20.03.1967
Neðri deild: 56. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 830 í B-deild Alþingistíðinda. (542)

147. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að lengja þessar umr. neitt að ráði og ekki að ræða frv. um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins í einstökum atriðum, að því er snertir sjávarútveginn eða þær ráðstafanir, sem allir virðast vera sammála um, að nauðsynlegar séu til þess að koma honum á rekstrarhæfan grundvöll um eitthvert tímabil a.m.k. Það voru aðeins nokkur orð um fjáröflunarleiðirnar, sem ég ætlaði að leyfa mér að flytja hérna.

Satt að segja hef ég verið að búast við því núna í dag, að einhverjir aðrir þm. Reykv. en ég, og þá fyrst og fremst kannske úr Sjálfstfl., mundu vekja athygli á samþykkt frá borgarráði Reykjavikur, sem Alþ. hefur verið send og skýrt var frá, að lægi frammi á lestrarsal, í upphafi þess fundar, sem nú stendur yfir. Ég er nú eiginlega orðinn úrkula vonar um, að aðrir verði til þess að vekja athygli á þessari samþykkt, og þess vegna ætla ég að leyfa mér að minna á hana.

Sú ályktun, sem þarna er um að ræða, er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „Reykjavík, 15. marz 1967.

Á fundi sínum í gær samþykkti borgarráð Reykjavíkur að ítreka mótmæli stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, við því ákvæði í frv. til laga um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins, að framlag ríkissjóðs til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verði skert um 20 millj. kr. Borgarráð samþ. enn fremur að tilkynna Alþ. þessa afstöðu Reykjavíkurborgar.

Undirskrifað: Geir Hallgrímsson.“

Eins og öllum hv. þdm. er að sjálfsögðu kunnara en rekja þurfi, er það Sjálfstfl., sem skipar meiri hluta borgarráðs Reykjavíkur. Ég hefði þess vegna vænzt þess, að slík ályktun frá þessum meiri hluta ásamt þeim minni hluta, sem þar er fyrir hendi, mundi vekja einhverja af hv. þm., a.m.k. þm, þessa byggðarlags, til umhugsunar um það, hvort ekki væri stefnt hér inn á ranga braut.

Ég vil geta þess hér í leiðinni, að sams konar bréf eða mjög sama efnis og með svipuðu orðalagi hefur enn fremur borizt frá bæjarstjórn Akureyrar.

Því bréfi eða þeim mótmælum stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, sem borgarráð á við, hefur verið útbýtt hér á Alþ. Þau eru þess efnis, að stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga mótmælir harðlega því ákvæði í frv. til laga um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins, sem nú liggur fyrir Alþ., að greiðslur til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verði lækkaðar um 20 millj. kr. Þessari ályktun Sambands ísl. sveitarfélaga fylgdi allýtarleg greinargerð, sem ég ætla að leyfa mér að minna á og lesa úr stutta pósta, með leyfi forseta:

„Lagt hefur verið fram á Alþ. frv. til laga um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins. Í frv. þessu er gert ráð fyrir að lækka greiðslu til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga fyrir árið 1966 frá því, sem ákveðið er í tekjustofnalögunum, um 20 millj. kr. Í grg. frv. er upplýst, að tekjur jöfnunarsjóðs 1966 muni fara 23 millj. kr. fram úr áætlun fjárlaga fyrir árið 1966, og er ráðgerð lækkun rökstudd með því, að sveitarfélögin njóti góðs af árangri verðstöðvunarinnar og því sé sanngjarnt, að þau taki nokkurn þátt í ráðstöfunum til að tryggja framgang hennar. Það hafi verið baráttuefni sveitarfélaganna árum saman að fá nýjan tekjustofn, þ.e. hlutdeild í söluskatti ríkissjóðs.

Í samþykkt söluskattslaganna, nr. 10 1960, og laga um jöfnunarsjóð sveitarfélaga, nr. 19 1960, kom ríkisvaldið til móts við þessa ósk sveitarfélaganna og sýndi með því skilning á aðstöðu þeirra og því mikilsverða hlutverki, sem þau gegna í þjóðfélaginu.“ Og síðan segir, að lögfesting þessa fyrirkomulags hafi markað tímamót í samskiptum sveitarfélaga og ríkissjóðs. Sveitarfélögin telja sig hafa bæði þakkað þetta og metið. Því ber að harma það, að með ákvæðum frv. skuli nú stefnt að skerðingu þessara þýðingarmiklu réttinda sveitarfélaganna.

