21.03.1967
Neðri deild: 58. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 869 í B-deild Alþingistíðinda. (550)

147. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það virðist ætla að vera hálferfitt að koma þessu frv. áfram, fyrir áhuga stjórnarstuðningsmanna úr Sjálfstfl. og Framsfl. að láta ljós sitt skína hér. Það undarlega er, að menn skuli geta haldið hér langar ræður um þessi mál án þess að koma að því atriði, sem er alveg höfuðatriðið í sambandi við allan þennan vanda. Hvernig stendur á því, að þessi fjárhagsgrundvöllur, sem var til og hefði getað veríð áfram til fyrir útgerð á Íslandi, er hruninn? Orsökin er einfaldlega sú, að verðlag á Íslandi hefur tvöfaldazt á s.l. rúmum 5 árum. Verðlag innanlands hefur tvöfaldazt, án þess að gengi hafi nokkurn skapaðan hlut breytzt út á við. Og hvernig stendur á því, að þetta er orðið svona? Við vitum, að ef við berum saman við 1959, er það mun meira en svo, að það hafi tvöfaldazt, það er næstum 21/2 sinnum, en ef við berum saman t.d. við 1962, er það nokkurn veginn tvöföldun.

Þegar núv. hæstv. ríkisstj. tók við völdum, lýsti hún því yfir, að hún mundi ekki leyfa verðhækkunum að fara út í atvinnulífið. Ef samið væri t.d. um kauphækkanir eða annað slíkt, yrðu atvinnurekendur að bera það sjálfir, m.ö.o. því var lýst yfir, að það ætti að skapa þannig aðhald að atvinnurekstrinum í landinu, þar með verzluninni líka, að hún gæti ekki leyft sér í sífellu að ætla að láta þjóðfélagið borga fyrir það, sem hún á sjálf að borga með því að skipuleggja vinnuna betur og skynsamlegar. En hvað gerðist síðan? Það, sem gerist, er, að ríkisstj. gefst upp við þetta. Hún gefur alla verðlagningu, alla álagningu í landinu svo að segja frjálsa. Hún leyfir kaupmannavaldinu í landinu að leggja á eins og það vill. Hún leyfir atvinnurekendum í landinu að velta kaupgjaldshækkunum yfir í verðlagið í landinu sjálfu. Sem sé, í staðinn fyrir að standa fast á því, sem hún lýsti yfir upphaflega fyrir einum 6–7 árum, gafst hún upp á þessu. Og fyrir hverjum gafst hún upp? Hún gafst upp fyrir fésýsluvaldinu í Reykjavík. Það er bezt fyrir þá, sem ætla að grafast fyrir um, hvaðan það kemur, sem stundum hefur verið talað um fjandskap við sjávarútveginn og alls konar slæmar aðgerðir gagnvart honum, hvaðan slíkar aðgerðir koma. Öll sú verðhækkun, sem er búin að vera í landinu, tvöföldun alls verðlags í landinu á 5–6 árum, hún kemur frá þessu fésýsluvaldi, sem ríkisstj. hefur gefizt upp fyrir, frá þeim bröskurum, sem í sífellu vilja fá að velta yfir á þjóðfélagið verðhækkunum og fá að skammta sjálfum sér af verðlaginu í þjóðfélaginu sem þeim þóknast og álíta það helgan rétt sinn að mega leggja á vörurnar eins og þeir vilja. Það er þetta, sem er meinið, það að ríkisstj. hefur verið stjórn verzlunarvaldsins í Reykjavík. Það er höfuðmeinið í þessu öllu saman. Það hefur verið svo frá upphafi vega, að sjávarútvegurinn hefur alltaf verið hornreka hjá ríkisstj. hér á Íslandi nema einni eða tveimur ríkisstj. Það hefur verið einmitt þetta verzlunarvald, sem hefur drottnað, og þess vegna er núna komið sem komið er. Við vitum ósköp vel, hvernig þetta er. Þetta er þannig, að það er gengið á sjávarútveginn af hálfu verzlunarvaldsins með því að hækka í sífellu álagningu og annað slíkt og velt öllu yfir á verðlagíð, og sjávarútvegurinn getur engu velt af sér. Síðan, þegar sjávarútvegurinn er að drepast, þá loksins á að bjarga og með hverju? Með gengislækkun. Við vitum svo sem, að eftir kosningar kemur að því. Verzlunarvaldið á Íslandi lifir ekki án sjávarútvegsins. Það lifir á sjávarútveginum. Það lifir á því að arðræna hann. Það eru meira að segja lög í landinu um, að það skuli taka allan gjaldeyri af sjávarútveginum, sem hann skapar, og honum skuli skilað, þannig að verzlunarvaldið í landinu geti notað hann. Verzlunarvaldið þarf ekki sjálft að sjá um einu sinni að útvega sér gjaldeyri. Hann er tekinn með lögum, þjóðnýttur af sjávarútveginum, þannig að það er gefið mál í þessum efnum, að meðan hlutur sjávarútvegsins er ekki réttur í þessum efnum, og það þýðir að þrengja að kosti verzlunarvaldsins í landinu, heldur þetta áfram á þessa ógæfuhlið, og það hefur aldrei sigið eins fljótt á þessa ógæfuhlið og núna, að það skuli vera hægt á einum einustu 5–6 árum að tvöfalda allt verðlag í landinu.

