17.10.1966
Efri deild: 4. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í B-deild Alþingistíðinda. (57)

2. mál, síldarflutningaskip

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Snemma á þessu sumri leitaði stjórn Síldarverksmiðja ríkisins til ríkisstj. og óskaði eftir aðstoð til þess, að síldarverksmiðjurnar gætu keypt stórt síldarflutningaskip, sem stjórn síldarverksmiðjanna taldi sérstaklega nauðsynlegt að kaupa til þess að geta í stórum stíl flutt síld til síldarverksmiðjanna á Siglufirði. En skip þetta er hins vegar svo stórt, að það getur ekki komizt inn á aðrar hafnir norðanlands, þar sem síldarverksmiðjurnar hafa verksmiðjur.

Miðað við rök stjórnar síldarverksmiðjanna þótti rétt að verða við því að aðstoða verksmiðjurnar til að kaupa þetta skip og jafnframt að aðstoða þær til að gera nauðsynlegar endurbætur á ýmsum tækjum verksmiðjanna, löndunartækjum o.fl. Nú hefur það verið meginregla að veita ekki sjálfskuldarábyrgð á lánum, en þar sem hér er raunverulega um ríkisfyrirtæki að ræða, skiptir það engu meginmáli og gat ekki brotið neinar grundvallarreglur í því efni, þótt það yrði gert í þessu sambandi eða valin sú leiðin, að ríkið tæki lánið, og þótti þá eftir atvikum henta fremur að hafa þessa leið.

Skip það, sem keypt var, mun hafa kostað með öllum tilkostnaði, þ.e.a.s. breytingum, sem á því voru gerðar, um 54 millj. kr. og mun geta flutt á milli 3200 og 3300 tonn af síld, þannig að hér er um mikið og voldugt skip að ræða.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að orðlengja frekar um málið. Frv. það, sem hér er flutt, er flutt til staðfestingar á umræddum brbl. Óski hv. n., sem fær málið til meðferðar, eftir nánari upplýsingum, er að sjálfsögðu eðlilegt, að þær séu gefnar, eftir því sem efni standa til. Ég vil að lokinni þessari umr. leyfa mér að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.