Síðar í þessari grg. segir, að sveitarfélögin telji það mjög ranglátt, að til viðbótar þeim útgjaldahækkunum, sem áður eru raktar í grg., eigi að koma hvort tveggja skerðing á framlagi til jöfnunarsjóðs og lækkun á framlagi ríkisins til sameiginlegra framkvæmda þess og sveitarfélaganna, svo sem gert er ráð fyrir í frv. Og þessu bréfi lýkur á þennan hátt:

„Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga treystir því, að hv. Alþ. leysi þetta mál á farsælan hátt fyrir sveitarfélög landsins, þannig að þeim verði ekki torveldað að gegna þeim þýðingarmiklu verkefnum, sem löggjöfin hefur falið þeim.“

Undir þessa grg. og þessa ályktun Sambands ísl. sveitarfélaga hefur borgarráð Reykjavíkur, eins og ég áðan sagði, mjög eindregið tekið og ekki bara gert um það samþykkt, heldur sent Alþ. þá samþ., að sjálfsögðu til þess að reyna að hafa áhrif á úrslit þessa máls. Og ég vænti þess, að þeir þm. Reykjavíkur a.m.k., sem hér eru inni, vilji taka vilja allra kjörinna borgarfulltrúa, hvar í flokki sem þeir standa, til greina í þessu efni.

Einhver kann að vilja benda á það, að frv. til laga um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins sé þegar búið að ganga gegnum Ed., án þess að nokkur hv. þm. þar hafi séð ástæðu til þess að snúast gegn þessu ákvæði, þ.e.a.s. nokkur þm. úr hv. stjórnarliði. En ég vil segja það þeim hv. stjórnarþm. þar til afsökunar, að þegar málið var afgreitt þar, þá lá ekki fyrir þessi áskorun borgarráðs Reykjavíkur, og því tel ég tvöfalda ástæðu til þess fyrir þm. í þessari hv. d. að skoða málið betur en lá fyrir, þegar málið var til umr. og afgreiðslu í Ed., enda þótt vitanlega mætti segja, að allir þm., a.m.k. þeir, sem sveitarstjórnarmálefnum sinna, hefðu átt að gera sér ljóst, hvað lögfesting þessara ákvæða þýðir fyrir sveitarfélögin.

Nú vill svo vel til, að við afgreiðslu þessa frv. hér í þessari hv. d. hefur verið lögð fram brtt. á þskj. 369, sem gerir öllum þm. það auðvelt og fært að verða við þessari ósk borgarráðs Reykjavíkur, þar sem 1. brtt. þess minni hl. sjútvn., sem stendur að nál. á þskj. 369, er einmitt svona: „Til að standa straum af greiðslu þeirrar viðbótar við fiskverðið, sem heimiluð er í 1. gr. þessara laga, er ríkisstj. heimilt að verja allt að 85 millj. kr. af greiðsluafgangi ársins 1966.“

Eins og margsinnis hefur verið rakið hér við þessa umr. og svo við 1. umr. þessa frv., þá eru ákvæði þess að því er snertir fjáröflun aðallega með fernu móti. Það er í fyrsta lagi 140 millj. kr. framlag, sem greiða á af tekjuafgangi ársins 1966 og á að standa undir því framlagi, sem skv. frv. er ætlað að leggja í svokallaðan verðjöfnunarsjóð. Það er í öðru lagi eftirgjöf frá ríkisábyrgðasjóði, sem nemur 15 millj. kr. Það er í þriðja lagi niðurskurður verklegra framkvæmda á fjárlögum ársins 1967, 10%, sem áætlað er að geri, að mig minnir, 65 millj. kr. Og að lokum svo þessar umræddu 20 millj. kr., sem á að skerða hlut jöfnunarsjóðs sveitarfélaga af tilföllnum tekjum ársins 1966.