Ég veit, að verzlunarvaldið í landinu drepur ekki sjávarútveginn, það væri sama sem að slátra gullhænunni. Þrátt fyrir allt kjaftæði þess um útlenda stóriðju hér á Íslandi og slíkt kemur verzlunarauðvaldið á Íslandi ekki til með að græða nokkurn skapaðan hlut á henni. Þeir kunna það lítið að reikna, okkar kapítalistar. Það er sjávarútvegurinn, sem þeir græða á, og þess vegna er það, sem kemur til með að verða eftir kosningarnar, það er, að gengið verður fellt. Verzlunarvaldið í Reykjavík sér, að það verður að gera þetta til þess að reyna að bjarga sjávarútveginum, og síðan á að dansa aftur sama dansinn. Hann entist núna í 5 ár, af því að það er alltaf að hækka verðlagið á fiskafurðunum erlendis. Hvað ætli hann endist lengi eftir kosningar? 2–3 ár, ef það koma ekki nýjar verðhækkanir til erlendis, og þá erum við komnir í þann dauðadans, sem drepur hverja þjóð, ef gengið á að lækka á 2–3 ára bili, eins og byrjað var með hjá þessari ríkisstj., sem tók við, þegar gengið var lækkað bæði 1960 og 1961. Það sýnir aðeins eitt. Það sýnir, að með því að taka svona tillit til hagsmuna verzlunar- og fésýsluvaldsins í Reykjavík er ekki hægt að stjórna þessu landi af neinu viti, og það er það, sem þeir menn þurfa að læra, sem ætla að reyna að stjórna landinu. Ef þessi ríkisstj. hefði haldið við það, sem hún lýsti yfir upphaflega, þá hefði vafalaust margt getað tekizt tiltölulega vel hjá henni í þessum efnum. En hún gafst upp á því, gafst upp fyrir kröfum fésýsluvaldsins.

Hvernig er hins vegar ástandið? Hér er talað um það, þetta voðalega hrun á verðlaginu erlendis, það valdi þessum hlutum. Þetta er eintóm vitleysa. Ég hef fyrir mér opinberar tölur viðvíkjandi verðlagi 1962 og 1967 á t.d. þorskflökunum, og það er eftir að verðfallið var komið, sem núna var. Þorskflökin, sem seld eru í Bretlandi, eru núna í febrúar—marz 1967 33% hærri en þau voru 1962. Í Bandaríkjunum hefur þarna orðið ofurlítið verðfall, og samt miðað við febrúar 1967 hefur það orðið 12% lægra en það var 1962. Í Sovétríkjunum eru þorskflökin núna 25% hærri en þau voru 1962. Það er ekki til neins fyrir menn að koma fram með þá vitleysu hérna við okkur, að það sé út af verðbreytingunum erlendis, sem einhver vandræði steðja að. Það er ekki til neins að koma fram með svona dellu, eins og þessir þm. eru með. Það er út af verðbreytingunum á Íslandi, sem vandræðin stafa, og þær verðbreytingar stafa af framkvæmdinni á þessu svokallaða álagningarfrelsi. Það er sú kórvilla, sem hefur verið gerð, einokunin til handa fésýsluvaldinu í landinu og þess vald um verðlagningu á öllum hlutum. Þess vegna er það undarlegt, að menn skuli geta talað hér og haldið langar ræður og koma ekki inn á þetta, reyna að dylja þetta, sem er eina stóra vandamálið í þessu öllu saman, með alls konar snakki um alla mögulega aðra hluti.

