16.02.1967
Efri deild: 40. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 886 í B-deild Alþingistíðinda. (559)

127. mál, afnám einkasölu á viðtækjum

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Ég hef ekki athugað þetta mál að neinu ráði enn sem komið er og skal því ekki hafa um það mörg orð.

Viðtækjaverzlun ríkisins var til að byrja með mjög gott fyrirtæki, að ég hygg, og blómgaðist og dafnaði vel og gaf hinu opinbera tekjuafgang, sem nýttur var til góðra hluta. Á síðari árum virðist svo sem gengi Viðtækjaverzlunarinnar hafi mjög minnkað og að raunverulega hafi hún ekki verið annað en svipur hjá sjón nú um mörg ár. Ef við athugum, hver orsök sé til þessa, að svo illa hafi gengið fyrir Viðtækjaverzlun ríkisins, get ég ekki séð, að hún sé önnur en sú, að ríkisvaldið, ríkisstj. hafi forsómað þetta fyrirtæki sitt, að ríkisstj. hafi m.ö.o. gengið á rétt þessarar ríkisstofnunar öðrum og þá fyrst og fremst einkaaðilum í hag. Ég tel illa farið, að svo skuli komið fyrir beinan tilverknað stjórnvalda. En um þetta skal ég ekki fjölyrða, enda er það til lítils. Ég stend hér upp fyrst og fremst til þess að varpa fram þeirri spurningu, þegar um vanda þessarar stofnunar er að ræða: Kom ekki tvennt til álita til lausnar vandanum, annars vegar það að leggja fyrirtækið niður, svo sem nú virðist gert ráð fyrir, hins vegar það að hressa fyrirtækið við? Og mig langar til þess að spyrja hæstv. ráðh. að því, hvort það hafi ekki flögrað t.d. að honum sem góðum jafnaðarmanni, eins og hann er, að hressa við þetta ríkisfyrirtæki, gera því tilveruna bærilega, gera það arðvænlegt, eins og það var í byrjun, þannig að það geti skilað opinberum stofnunum eins og ríkisútvarpi og sinfóníuhljómsveit góðum hagnaði, því að það ætti að vera jafnauðvelt, að ég hygg, og að leggja fyrirtækið niður. Ég endurtek: Var þetta ekki athugað sem annar möguleiki, og ef svo var, hvers vegna var horfið frá því og þetta úrræði valið?