur í útvarpið, þáttur þess, þá er það áróður Framsfl. Rödd þjóðarinnar er rödd Framsfl. Hverjir hafa ástæðu til að fagna þessu og þakka, ef það eru ekki framsóknarmenn? Og ég hef alveg sérstaka ástæðu til þess að fagna því, að þessi hv. þm., sem er þó mjög trúaður á áróður sjálfstæðismanna, skuli hafa áttað sig á þessu.

Fjórða atriðið var, að stefnan yrði óbreytt áfram, ef ríkisstj. mætti ráða, og svo ætti að reyna að komast fram hjá getuleysinu, stefnuleysinu og öðru hinu með því að benda á till., sem einstakir þm. stjórnarflokkanna, eins og hv. 11. landsk., hafa lagt hér fram á hv. Alþ. Í leiðindum sínum út af getuleysi hæstv. ríkisstj. til þess að leysa vandamálin flytja þeir till. til að láta þjóðina halda, að í stjórnarflokkunum sé þó eitthvað af mannskap, sem hugsar á annan veg en ríkisstj. gerir.

Ég ætla ekki að ræða fleira um það, sem fram kom í ræðu þessa hv. þm.

Í sambandi við þetta mál, sem hér liggur fyrir til 2. umr., vil ég — með leyfi hæstv. forseta — lesa úr nál. okkar framsóknarmanna við 2. umr. fjárlaga fyrir jólin í vetur, en þá komumst við þannig að orði: „Þá er enn óljóst, hvernig ríkisstj. ætlar sér að leysa aðkallandi vandamál sjávarútvegsins og frystihúsanna, og ekki sjáanlegt annað en til þess þurfi einhverjir fjármunir að koma.“ Við bentum þá á, að þetta vandamál, sem nú er verið að fást við, var til staðar, þegar fjárl. voru afgr. fyrir jólin, og eðlilegast var, að vandamálið væri einmitt leyst þá. Hins vegar hefur hæstv. ríkisstj. tekið upp þau vinnubrögð hér á hv. Alþ. afgr. fjárl. fyrir jól, en koma svo með aukafjárl. eða viðbótarfjárl. í höfuðatvinnumálum þjóðarinnar í janúar og febrúar og nú fram í marz. Þetta eru vinnubrögð, sem ekki á að viðhafa á hv. Alþ. Það var öllum ljóst, sem um þjóðmál hugsa, og öllum þeim, sem atvinnumál þekkja, að fram hjá þessum vanda, sem nú er verið að fást við, varð ekki komizt. Efnahagsstefna ríkisstj. hefur leitt til þessa vanda, elns og hv. 4. þm. Reykn. hefur gert grein fyrir, og það varð að leysa hann, eins og nú hefur sýnt sig, að ríkisstj. er að bjástra við.

Þetta var svo augljóst, að það hlaut að vera, að þeir, sem tóku á málunum raunhæft og eðlilega, með fullri ábyrgð, leystu þessi fjárl. og þennan þátt efnahagsmálanna samtímis. Hæstv. ríkisstj. sá ekki ástæðu til þess og er þess vegna nú að leysa þennan þátt.

Ég vil líka minna á það, að í sambandi við fjárl. í vetur, — þá kem ég að því, sem var erindi mitt hér upp í ræðustólinn, og það er sú tekjuöflun, sem hæstv. ríkisstj. hyggst fara í 2. gr. þessa frv., — ég benti á það og við framsóknarmenn við fjárlagaafgreiðsluna í vetur, að ríkisstj. hefði verið svo rausnarleg við margar stofnanir í þessu landi að hækka fjárveitingar til þeirra um 30–40%. Við lýstum þeirri skoðun okkar, framsóknarmenn, að við teldum ekki hægt að veita embættum eins og saksóknaraembætti, borgarfógetaembætti, lögreglustjóraembætti, almannavörnum o.fl. 30 og 40 og jafnvel upp í 50%, hækkun á fjárveitingum, á sama tíma og ekki væri hægt að sinna eðlilega málum eins og skólamálum, rafmagnsmálum og vegamálum, svo að dæmi séu nefnd. Við töldum, að það væri fráleitt með öllu að byggja fjárlög þannig upp, að rekstrarkostnaður væri hækkaður gífurlega, ef þessum málefnaflokkum væri ekki sinnt. Nú vil ég til samanburðar benda á, hvernig komið er fyrir þessum málefnaflokkum, eins og skólamálum, raforkuframkvæmdum og vegamálum. Á sama tíma sem fjárl. hækka frá árinu í fyrra um 24–25% í heild og ýmsir málaflokkar um 20–30 og 30–40 og þaðan af meira, eins og ég drap á hér áðan, þá hækkar til skólabygginganna á landinu frá s.l. ári um 7.8%, til rafvæðingar í sveitunum um 3.1% og til vegamálanna um 1%. Við skulum gera okkur grein fyrir því, að þegar þannig er haldið á fjármálum og efnahagsmálum þjóðarinnar, er von, að gagnrýnt sé, að einstaka embætti og stofnanir fái hækkað fé til rekstrarins um 30–40% og þaðan af meira. Þetta gagnrýndum við í vetur, og er ekki síður ástæða til að gagnrýna það nú, þegar lengra er gengið í því að taka fé af þessum nauðsynlegustu framkvæmdum.

