06.04.1967
Neðri deild: 59. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 908 í B-deild Alþingistíðinda. (579)

127. mál, afnám einkasölu á viðtækjum

Frsm. meiri hl. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Þegar mál þetta var afgr. í menntmn. og meiri hl. fól mér framsögu í því, var fram tekið, að ef einhverjar umr. kynnu að spinnast um þjóðnýtingu eða slíka hluti almennt, bæri mér ekki nauðsyn að tala lengur fyrir meiri hl., svo að héðan í frá tala ég frá eigin brjósti, án þess að mínir ágætu samþingismenn í meiri hl. n. í þessu máli beri nokkra ábyrgð á því, sem ég segi.

Hv. 3. þm. Reykv. reyndi í orðum sínum að koma því að, að mönnum bæri að taka afstöðu til þessa frv. eftir því, hvaða stefnu þeir vildu aðhyllast um ríkisafskipti af verzlunarmálum og öðrum málum yfirleitt. Ég tel, að afgreiðsla á þessu frv. þurfi ekki að standa í sambandi við þá stefnu, sem hv. þm. vildi vera láta. Ég tel, að frv. sé viðurkenning á staðreyndum og þess vegna eigi að líta á það eitt sér, en ekki draga af því almennar ályktanir. Ég tel, að það eigi að gilda hið sama um opinber fyrirtæki, samvinnufyrirtæki og einkafyrirtæki, að ef þau ganga ekki nógu vel, ef þau uppfylla ekki það hlutverk, sem þeim er ætlað, eigi ekki að hika við að leggja þau niður. Það er þess vegna, að ég aðhyllist það að leggja þetta fyrirtæki niður. Ég tel, að það hafi ekki náð tilgangi sínum, að langt sé síðan það hvarf út af upphaflegri braut sinni og sé því aðeins viðurkenning á staðreyndum og raunar hagkvæmt að leggja fyrirtækið niður.

Hin leiðin, að byggja fyrirtækið upp á ný, þannig að það geti gegnt upphaflegu hlutverki sínu sem alger einkasala á útvarpsviðtækjum, er ófær. Liggja fyrir upplýsingar um það, að til þess þyrfti svo mikið fé og svo mikið starfslið, að ekki eru möguleikar á að fá það, jafnvel þó að það væri talið æskilegt.

Það, sem hv. þm. talaði um, að kynni að sigla í kjölfar þessa frv., að einstaklingar og fyrirtæki þeirra tækju við verzlun með hljóðvarps- og sjónvarpsviðtæki, hefur þegar gerzt. Ef nokkrir aðilar taka beinlínis við því, sem viðtækjaverzlunin sjálf hafði með höndum af innflutningi viðtækja, verða það ekki nema að litlu leyti einstaklingar. Var upplýst á fundi menntmn., að stærsta sjónvarpstækjaumboðið, sem Viðtækjaverzlunin hefur, mundi að líkindum fara annaðhvort til samvinnufélaganna eða til fyrirtækja, sem eru í eign samvinnufélaganna. Sölu á þeim tækjum verður ekki kastað í hendur einstaklinga eða gróðaaðila.

Það er alveg rétt, sem hv. þm. sagði, að þjónusta sú, sem innflytjendur á vélum veita hér á landi, sérstaklega hvað viðkemur varahlutum, er oft mjög slæm. En ég treysti mér ekki til að skrifa undir það, að sú þjónusta sé ávallt verri hjá einkafyrirtækjum en öðrum. Sú reynsla, sem ég hef af þessu, er, að það sé ógerningur með nokkru móti að halda fram, að fyrirtæki með einu rekstrarformi veiti betri þjónustu t.d. hvað varahluti snertir en önnur.

Ég tel, að af þessu máli megi ekki draga ályktun um almenna stefnu ríkisstjórnar eða þróun. Tveir aðilar standa að núv. ríkisstj., og þeir hafa mismunandi skoðanir á slíkum málum sem opinber rekstur er, sbr. deilufund, sem nýlega fór fram hér í Reykjavík. Ég er þeirrar skoðunar, að ríkisrekstur eða þjóðnýting sé ekki takmark í sjálfu sér, takmarkið er annað. Þjóðnýting er ein af mörgum aðferðum, sem við viljum nota til að ná því takmarki.

Ég tel, að einkasala á verzlunarsviði sé ákaflega hæpin og reynslan af henni slæm. Menn eru yfirleitt á móti einokun, sérstaklega þegar hún kemur fram á takmörkuðum sviðum. Menn undrast og eru hneykslaðir, þegar 9–10 aðilar, sem bjóða í handverk, gera nákvæmlega sama tilboðið. Menn bíða eftir því, að sett sé löggjöf til þess að tryggja samkeppni og samanburð í staðinn fyrir samtök og einokun. Ég tel því, að það sé ekki í samræmi við slíka baráttu, sem er raunhæf og nauðsynleg í nútímaþjóðfélagi, ef menn vilja ríkiseinokun á verzlunarsviði, þrátt fyrir mjög misjafna reynslu, eins og hv. þm. viðurkenndi.

Ég tel, að það, sem gera á á þessu sviði, sé að stefna að löggjöf, sem verndar neytendur í landinu gegn hvers konar einokun og að efla þurfi margvíslega aðra neytendastarfsemi til að tryggja, að þeir, sem fara með verzlun í landinu, veiti neytendum þá þjónustu, sem samfara verzluninni þarf að vera.

Ég vil svo að lokum segja það, að þótt ég láti í ljós skoðanir á móti ríkiseinokun á verzlunarsviði, tel ég ekki, að skoðanir mínar á opinberum rekstri hafi breytzt nema að litlu leyti í grundvallaratriðum. Ég er þeirrar skoðunar, að einmitt á undanförnum árum hafi verið stigin stór skref til að auka opinberan rekstur hér á Íslandi. Ef um nokkra heildarstefnu er að ræða í þeim málum, hefur hún verið að auka ríkisafskipti og ríkisþátttöku. Ég vil nefna það sem dæmi, að sú stóriðja, sem við höfum sjálfir byggt upp, er á vegum ríkisins, sbr. Sementsverksmiðju ríkisins og Áburðarverksmiðjuna. Ég vil nefna það, að stofnun stórra ríkisbanka, eins og Seðlabankans, sem hefur gífurleg áhrif í efnahagslífinu öllu, eru stór skref í þessa sömu átt, og fleiri dæmi mætti telja til, sem eru risavaxin í samanburði við það, að eitt ríkisverzlunarfyrirtæki verði að hætta starfsemi, vegna þess að því hefur ekki tekizt að gegna hlutverki sínu.