21.03.1967
Neðri deild: 58. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 875 í B-deild Alþingistíðinda. (552)

147. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég skal reyna að verða við þeim tilmælum hæstv. forseta að vera stuttorður, þó að ræður einstakra þm. hér í sambandi við þessi mál hafi gefið tilefni til þess að taka þær nokkru nánar til athugunar, en ég ætla að reyna að fara eins fljótt yfir sögu og ég mögulega get.

Út af því, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði um togaraútgerðina, ætla ég nú að leyfa mér að leiðrétta hann hvað það snertir, að á árinu 1954 var hér 51 togari, en á árinu 1958 voru þeir 44, svo að það kláraði vinstri stjórnin þá að fækka togurum verulega. Hún hóf engan undirbúning að því að byggja eða flytja inn fleiri togara á þeim árum, sem hún var við völd, og hafði þó þessi hv. þm. töluverð áhrif í þeirri ríkisstj., eins og allir vita. Við síðustu áramót voru 32 togarar á skipaskrá, en nú eru 22 togarar í útgerð. En þegar hv. þm. talar um togaraútgerðina og kennir núverandi hæstv. ríkisstj. um allar ófarir togaraútgerðar, gleymir hann alveg einu veigamiklu atriði, sem ég get ekki látið hjá líða að koma inn á, því að nú er afli íslenzkra togara og hefur verið á undanförnum árum, og þá á ég eðlilega við meðalafla þeirra, um 40% af því, sem hann var á fyrstu árunum eftir að nýsköpunartogararnir komu til landsins og hófu sínar veiðar. Kannske það sé hæstv. ríkisstj. að kenna, að aflinn hafi minnkað svona á þeim árum, að dómi þessa hv. þm. En ég hygg, að aðrir þm. vilji ekki saka ríkisstj. um það.

Hv. þm. talaði um ranga stefnu í efnahagsmálum, og fór um það nokkrum orðum og hefur auðvitað gert það í mörgum öðrum ræðum og þá miklu ýtarlegar. Ég skal alveg spara það að víkja að þeim málum að öðru leyti en því, að það er ekki langur tími síðan ég lenti í viðræðum við nokkra menn, sem hv. þm. mundi kalla braskara. Þessir menn voru á einu máli um, að núverandi ríkisstj. hefði þrengt kosti þeirra mjög og það væri eiginlega ólifandi undir hennar stjórn fyrir það, hvað stjórnin væri vond við þessar atvinnugreinar, og sem dæmi um það, hvað þeirra hagur hefði versnað á þessum árum, tóku þeir viðmiðunina við vinstri stjórnina 1956–1958 og töldu allir með tölu, að það hefði verlá einn mesti blómatími á þeirra ævi, vinstristjórnartímabilið, þegar Einar Olgeirsson mótaði stjórnarstefnuna ásamt fleirum. Ég skal ekki leggja neinn dóm á sannleiksgildi þessara orða, en svona tala nú þessir menn, sem hv. þm. kallar braskaralýði nn.

Ég hefði haft löngun til að ræða nokkuð við hv. 5. þm. Austf., en ég ætla að sleppa því, af því að hann er fjarstaddur, enda vonandi lifum við báðir það að geta talað saman síðar um þau mál. En varðandi hv. 3. þm. Austf., sem flutti að mörgu leyti fróðlega og yfirgripsmikla ræðu hér í gær, sem hefur farið nokkuð í taugarnar á sumum hv. stjórnarandstæðingum, vil ég þó segja um hana, að ég tel, að þau ummæli, sem hann viðhafði um hraðfrystihúsin og ástand þeirra og horfur, hafi verið mjög óvarleg, og ég vil kenna þar um ókunnugleika hans á rekstri hraðfrystihúsa, því að í fáum orðum sagt voru það óvarleg ummæli, sem ekki fá staðizt, sem hann viðhafði um rekstur hraðfrystihúsanna. Hv. þm. talaði einnig mikið um botnvörpuveiðarnar, eins og hv. 5. þm. Norðurl. v. gerði. Ég harma það, að hv. 3. þm. Austf. skuli hafa þessar einbeittu skoðanir á botnvörpuveiðum og telja, að með því að leyfa hömlulausar botnvörpuveiðar innan landhelgi sé hinum minni vélbátaflota borgið, sem og 5, þm. Norðurl. v. tók undir. Ég harma það sérstaklega, að 3. þm. Austf. skyldi hafa þau orð, því að hann er upprunninn á Vestfjörðum, þar hafa botnvörpuveiðar verið reyndar með lélegum árangri, á meðan var leyfilegt að fiska í botnvörpu að 4 mílum, en ég ætla aðeins að segja honum og öðrum hv. þm. það, að ef botnvörpuveiðar yrðu leyfðar, væri búið að kippa atvinnugrundvellinum undan smábátaútgerðinni, eins og t.d. á Vestfjörðum, þar sem gerðir eru út yfir allt sumarið hátt í 200 bátar. Ef botnvörpuveiðar væru leyfðar á þessum fiskimiðum, væri búið algerlega að eyðileggja lífsafkomu þessa fólks, þess vegna er ég fyrst og fremst andstæðingur botnvörpuveiða. Ég tel það happ fyrir þjóðfélagið að hafa fjölbreytni í útgerð inni. Ég tel það happ, að jafnmargir menn vilji sjálfir ráða og eiga sína útgerð, og það á auðvitað víðar við en á Vestfjörðum, það á ekki síður við á Norðurl. v., þar sem einn hv. þm. leggur nú til og telur það höfuðbjargráð fyrir smærri útgerðina, að leyfa botnvörpuveiðar.

