28.02.1967
Efri deild: 45. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 895 í B-deild Alþingistíðinda. (564)

127. mál, afnám einkasölu á viðtækjum

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Það er nú ekki svo ákaflega margt í ræðu hv. frsm: minni hl., sem ég sé ástæðu til að svara. Hv. minni hl. leggur til, að það fari fram sérstök endurskoðun í þeim tilgangi, að komið verði á ný fótum undir Viðtækjaverzlun ríkisins o.s.frv. Hann leggur til, sem í fljótu bragði kann e.t.v. að virðast ekki óskynsamlegt, að það sé gerð á því rannsókn, hvort fyrirkomulagið henti betur. Ég vil nú segja um þetta atriði, að ég hef takmarkaða trú á því, að nokkur slík rannsókn mundi leiða til niðurstöðu.

Hv. 5. þm. Reykn. minntist á það, að það hefðu ekki komið fram neinar kvartanir frá neytendum um, að þjónusta Viðtækjaverzlunarinnar væri óviðunandi. En hvaða aðstöðu hefðu neytendurnir til að kvarta? Þegar öll innflutningsverzlun var í einni hendi, var ekki neitt, sem hægt var að miða við, þannig að neytendurnir urðu að sæta því, sem einkasalan bauð þeim, og höfðu ekki möguleika á því að gera sér grein fyrir því, hvort kostur væri á nokkru betra. Ég vil í þessu sambandi leyfa mér að minnast á það, sem bar á góma hér fyrir jólin, að það var fyrir nokkrum árum, sem framkvæma átti sérstaka rannsókn á milliliðagróðanum. En hvað varð um það nál., sem þá voru lögð drög að? Það hvarf, eins og kunnugt er, og var það þó vinstri stjórnin, sem var við völd. En raunar var það ekki neitt einsdæmi, að álitsgerðir, sem gerðar voru á vegum hennar, hyrfu og kæmu aldrei fyrir almenningssjónir, en þá sögu sé ég ekki ástæðu til að rekja. Ég held, að rannsókn í þessu efni verði aldrei framkvæmanleg, þannig að neinnar niðurstöðu geti verið að vænta í þeim efnum, svo að mér kemur það þannig fyrir sjónir, að slíkt væri kannske það fráleitasta, sem hægt væri að gera. En af þessu má líka draga þá ályktun, sem leiðir e.t.v. til þess, að það er ekki ástæða til þess að ræða þetta mál ýtarlega, að það verður erfitt fyrir hvorn okkar sem er, hv. 5. þm. Reykn. og mig, að færa tölulegar sannanir fyrir máli hvors okkar sem er, bæði erfitt fyrir mig að sanna það með tölum, að frjáls verzlun sé neytendunum hagkvæmari en einkasala, og svo öfugt.