Í grg. þessa frv. er látið að því liggja, að það sé eðlismunur á því tvennu, hvort framlög eru ákveðin til verðjöfnunarsjóðsins eða hvort þau eru ákveðin til hækkunar á fiskverði eftir öðrum leiðum. Þennan eðlismun get ég ekki komið auga á, og ég get ekki verið honum samþykkur. Ég hygg, að hann sé í reynd enginn, vegna þess að það eru vafalaust mjög litlar líkur til þess, að afgangur verði af þeim 140 millj. kr., sem ráðgert er að leggja í verðjöfnunarsjóðinn, þannig að í reynd hygg ég, að þeir fjármunir verði uppbætur á fiskverð eins og aðrar bætur skv. þessum lögum og því sé enginn eðlismunur á þessum tvennum greiðslum. Ef svo skyldi vera, að ekki væri þörf á því að greiða þær verðuppbætur, sem 6. gr. frv. gerir ráð fyrir, þá er vissulega þeim mun meiri ástæða til þess að fagna því og þá verða greiðslurnar að sjálfsögðu léttbærari ríkissjóði, sem því nemur, þ.e.a.s. ef ekki verður þá stofnaður þessi verðfallssjóður, sem er nú ráðgerður, hvort sem uppbæturnar verða greiddar eða ekki. Enn liggur þó engan veginn fyrir, hvernig honum verður hagað.

Hv. frsm. meiri hl. sjútvn., 2. landsk. þm., sagði hér áðan í framsöguræðu sinni, að aðeins um tvær leiðir væri að ræða til þess að standa undir þessum útgjöldum, sem á ríkissjóð væru lögð. Hann sagði að það væri þessi leið, þ.e.a.s. taka af jöfnunarsjóði sveitarfélaganna og að skera niður verklegar framkvæmdir, sem Alþ. er nýbúið að ákveða skv. fjárlögum, eða, sagði hann, að leggja á nýja skatta. En ég held, að hann hafi gleymt þriðju leiðinni, þ.e. þeirri, sem lögð er til með brtt. á þskj. 369, sem ég var áðan að minnast á, þ.e. að greiða þessar 85 millj. til viðbótar af greiðsluafgangi 1966, sem upplýst er, að er fyrir hendi, 800–900 millj. kr., hef ég heyrt, án þess að ég taki ábyrgð á því, – hæstv. fjmrh. er ekki samþykkur þeirri tölu, og hann leiðréttir hana þá væntanlega, ef þess gerist þörf, — en alla vega er mörg hundruð millj. kr., svo að ég reyni að hafa þetta rétt, og er óráðstafað. Alþ. hefur ekki ráðstafað greiðsluafgangi 1966. Þess vegna getur Alþ., ef því svo sýnist, ákveðið það, að þessar greiðslur skuli greiðast af greiðsluafgangi 1966, og hætt við að klípa þetta tillag af jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Hv. 2. landsk., frsm. sjútvn., sem hér talaði áðan, var búinn að reikna það út, að þessar 20 millj. kr. væru ekki nema 1% af heildartekjum sveitarfélaganna. Og hann sagði, að það væri um slíkt lítilræði að tefla, að hann teldi það ekki eftir sveitarfélögunum, annað eins og búið væri fyrir þau að gera, að manni skildist, að bera þennan bagga. Þetta átti auðvitað að sýna það, 1%, það er lág tala, hversu hér væri nú smátt klipið, hér væri um hreina smámuni að ræða. Ég tók það svo. Það hlýtur að hafa verið svo meint. Skv. þessu ættu þá allar tekjur sveitarfélaga að vera 2000 millj. kr., og má vel vera, að það sé rétt. Þá eru náttúrlega 20 millj. kr. heldur lítil fjárhæð, það má taka undir það. En ég hef ekki upplýsingar um, hve miklar tekjur allra sveitarfélaganna í landinu eru, en ég veit svona nokkurn veginn, hvað tekjur samkv. fjárlögum eru, þær munu vera 4800 millj. kr. og þó líklega nær 5 þús. millj. kr., ef vegaskatturinn, sem vitanlega er tekjur ríkisins, er talinn með, og þá telst mér til, að þessar 20 millj. séu ekki nema 0.4%, af heildartekjum skv. fjárlögum, svo að enn þá minna munar þá um þennan litla bagga á þeim stóra lið.