Hv. 4. þm. Reykn. talaði mikið um óðaverðbólguna og hvað útgerðarkostnaður hefði hækkað stórkostlega. Ein höfuðástæðan fyrir, að útgerðarkostnaður hefur hækkað, er sú, að það hafa verið miklar framkvæmdir í þessu landi, það hefur verið skortur á vinnuafli, það hefur orðið að yfirkaupa menn til þess að stunda þennan atvinnuveg, það hefur orðið að yfirkaupa menn til þess að sjá um viðgerðir og annað. Hefur flokkur hv. 4. þm. Reykn. stuðlað að því með till. eða í ræðuflutningi hér á Alþ. að minnka þessa spennu? Nei, þessi hv. þm. og hans flokkur hafa alltaf tekið undir það að auka á þessa spennu, auka alltaf á og krefjast aukinna framkvæmda í þjóðfélaginu, þannig að það sé skortur á vinnuafli sem víðast. Þetta hefur fyrst og fremst gengið út yfir þessa atvinnugrein. Sami flokkur hefur krafizt þess að lækka vextina stórkostlega, þá einnig á víxlum fyrir braskarana. Hvað hefði það þýtt? Það hefði þýtt, að það hefði verið meira gert, það hefði verið meiri pressa í sambandi við vinnuaflið.

Það hefur margt verið gert á þessum árum fyrir smábátaútgerð. Stofnlán báta af stærðinni upp í 120 rúmlestir hafa verið lengd með því að veita frestun á afborgunum bæði árið 1963 og 1964, og nú hefur verið afgreitt hjá stjórn fiskveiðasjóðs á þann hátt að lengja þessi lán um 2 ár.

Þessi hv. þm. og fleiri hafa talað um, að það vanti skipulag og það hafi þessi ríkisstj. á engan hátt gert. Þær greinar, sem þessi ríkisstj. hefur tekið fyrir og viljað færa á milli, frá t.d. síldveiðunum yfir í þessa útgerð, sem hefur átt við erfiðleika að stríða, eins og með frv. um útflutningsgjaldið á síðasta þingi, þá var hreinlega verið að taka af síldveiðiflotanum og færa yfir til minni skipanna. Við skyldum ætla, að hv. 4. þm. Reykn. og hans flokksmenn hefðu fagnað slíkri skipulagsbreytingu og talið hana þarfa og nauðsynlega. Nei, það var ekki aldeilis. Þeir greiddu allir atkvæði é móti, að undanskildum einum þm. Framsfl., hv. 3. þm. Vestf. Það var eini maðurinn, sem kviknaði á perunni hjá í þessum flokki.

Menn verða að vera sjálfum sér samkvæmir, þegar þeir eru að tala um þessa hluti, en ekki vaða elginn í tómri vitleysu, eins og hv. 5. þm. Norðurl. v. gerði, þegar hann taldi hér upp á milli 25 og 30 liði, sem hefðu verið lagðir á útgerðina. M.a. taldi hann það ríkisstj. til áfellis að hafa lagt á gjöld til fiskveiðasjóðs. Er verið að leggja skatt á útgerðina með því, að útgerðin greiði til fiskveiðasjóðs og til aflatryggingasjóðs? Þetta eru sjóðir, sem útgerðin ein ræður yfir að öllu leyti, og ríkið eða þjóðfélagið leggur þessum sjóðum til mikið fé. Skv. fjárlögum yfirstandandi árs var lögð til fiskveiðasjóðs 41 millj. kr. og til aflatryggingasjóðs 32 millj. kr., til fiskileitar, síldarrannsókna og veiðitilrauna 21 millj. kr. Svo fer þessi hv. þm., 5. þm. Norðurl. v., að telja hér upp gamla skatta á útgerðina, eins og það, að útgerðin eigi að borga sjúkrasamlagsgjöld fyrir skipverjana, sem búið er að vera í gildi síðan lög um sjúkrasamlög voru sett. Þetta er að koma aftan úr grárri forneskju, að vera að tala um þessa hluti. Hann er að tala um ýmsa skatta, sem útgerðin sjálf hefur samið á sig í frjálsum samskiptum við stéttarfélögin. Svo kemur þessi maður hér fram á Alþ. alveg eins og flón og segir: Ríkisstj. hefur lagt á okkur alla þessa skatta. Þessi maður fylgist ekki með tímanum, hann er orðinn á eftir sinni samtíð. Hann hefur staðnað eftir þessari ræðu. Þetta er einhver heimskulegasta ræða, sem hefur verið flutt á Alþ. (Gripið fram í.) Já, þú ættir að sitja í þingsalnum. Ég var búinn að vara þig við.