Ég benti á það við 2. umr. fjárl. hér í vetur, hvernig ástandið í skólamálunum væri, og við gerðum það í okkar nál., fulltrúar Framsfl. í fjvn., og spurðumst fyrir um, hvernig ætti að taka á þeim vandamálum, sem þar yrði við að fást. Það þýðir ekkert að skella skollaeyrum við því, tala um, að fjárfesting megi ekki eiga sér stað. Hér er vandamál, sem verður að leysa, vegna þess að við viljum hafa okkar fólk sæmilega menntað. Til þess að svo megi verða, verður að vera húsnæði, til þess að svo megi verða, verður að vera húsnæði, til þess að það geti notið þeirrar kennslu, sem fram á að fara. Hæstv. ríkisstj. fannst ekki nóg að gert þá í þá átt að halda þessum liðum niðri og hækka hina, heldur hefur hún nú haldið áfram á þeirri braut og tekur 10% af fé, sem á að fara til skólamála, raforkumála, hafnarmála o.fl. slíkra málaflokka. Það eru rausnarlegar fjárveitingar í hafnirnar, þar sem hæstu hafnir fá 700 þús., að taka 70 þús. þar af! Það er furðulegt í sjálfu sér, að þetta geti skeð.

Það er ekki nóg að gert í þessu efni að reyna að hafa vald eða reyna að tefja eðlilega uppbyggingu landsbyggðarinnar, heldur er einnig farið að taka af tekjustofnum sveitarfélaganna í gegnum jöfnunarsjóðinn. Nú hefur það komið fram í umr. hjá hæstv. ríkisstj., að verðstöðvunin muni geta komið því til leiðar, að sveitarfélögin þurfi ekki á þessum tekjustofnum að halda á árinu 1967, eins og verið hefur: Nú er því til að svara, að ríkisstj. sjálf og ríkissjóður býr við verðstöðvun að dómi hæstv. ríkisstjórnar. Þrátt fyrir það verður að hækka rekstrarliði fjárlagafrv. um 20–30% og upp í 40%. Ekki kemur verðstöðvunin að fullum notum þarna, meira fé þarf til. Hins vegar er það svo, að þær tekjur, sem jöfnunarsjóðurinn hafði umfram áætlun s.l. ár, sem voru um 20 millj. kr., það er þegar búið að deila þessum tekjum út til sveitarfélaganna á árinu, sem var að líða. Þessi sveitarfélög eru þrátt fyrir það sízt ofhaldin af sínum tekjum á því ári, vegna þess að rekstrarkostnaður sveitarfélaganna fór geysilega fram úr áætlun vegna verðbólgunnar. Á árinu 1967 á því það að ske, að jafnhliða því, sem á að taka 20 millj. af framlagi jöfnunarsjóðs til sveitarfélaganna á því ári, á jöfnunarsjóðurinn einnig að leggja 15 millj. fram í lánasjóð sveitarfélaganna, sem hann hafði ekki á s.l. ári, og það eru því 35 millj. kr. minni fjárhæð, sem jöfnunarsjóðurinn hefur yfir að ráða á næsta ári, þó að tekjurnar næðu því, sem þær náðu þá, sem ekki er heldur séð. Sjá allir, hvernig að sveitarfélögunum er búið með þessum hætti ofan á það að taka af þeim fé til framkvæmda, og margar þessar framkvæmdir, sem ríkissjóður er nú að greiða fé til, eru þegar gerðar og aðeins er um afborganir af föstum lánum að ræða og kostnað við þau, auk þess sem framkvæmdir eins og skólar, hafnir og gatnagerð eru óumflýjanlegar og er ekki hægt að stöðva nema að mjög takmörkuðu leyti frekar en það er hægt að stöðva eðlilegan framgang hlutanna.

Ég verð að segja, að mér er það í sjálfu sér óskiljanlegt, hvers vegna hæstv. ríkisstj. fer inn á þá braut, sem hún fer hér inn á. Hér er um að ræða 85 millj. kr. fyrir ríkissjóð, aðeins 85 millj. kr. Fjárlögin eru hins vegar upp á um 5 milljarða. Það er ekki svo nákvæmlega frá áætlun fjárlaga gengið, að 85 millj. mundu muna þar miklu frá eða til, enda verður að segjast, að það er alger óþarfi að greiða upp á einu ári yfirdráttarlánið í Seðlabankanum og óframkvæmanlegt, fyrst ríkisstj. þurfti að grípa til þessa ráðs í stuðningi við atvinnuvegina. Það, sem hér er á ferðinni, er því annað mál, sem ekki er hér til umr, og er forðazt að nefna. Hér er verið að rýma fyrir framkvæmdum, sem ríkisstj. metur meira en hinar opinberu framkvæmdir eins og skóla; hafnir og vegi. Það hlýtur að vera stefnt að því að rýma fyrir öðrum framkvæmdum, sem að dómi ríkisstj. eru meira virði en þessar. Hæstv. ríkisstj. fer hér freklega inn á það að þrengja kosti sveitarfélaganna, og er minnug þess, að sveitarstjórnarkosningar fóru fram s.l. ár, en eiga ekki að fara fram á þessu eða næsta ári, og vonast til þess, að þá verði þessi ráðstöfun gleymd. Samband ísl. sveitarfélaga eða stjórn þess hefur mótmælt harðlega þessum ráðstöfunum og hvað freklega er á rétt sveitarfélaganna gengið, og ýmsar sveitarstjórnir hafa gert það sama.

Ég vil enda þessi orð mín hér með því að mótmæla harðlega slíkum ráðstöfunum að ganga svo freklega á fjárveitingar til verklegra framkvæmda og til sveitarfélaganna í landinu, á sama tíma sem útþensla og eyðsla í ríkiskerfinu eykst hröðum skrefum.