Það má kannske segja, að hér sé ekki um þá fjárhæð að ræða, að það taki því að vera að deila um það, hvar hana beri að taka, það muni litlu, á hvorum staðnum sem vera skal, það er 1% til sveitarfélaganna, en 2/5%, þegar rætt er um fjárlög ríkissjóðs. En hér er um stefnumálefni að ræða. Og ég held, að það sé ekki rétt braut að fara að skerða þá tekjustofna, sem sveitarfélögin hafa fengið í sínar hendur. Ég held, að þeir séu fremur of fáir og of smáir en of miklir, og þessu til staðfestingar vil ég leyfa mér að vitna í bréf, sem fylgdi mótmælum Sambands ísl. sveitarfélaga og samið er af formanni Sambands ísl. sveitarfélaga, Páli Líndal borgarlögmanni, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn sambandsins hefur rætt þetta mál og telur, að hún geti ekki fallizt á þessa skerðingu, enda sé hér um að ræða mjög snögglega stefnubreytingu hvað snertir viðhorf ríkisins til sveitarfélaganna, — stefnubreytingu, sem muni valda erfiðleikum í sveitarfélögunum, bæði fjárhagslegum og þá ekki síður stjórnmálalegum. Stjórn sambandsins telur, að síðustu árin hafi samskipti ríkisins og sveitarfélaganna farið mjög batnandi og hafi skilningur ríkisvaldsins á aðstöðu sveitarfélaganna mjög aukizt. Sérstaklega meta þau mikils þá skipun, sem upp var tekin fyrir nokkrum árum, er sveitarfélögum var veitt hlutdeild í söluskatti og þeirri skipan komið á, að sveitarfélögin fengju árlega framlag úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga. En rétt er þó að benda á, að sú hlutdeild, sem sveitarfélögunum hefur verið veitt í tekjum jöfnunarsjóðs, hefur þrívegis raskazt, þar sem sveitarfélögin hafa ekki haldið því hlutfalli af tekjum, sem upphaflega var ákveðið. Þar sem Sambandi ísl. sveitarfélaga var ljóst,“ — það stendur nú svona hérna — „að nauðsyn var á þeim hækkunum, var þessu ekki mótmælt, og má vera, að sambandið gjaldi þessa aðgerðarleysis, þegar beinlínis er að því stefnt að skerða þær tekjur, sem gildandi lög gera ráð fyrir.“

Eins og þarna er tekið fram, hefur þrátt fyrir till. í þá átt aldrei verið á það fallizt, frá því að upphaflegu lögin um söluskatt voru sett, að sveitarfélögin héldu því hlutfalli, sem þeim þá var ákveðið af söluskattinum. Augljóst er þó, að með vaxandi innheimtu söluskatts til ríkissjóðs minnka þeir tekjustofnar, sem sveitarfélögin hafa til þess að leggja á, því að vitanlega er gjaldþol einstaklinganna takmarkað. Ef nú á enn að fara að skerða þennan litla hlut, sem sveitarfélögin hafa haldið í innheimtu söluskattsins, hygg ég, að farið sé út á varhugaverðar brautir, sem sagt farið inn á stefnubreytingu, sem muni valda erfiðleikum í sveitarfélögunum, bæði fjárhagslegum og þá ekki síður stjórnmálalegum, svo að aftur sé vitnað til orða Páls Líndals formanns Sambands ísl. sveitarfélaga. Ég vil því mjög eindregið hvetja menn til að endurskoða þessi ákvæði og vænti þess, að einhverjir þm. a.m.k., sem hafa ætlað sér að fylgja þessu frv., endurskoði þá afstöðu sína nú, þegar þessi mótmæli liggja fyrir.

Ég ætlaði ekki að lengja þessar umr., og mér hafði satt að segja skilizt það, að þessu máli lægi nokkuð á og það væri af hálfu hæstv. ríkisstj. nokkurt kapp lagt á það, að menn lykju umr. hið allra fyrsta. En ég sá það áðan rétt fyrir fundarfrestunina, að svo muni ekki vera, því að þá var hér af hálfu stjórnliða haldin löng ræða, sem gaf mörg tilefni til athugasemda af hálfu okkar, sem stjórnarandstöðuna skipum.