Og svo er hitt málið, sem ég ætla að minnast hér á. Það er viðvíkjandi togaraflotanum. Undirstaðan að Reykjavík, vexti Reykjavíkur, atvinnulífi Reykjavíkur hefur alltaf verið togaraflotinn. Undirstaðan að hraðfrystihúsunum í Reykjavík hefur fyrst og fremst verið togaraflotinn. Og spurningin þess vegna fyrir okkur í þessum efnum hér í Reykjavík er fyrst og fremst spursmálið um togaraflotann, og það er hægt að nota hann á slíkan hátt víðar á landinu en hér. Og þeir útgerðarmenn, sem mest hafa talað um þessi vandamál nú, bæði Guðmundur Jörundsson og ýmsir fleiri, hafa bent á þá leið, sem virðist vera mjög skynsamleg í þessum efnum, að það sé keypt allmikið af skuttogurum, þeir séu látnir veiða í sig, og það virðist ekki ganga neitt amalega fyrir góða skipstjóra að veiða núna, eins og Maí sýnir bezt, að þeir hraðfrysti fiskinn um borð, þeir skipi honum hér í land, geymi hann hér, þíði hann, þegar þar að kemur, og skapi þannig mjög örugga vinnu í hraðfrystihúsunum, miklu öruggari en verið hefur fram að þessu. Við ættum ekki að vera í neinum vandræðum með þessa hluti, svo framarlega sem hefði verið hugsað af einhverri forsjálni í sambandi við togaraflota. En það er það, sem hefur vantað, vantað gersamlega. Það, sem hefur vantað, og það, sem hefur verið kórvillan í allri stefnu hæstv. ríkisstj., er, að hún hefur hafnað öllu, sem heitir áætlunarbúskapur í þjóðfélaginu sjálfu, drepið niður allar tilraunir til slíks, kjaftað um hann í sambandi við ríkisbúskapinn, notað hann þar til þess að skera síðan niður sínar áætlanir um allt að 20% eða svo, til þess að reyna að gera allt tal um áætlunarbúskap að einberum hégóma.

Það, sem þurfti, var áætlunarbúskapur í þjóðfélaginu í heild og fyrst og fremst á því sviði, sem við vitum, að einkaframtakið stendur sig aldrei neitt á. Einkaframtakið hefur í 30 ár með einni litilli undantekningu, sem ég skal koma að á eftir, ekki hugsað um togarakaup til Íslands. Það er fyrst og fremst ríkið, sem þar hefur orðið að koma til, þannig að sú kórvilla, sem ríkisstj. gerði frá upphafi vega, er að halda, að einkaframtakið á Íslandi hafi vit eða vilja til þess að skipta sér af endurnýjun togaraflotans. Höfuðsynd ríkisstj. er að láta þetta mál afskiptalaust, og það stendur í sambandi við allt snakkið um einstaklingsframtakið, sem raunverulega þýðir í munni ríkisstj. aðeins rétt kaupsýslumanna til þess að græða eins og þeir geta á almenningi og gera aðstöðu sjávarútvegsins í þjóðfélaginu sem versta. Það þarf fyrirhyggju þess opinbera til þess að kaupa togara til landsins. Án þess verður það ekki gert. Og ef þá fyrirhyggju vantar, missum við smám saman togaraflotann. Það, sem þurfti að gera og gera fyrir alllöngu, var að gera stórfelldar ráðstafanir til þess að kaupa togara, kaupa nýja togara, kaupa skuttogara, og til þess höfðum við nóga peninga. Togaraútgerð á Íslandi hefur vissulega oft átt við erfiðleika að stríða. Hún hefur engu að síður skapað grundvöllinn, það er fyrst og fremst hún, sem hefur skapað grundvöllinn að þeim mikla viðgangi í atvinnulífi Íslendinga, sem orðið hefur á þessari öld.