Hv. 5. þm. Reykn. ræddi í byrjun ræðu sinnar nokkuð alkunn rök fyrir því, að hagkvæmara væri að hafa einkasölufyrirkomulag en að hafa innflutninginn frjálsan, og las upp því til staðfestingar kafla úr bók eftir hæstv. menntmrh., sem að vísu mun allmjög komin til ára sinna, þar sem þessi sömu rök fyrir því, að hagkvæmara gæti veríð fyrir þjóðarbúið að hafa ríkiseinkasölu en frjálsa verzlun, voru dregin fram. Það hefur verið á það minnzt í því sambandi, að ríkiseinkasala geti gert kaup í stærri stíl, þannig, að innkaupin verði ódýrari, það sé hægt að fækka tegundum o.s.frv. Þessi rök eru alkunn. Það mætti kannske nefna bílasöluna sem dæmi um það. Einu sinni fyrir allmörgum árum var hér einkasala ríkisins á bifreiðum, eins og marga mun reka minni til, en hún varð fáum harmdauði, held ég, þegar hún var afnumin. Hitt er út af fyrir sig rétt, að í mörgum tilvikum gæti orðið að slíku gjaldeyrissparnaður, þannig að ef allur bílainnflutningur væri á einni hendi, þá væru sjálfsagt færri tegundir bifreiða og vel hugsanlegt, að það væri hægt að kaupa þær eitthvað ódýrar inn. En mér finnst bara, að það megi ekki einblína á þetta. Spurningin er sú, þó að hugsanlegt væri að spara eitthvað á þann hátt reiknað í peningum, hvort sú þjónusta, sem neytendunum er veitt, mundi verða jafngóð, því að það er nú einu sinni þannig, og í því liggja meginrökin fyrir því, að frjálsræði í innflutningi sé neytendunum hagkvæmt, að það eru ekki allir steyptir í sama mót. Þarfir og óskir neytendanna eru mismunandi, og einmitt það, að tekið sé tillit til þessara mismunandi þarfa og óska, er neytendum mjög mikils virði. Í sambandi við þann sparnað, sem oft hefur verið minnzt á sem rök fyrir því að færa verzlunina á fáar hendur, má nefna það, að þó að þetta geti undir vissum kringumstæðum verið rétt, þá er mér um það kunnugt, að verðlagsyfirvöld hvetja sérstaklega til þess með því að heimila í vissum tilfellum hærri álagningu, þegar gerð eru hagkvæm innkaup, en samt sem áður hefur reynslan sýnt það, að frjálsræði í verzluninni og samkeppnin hefur ekki þýtt það, að allur innflutningur hafi færzt á hendur Sambandsins og stærstu heildsöluverzlananna, eins og vera ætti út frá þessari kenningu, að stóru fyrirtækin geti gert betri innkaup en önnur. En það hefur komið í ljós, að smærri innflutningsfyrirtæki, hvort sem þar er um að ræða félög einstaklinga eða jafnvel opinbera aðila, geta haldið sínu, og mun ástæðan vera sú, að þessir aðilar koma þá auga á möguleika til að innleiða nýjungar o.s.frv., sem þessir stærri aðilar hafa ekki komið auga á. Það má m.ö.o. að mínu áliti ekki eingöngu einblína á hugsanlegan sparnað, heldur ekki síður á notagildi þjónustunnar fyrir neytendurna.

Hv. 5. þm. Reykn. minntist á það, að með því að hafa þessa verzlun í höndum hins opinbera væri ef til vill hægt að spara bæði mannahald og fjármagn, sem bundið væri í innflutningsbirgðum o.s.frv. Ég dreg það satt að segja mög í efa, að hægt sé að gera sér vonir um slíkt, og er raunar á gagnstæðri skoðun. Ég tel það mjög hæpið, að opinber rekstur þýði meiri sparnað í mannahaldi heldur en einkarekstur, því að það ber að hafa hugfast í þessu sambandi, að ef einkafyrirtæki, hvort sem um heildsölufyrirtæki eða annað er um að ræða, hefur óþarflega margt starfsfólk, þá þýðir það, að hagnaður fyrirtækisins verður minni. Atvinnurekandinn verður að greiða þetta úr eigin vasa. Allt öðru máli gegnir um forstjóra ríkisfyrirtækis. Það, að mannahald er þar kannske meira en nauðsynlegt er, er greitt af skattgreiðendunum, eins og kunnugt er, en ekki honum sjálfum. Og alveg hið sama hygg ég að eigi við um það fjármagn, sem bundið er í birgðum. Einkafyrirtækin verða að gæta þess, að ekki sé meira fé bundið heldur en hagkvæmt er. Annað mundi þýða minni hagnað fyrir þau. En allt öðru máli gegnir, þegar um opinber fyrirtæki er að ræða.

Þá vil ég að síðustu aðeins minnast á það, sem ég gat ekki fullkomlega skilið, þegar hv. 5. þm. Reykn. hélt því fram, að ríkiseinkasala á viðtækjum gerði það auðveldara að hafa eftirlit með ólöglegum innflutningi. Ég fæ ekki annað séð en að hættan á því, að smyglað verði til landsins, sé sú sama og sízt minni, þó að um opinbera einkasölu sé að ræða. Þar má nefna það sem dæmi, að ég hygg, að það sé smyglað inn í landið bæði áfengi og tóbaki, þótt ekki treysti ég mér til að nefna neinar tölur máli mínu til sönnunar. Og þegar ég sagði, að hættan yrði sízt minni, átti ég við það, að vöruúrval yrði minna hjá opinberri einkasölu, eins og mér virtist líka vera skoðun hv. 5. þm. Reykn., þegar hann nefndi það sem rök fyrir sparnaði af hálfu ríkiseinkasölunnar, að hún mundi hafa færri tegundir á boðstólum. Einmitt þetta atriði álít ég að skapi meiri hættu á því, að smyglað verði þá inn útvarpstækjum, sem fólk gjarnan vill fá, en einkasalan hefur ekki á boðstólum.