Ég ætla ekki að gera þessa ræðu að neinu verulegu umtalsefni hér, en með því að tíminn er nægur og tilefnið ærið, hafði ég hugsað mér að víkja að kannske tveimur eða þremur liðum í þessari ræðu. Sú ræða, sem ég á hér við, var flutt af hv. 3. þm. Austf., Sverri Hermannssyni.

Hann vildi í fyrsta lagi kenna Framsfl. um þá verðbólguþróun, sem hér hefði átt sér stað á undanförnum árum. Hann sagði, að Framsfl. væri hinn eini, sem hefði aðra stefnu en framfylgt væri, og manni skildist, að þessari stefnu Framsfl. væri það að kenna, hver verðbólga hefði verið hér nú að undanförnu. Ég held, að það verði ákaflega erfitt fyrir þennan hv. þm. að sannfæra fólk almennt um, að þessu sé svona varið.

Hann sagði enn fremur, að samningarnir við verkalýðsfélögin samkv. júní-samkomulagi, sem svo hefur verið kallað, hefðu stuðlað að því að draga verulega úr verðbólgunni. Það er svo sem alveg satt, að verkalýðsfélögin hafa sýnt þessari hæstv. ríkisstj. alveg ótrúlegt langlundargeð og meira langlundargeð en oft hefur verið að mæta úr þeirri átt, þar sem þau hafa sætt sig við það, að kaupmáttur tímakaupsins hefur lítið sem ekkert hækkað á undanförnum 7–8 árum. Það má vissulega viðurkenna þetta hjá verkalýðsfélögunum, og menn leggja það út eftir því, sem þeim lízt. En ýmislegt hefur þó annað verið gert, og það mætti kannske spyrja þennan hv. þm., 3. þm. Austf., að því, hvað það hafi dregið mikið úr verðbólgunni, að samið var um vísitölu á lán húsnæðismálastjórnar, þannig að þeir, sem byggja nýjar íbúðir, verða einir allra að bera þær drápsklyfjar? Hann svarar þessu væntanlega hér á eftir. Í framhaldi af þessu: Hvað þurfa kaupgreiðslur að hækka til þess að standa undir þessum auknu útgjöldum?

Samhengið milli kaupgjalds og húsnæðiskostnaðar hefur svo oft verið rakið og rifjað upp hér á hv. Alþ., að ég hygg, að það sé óþarfi að gera það einu sinni enn. Þess vegna skal ég ekki fara langt út í það, en aðeins segja, eins og hér hefur raunar oft verið bent á, að lágmarkskaupgreiðslur hljóta vitanlega að miðast við það, að menn hafi húsnæði til að búa í, og sú ráðstöfun að setja vísitöluálag á húsnæðislánin hefur gert þennan kostnað meiri, og þess vegna þarf lágmarkskaupið að hækka þegar af þessari ástæðu. Þetta er alveg augljóst mál, og þarf ekki að eyða fleiri orðum að því.

Þá vék þessi hv. þm. að því reginhneyksli, sem ég vil kalla, að ráðh., einn eða fleiri, beitti sér fyrir því, að málfrelsið í útvarpinu var skert, að það fékkst ekki að flytja þátt, hann var bannaður. Það var útvarpsþáttur bannaður, áður en nokkrum var kunnugt um efni hans. Ég held, að það hafi þurft mikla hreysti eða þá vanþekkingu til þess að fara að hreyfa þessu máli hér, svo mikla hneisu sem aðstandendur þess, ráðh. og meiri hl. útvarpsráðs, hafa haft af þessu máli. Ég held, að það þurfi ekki að ræða þetta mjög ýtarlega hér að þessu sinni, þar sem fyrir þingið hefur verið lögð till., sem gengur í þá átt að sporna við því, að ráðh. séu að fikta við dagskrá útvarpsins, og að ákvörðunarvaldið um þau efni sé hjá þeirri n. eða þeirri stofnun, sem á að hafa það, sjálfu útvarpsráði. Ég vil bara segja þessum hv. þm. það, að ég hygg, að af mörgum ráðstöfunum og aðgerðum, sem þessi hæstv. ríkisstj. hefur verið gagnrýnd fyrir, sé fátt, sem hún hefur verið meira gagnrýnd fyrir en einmitt þetta, og ég hygg, að það verði hvorki honum né flokki hans til framdráttar að bíta höfuðið af skömminni með því að reyna að hafa æruna af ungum manni með því að brigzla honum um misnotkun í opinberu starfi. Ég er anzi hræddur um, að ef enginn, sem tekur launagreiðslur frá útvarpinu, mætti reka pólitísk erindi, þá færi að fækka erindrekum stjórnarflokkanna, og ég hygg, að þeir mættu lita sér nær, þeir sem gagnrýna þennan unga mann fyrir það að hafa gert fleira, eftir að hann var búinn að skila sínu erindi, en það, sem útvarpið fól honum. (Gripið fram í.) Augljóst er, að einhverju þarf að breyta, því að þessir síðustu atburðir sýna, að ástandið þarf endurskoðunar við.

