21.03.1967
Neðri deild: 58. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 874 í B-deild Alþingistíðinda. (551)

147. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég skal taka tillit til þess, að fundartími er á þrotum, og raunar hafði verið fyrirhugað, að þingið lyki störfum fyrir páskahátíð nú á eðlilegum fundartíma, þó að það hafi ekki getað orðið.

Ég vil aðeins segja það í tilefni af ræðu hv. 3. þm. Austf., að mig setti hljóðan, þegar stjórnarandstaðan hafði undirgengizt það í gær að stilla umr. í hóf um stórmál, sem stjórnin lagði kapp á að fengi afgreiðslu fyrir páskahátíðina, eftir að hæstv. ráðh, hafði þakkað fyrir skjóta afgreiðslu í n. á því máli og þakkað d. fyrir hógværar umr. og að þeim væri lokið, þá reis upp hv. 3. þm. Austf. og hélt langa ræðu, ádeiluræðu, og setti þessi áform hæstv. ríkisstjórnar þannig úr böndum, það hefur stjórnarandstaðan ekki gert. En ég varð enn þá meira hissa í dag, þegar hann upphóf maí sitt á ný og hóf stranga ádeiluræðu á hv. 5. þm. Austf. fjarverandi, því að það hefur ekki getað dulizt honum, að hv. 5. þm. Austf. hefur ekki verið hér í dag. Hann fór úr bænum í morgun og er farinn til Austfjarða, og ef hv. 3. þm. Austf. langar til að tala við hv. 5. þm. Austf. um sjávarútvegsmál, er það betra, bæði skynsamlegra og talsvert drengilegra líka, að sæta færi, þegar þeir eru báðir í Austfirðingafjórðungi, en ekki hann í Reykjavík og hv. 5. þm. Austf. fyrir austan. Það samrýmist hvorki skynsamlegum tilgangi með viðræðum né drengskap, og er betra að láta slíkt tal falla niður í þingsölunum, því að drengskapur er líka virtur hér. Ég gæti vel tekið að mér að ræða við hann um landhelgismál, þó að það væri nú kannske öllu skynsamlegra fyrir hann að ræða þau mál við Vestfirðinga sem bjargráð við bátaútveginn. En ég læt það vera, og ég læt vera alveg að blanda mér í þetta samtal 3. þm. Austf. hér í þingsalnum við þingbróður sinn austur á Austfjörðum, en bendi honum á sem gömlum lærisveini mínum, að þetta eru ekki vinnubrögð, sem eru virt, þau eru ekki drengileg.

Ég sem sé verð við orðum hæstv. forseta og fer ekki í efnislegar umr. um málið, en vildi aðeins segja þetta í tilefni af því, sem hér hafði áður gerzt á þessum þingfundi, og mun ég ekki eyða tíma d. meira.