Það komu miklir erfiðleikar fyrir hana hér á árum fyrr, og fækkaði þá togurum. Þegar heimskreppan skall yfir, voru togararnir, held ég, 47, a.m.k. 1928 voru þeir 47, 1935 voru þeir komnir niður í 37. Heimskreppan hjó stórt skarð í togaraflotann íslenzka, og annar vágestur kom eftir: heimsstríðið. Þá fækkaði úr 37 togurum 1935 niður í 28 1945, og þessir 28 voru gamlir ryðkláfar, svo að segja ónýtir, þeir sem lifðu stríðið af. Það voru mikil áföll, þegar heimskreppan og síðan heimsstríðið skall yfir íslenzka togaraflotann og fækkaði honum úr 47 niður í 28, um leið og þeir eltust.

En svo kom viðreisnarstjórnin seinna meir. Þá voru 53 togarar, þegar hún tók við, á Íslandi, 53 1959, — og hvað eru þeir í dag? Það er deilt um það hérna, hvort það séu 16 eða 22. Mér er sama, hvor talan er tekin. Á tímum viðreisnarstjórnarinnar fækkar þeim um meira en 30. Það er forsjálnin, það er stjórnarstefnan í þessum efnum. Þeim fækkar um meira en 30. Það var einu sinni ríkisstj. á Íslandi, sem áleit sig eiga að hafa forgöngu um það að efla atvinnulífið í landinu og treysta ekki á einkaframtakið, og meiri hl. Sjálfstfl. tók þátt í þeirri stjórn. Sú ríkisstj. hafði samt ekki meiri sjóði en þá, sem núna standa til boða. Hún keypti 30 nýja togara í einu lagi til þess að efla grundvöllinn að atvinnulífi Íslendinga. Og þannig jókst togarafloti á Íslandi á þeim tíma og var lagður grundvöllur að miklu af þeim afla, sem kom á land. Lengi vel voru það togarar, sem útveguðu helminginn af öllum aflanum, sem hér var aflað þá. Þetta er munurinn á ræfilsskapnum, sem Sjálfstfl. sýnir í þeirri stjórn, sem hann tekur þátt í nú, og þeirri reisn, sem var yfir þeim hluta Sjálfstfl., sem tók þátt í nýsköpunarstjórninni 1944. Og þessi munur stafar fyrst og fremst af því, að Sjálfstfl. gengur nú með þær hugmyndir, að það eigi að láta eitthvert einkaframtak sjá um þessa hluti, og kaupahéðnar eru látnir vaða uppi í flokknum og hér í Reykjavík til þess að boða, að það sé ein allsherjarlausn á öllum vanda, bara frelsið til handa kaupahéðnunum í þessum efnum. Það er ekki það, sem Ísland þarf á að halda. Það þarf að reka Ísland eins og það væri þjóðarbúskapur nokkurra fjölskyldna, sem vilja standa saman, ef við eigum að halda þeim lífskjörum, sem við höfum nú.

Menn gorta í dag, að við séum þeir þriðju í veröldinni hvað snertir þjóðarframleiðslu, með því að reikna með hringafölsku gengi, tvöföldu gengi á öllum þeim hluta þjóðarframleiðslunnar, sem notaður er hér innanlands. Morgunblaðið jafnvel og þessir aðilar eru að slá þessu upp dag eftir dag, að við séum nr. 3 í heiminum. Mér þætti gaman að sjá framan í þessa menn, þegar þeir verða búnir að fella gengið eftir kosningar, og vita, hvar við erum í röðinni þá, kannske afgreiddu það í dollurum. Þeir ættu að tala ofurlítið minna, en hugsa ofurlítið meira um grundvöllinn undir þjóðfélaginu.