Þá vék þessi hv. þm., 3. þm. Austf., að því sem hann sagði að við kölluðum stjórnleysið í útvegsmálunum, og þá fannst honum vera langt gengið, þegar stjórnarandstæðingar töluðu um það, að í útvegsmálunum ríkti stjórnleysi, eða hefðum við ekki tekið eftir því, að svo til allir þm. Sjálfstfl. hér í þessari hv. d. hefðu nú á allra síðustu dögum flutt hvert frv. öðru merkara um það, sem til stæði og ætti að gera í sjávarútvegsmálunum til þess að koma þeim í viðunandi horf. Jú, jú, við höfum séð þessi frv., og við drögum okkar ályktanir af flutningi þeirra. Við vitum, hvað stendur til í vor, og samhengið er augljóst. Ég verð að segja, að það er ekki sigurstranglegt að leggja út í baráttuna með það aðalhaldreipi, að eftir 8 ára stjórnarsetu séu það nokkur frv. eins taka þm. Sjálfstfl., sem fleygt er inn í þingið á síðustu dögunum og vonlítið er að nokkra afgreiðslu fái, sem eiga að vera það flotholt, sem hæstv. ríkisstj. ætlar að fljóta á inn yfir brimgarðinn að þessu sinni. Hafa þessir menn ekki haft neina aðstöðu undanfarin 7–8 ár? Hafa þeir ekki getað gert þetta, sem þeir nú vilja? Hefur ekki Sjálfstfl. verið aðalþátttakandi í ríkisstj. undanfarin 2 kjörtímabil? Ég veit ekki betur. Og ástandið í sjávarútvegsmálunum eftir þetta 7 eða 8 ára tímabil er þannig, að þm. Sjálfstfl. í hv. Nd. sjá sig knúna til þess að flytja þmfrv. til þess að skýla nekt hæstv. ríkisstj. Eða er þetta ekki svona? Er þetta kannske á hinn veginn? Er það Alþfl., sem hefur ráðið því, að þessir ráðagóðu þm. Sjálfstfl. hafa ekki fengið að koma því fram, sem þeir hafa allan tímann viljað? Þessu get ég ekki svarað. Þessu getur hv. 3. þm. Austf. væntanlega svarað, enda er hann einn af þeim, sem að einhverjum af þessum frv. standa.

Það var sjálfsagt ýmislegt fleira í þessari ræðu, sem hefði mátt gera hér að umtalsefni, en ég ætla nú að láta þetta duga. Ég stóð hér fyrst og fremst upp til þess að vekja athygli á þeirri ályktun borgarráðs Reykjavíkur, sem ég hef nú leyft mér að lesa fyrir hv. þdm., til þess að tryggja það, að hún færi ekki fram hjá þeim, og ég tel sérstaklega, að hv. þm. Reykv. í stjórnarflokkunum ættu nú að hlusta á það, sem þessir flokksbræður þeirra hérna hinum megin við Austurvöll hafa til málanna að leggja, því að það hefur löngum verið talið ráðlegt, að vinstri höndin vissi, hvað sú hægri gerði. Ég vil treysta því, að þessi mál verði tekin til athugunar, og hér er, eins og bent hefur verið á, um það stórvægilegt atriði að ræða, að það má vel koma því fyrir á annan hátt, ef menn bara vilja.