Ég ætla að benda hv. 4. þm. Reykn. á, að það hafa á undanförnum þingum verið að gerast skipulagsbreytingar á sjávarútvegsmálum. Það voru sett á síðasta þingi lög um Fiskveiðasjóð Íslands. Það voru sett lög um rannsóknir í þágu atvinnuveganna og þá auðvitað um leið fyrir fiskiðnaðinn og fyrir sjávarútveginn. Það voru sett lög um Framkvæmdasjóð Íslands, Efnahagsstofnun og Hagráð. Allt hefur þetta sitt að segja í þeirri skipulagningu, sem ríkisvaldið hefur verið að vinna að. En þetta virðist allt hafa farið fram hjá hv. 4. þm. Reykn., að hafi verið gert og lögfest. Hefur hann þó setið hér á þingi, og ég hef alltaf haldið, að hann hafi fylgzt vel með málum, en hann virðist hafa gleymt þessu öllu. Hitt fer ekki á milli mála, að það er brýn nauðsyn að marka heildarstefnu í sjávarútvegsmálum í framtíðinni.

Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð öllu fleiri, en þó get ég ekki stillt mig um að minnast hér á eitt atriði, sem hv. 4. þm. Reykn. kom inn á. Hann fór að tala um ranga stefnu í markaðsmálum. Hann fór að tala um, að með stefnu ríkisvaldsins hefðu viðskipti við Pólland og Sovétríkin minnkað mikið. Við vitum það, að Pólland, Austur-Þýzkaland og jafnvel Sovétríkin hafa nú byrjað að flytja út freðfisk, og hafa tvö hin fyrrnefndu þessara landa lítinn áhuga á að kaupa hann af okkur. Í bollaleggingum okkar um framtíðarstefnu í markaðsmálum verðum við að taka tillit til hinnar öru þróunar fiskveiða Austur-Evrópulanda. Í 5 ára áætlun Sovétríkjanna fyrir árin 1966–1970 er gert ráð fyrir, að fiskafli þeirra aukist úr 5.8 millj. tonna í 8.5–9 millj. tonna og að nýtízku fiskiskipum þessarar þjóðar fjölgi á sama tíma um 150%. Áhugi Rússa á síldarkaupum fer minnkandi, enda þótt tekizt hafi að semja um kvóta fyrir freðsíld og saltsíld nú til 3 ára, að mig minnir, og einnig er áberandi minni áhugi á síldarkaupum frá öðrum Austur-Evrópuþjóðum en áður var. Flest Austur-Evrópuríkin virðast nú aðhyllast frjálsari viðskiptastefnu en áður og hafa lagt til, að hætt verði við jafnkeypisviðskiptin, og því má búast við því innan ekki langs tíma, að frjáls gjaldeyrisviðskipti verði tekin upp og því verði ekki lengur nauðsynlegt að viðhalda greiðslujöfnuði á milli Íslands og hvers eins þessara landa í sama mæli og áður. En viðskiptasamningar verða að sjálfsögðu gerðir á milli landanna. Vegna greiðsluaðstöðu Íslands við Austur-Evrópulönd síðustu ár, en einnig með hliðsjón af stefnubreytingu þessari, hefur verið talið rétt að bæta á frílista megninu af þeim vörum, sem áður voru keyptar að miklu leyti frá Austur-Evrópu í skjóli innflutningsverndarinnar. Nú er svo komið, að Austur-Evrópuviðskiptin njóta lítilla sérfríðinda, og er ánægjulegt að geta þess, að þeim hefur tekizt vel að halda stöðu sinni á markaði hér þrátt fyrir aukna samkeppni. Innflutningur frá Póllandi, Tékkóslóvakíu og Austur-Þýzkalandi lækkaði yfirleitt lítið á síðasta ári og það ber vott um, að þessi lönd eru samkeppnisfær á mörgum sviðum. Þegar ég segi, að þetta sé ánægjuleg staðreynd, á ég við, að þar með haldist opinn möguleiki fyrir sölu á okkar afurðum til þessara landa, ef þau hafa þörf fyrir þær.

Þetta vildi ég, að fram kæmi í sambandi við ásökun hv. 4. þm. Reykn. út af markaðsmálunum. Hitt er svo annað mál, sú ályktun, sem hann vitnar til frá hraðfrystihúsunum, þar er hreinlega verið að halda fram, að það eigi að halda þessum viðskiptum áfram fyrir þessa einú atvinnugrein í landinu. En frá sjónarmiði þjóðfélagsins er ekki hægt að taka 100% tillit til þeirra óska, heldur verður hér að taka tillit til þeirrar þróunar, sem á sér stað í viðskiptum í heiminum, og þá alveg sérstaklega nú á milli Evrópuríkja.