Það er sem sagt öll þessi braskvitleysa ríkisstj.; öll þessi trú á einstaklingsframtakið, sem hefur valdið ógæfunni í þessum efnum. Það hefur ekki verið hugsað um það í tíma að endurnýja allan togaraflotann, eins og hefur þurft að gera, með stórum, góðum skuttogurum og sjá þannig um nægilegan fisk til handa okkar stóru hraðfrystihúsum með þeirra miklu afkastagetu. Það er þetta skeytingarleysi, það er þetta, að hugsa sem svo, að þetta eigi að vera verkefni einhverra braskara, — það er það, sem er að drepa sjávarútveginn, verðbólgan annars vegar og þetta fyrirhyggjuleysi hins vegar.

Hins vegar verð ég að segja, að það er náttúrlega ekki sérstaklega mikil von til þess, að einstaklingar leggi í að endurnýja togaraflotann. Það er ekki svo þokkalega farið að við þá, sem glæpast á því að trúa ríkisstj. í þessum efnum. Það voru til vesalings menn á meðal togaraeigenda hér í Reykjavík, sem glæptust á því 1959, þegar þessi ríkisstj. kom með allan sinn frelsisboðskap, að fara að kaupa togara. Það voru menn til, það var undantekningin, sem ég talaði um áðan, það voru keyptir einir þrír togarar. Þessir menn keyptu þá, og þeir gengu út frá, að þeir mundu kosta 25 millj., og gátu réttilega reiknað með því. Og hvað gerði svo ríkisstj.? Rétt eftir að mennirnir voru búnir að kaupa togarana fellir ríkisstj. gengið, ekki einu sinni, heldur tvisvar, þannig að þegar þessir togarar komu, verða þessir menn að borga fyrir þá 40 millj. Hún stelur af þeim 15 millj. kr. Það voru verðlaunin fyrir að trúa því, að einstaklingsframtakið ætti að eiga eitthvað betra núna á næstunni a.m.k., ef það legði í að kaupa togara.

Það er þetta tvennt, sem menn verða fyrst og fremst að læra af því, sem gerzt hefur á undanförnum árum. Annars vegar verður að halda verðlagi innanlands í skefjum, og það verður ekki gert með öðru en harðvítugu aðhaldi að kaupsýslu- og fésýsluvaldinu í landinu. Í öðru lagi verður að hafa forsjálni í þjóðarbúskapnum. Alþ. og ríkisstj. verða að hugsa fyrir þjóðinni, hvað snertir reksturinn á stærstu fyrirtækjunum fyrst og fremst. Öðruvísi verður þetta ekki gert. Sú pólitík, sem rekin hefur verið á undanförnum árum, er fyrst og fremst tertubotnapólitík. Það er eins og hæstv. ríkisstj. hafi hugsað sér, að við ættum að gera út á tertubotnum. Togaraflotinn er áreiðanlega betri grundvöllur fyrir Ísland. En verzlunarvaldið aftur á móti mun vafalaust sjá um, að tertubotnar séu til hérna. Togurunum fækkar um 30, en tertubotnar eru í fyrsta skipti fluttir inn frá útlöndum. Kaupsýsluvaldið hefur hagað sér eins og maður á blindfylliríi í 6–7 ár, keypt til landsins allan mögulegan óþarfa og vitleysu, þannig að þegar þessu góðæristímabili, sem nú hefur verið, fer að ljúka, til allrar óhamingju, má búast við, að það verði farið að skera niður á öllum sviðum, af því að menn hafa ekki kunnað fótum sínum forráð, þegar tæknibylting í síldarútveginum færði okkur á land meira en tvöfalt meiri afla en við höfum haft á undanförnum áratugum. Þetta er afleiðingin af því að hugsa eingöngu sem braskarar og gera braskboðskapinn að undirstöðu í öllu atvinnulífi, í stað þess að hugsa eins og menn, sem eiga að stjórna einni þjóð, og sjá um, að hún geti lifað og lifað vel og skynsamlega á því, sem hún getur aflað sér.