06.04.1967
Neðri deild: 59. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 910 í B-deild Alþingistíðinda. (580)

127. mál, afnám einkasölu á viðtækjum

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Aðeins nokkur orð í sambandi við það, sem hv. frsm. meiri hl. sagði hér.

Það er alveg rétt, að raunverulega stendur ekki baráttan um Viðtækjaverzlunina í því formi, sem hún er nú. Það er raunverulega búið að leggja hana niður, og það hefði ekki þurft að leggja nein lög fyrir Alþingi til þess að breyta því, því að þetta byggðist aðeins á því að hagnýta heimild. Það er þess vegna einmitt stefnumálið, sem ég fyrir mitt leyti hef gert að aðalatriði hér, og þess vegna er rökstudda dagskráin um það, að Viðtækjaverzlun ríkisins skuli efld, hún skuli alveg endursköpuð með allt öðruvísi starfsemi en veríð hefur undanfarið. Við erum áreiðanlega sammála um það, hv. 5. þm. Vesturl. og ég, að sá rekstur, sem verið hefur undanfarið, má eins vel hverfa, ef ekki ætti að efla hann. Hann er ekki nein sönnun, heldur þvert á móti, fyrir gagnsemi ríkisrekstrar.

Hv. þm. færði fram þau rök, að það þyrfti svo mikið fé og svo mikið starfsfólk til rekstrar á Viðtækjaverzlun ríkisins, ef hún væri nú endursköpuð, að það mundi ekki fást, og þegar sá maður sem hefur verið forstjóri þessarar einkasölu, kom til okkar í menntmn., skýrði hann frá því, að þeir hefðu ekki getað fengið þau lán hjá bönkunum, sem þeir hefðu þurft á vissum tíma til þess að geta annazt innflutninginn. Ég verð að segja það, að ef ákveðið er af Alþingi að koma upp ríkiseinkasölu, er það jafnsjálfsagt mál, að ríkisbankarnir láni til slíkrar einkasölu það, sem hún þarf, og ef það skyldu vera einhverjir hjá ríkisbönkunum, sem ekki vildu gera slíkt, leggi Alþingi fyrir þá að gera slíkt. Það er Alþingi, sem ræður ríkisbönkunum, og þeir eru til í krafti ákvarðana frá Alþingi, og ef einhverjir embættismenn, sem þar eru settir, t.d. til að stjórna bönkum, misskilja þannig sitt hlutverk, að þeir dirfast að neita ríkisstofnunum um lán, þarf Alþingi bara að grípa inn í til að kenna þeim, þessum starfsmönnum ríkisins, hvernig þeir eigi að haga sér. Þjóðfélagið sem heild kemur til með að hafa miklu fleira starfsfólk í sambandi við þær einkaverzlanir, sem reknar verða á þessu sviði, en það þyrfti að hafa í sambandi við eina viðtækjaeinkasölu, það er alveg gefið mál. Og það kemur til með og er nú þegar vafalaust miklu meira fé líka lánað út í sambandi við rekstur hinna ýmsu viðtækjaverzlana en ein ríkisviðtækjaverzlun þyrfti á að halda. Spurningin stendur bara um hitt, hvort ríkisbankarnir vilja heldur lána tvöfalt eða þrefalt fjármagn til einkabraskara eða hvort þeir vilja lána minna fjármagn, en þó nægilegt, til ríkisins sjálfs, og þar verður að kenna þeim, hvernig þeir eiga að haga sér, ef þeir haga sér ekki rétt, þannig að annað eins geti ekki komið fyrir og t.d. það, að ríkið setji einkasölu á stofn og síðan leyfi embættismenn í ríkisbönkunum sér að neita að lána til slíkra stofnana, það getur náttúrlega ekki gengið. A.m.k. ef það er slíkur rekstur á slíkri viðtækjaverzlun eða hvaða ríkisstofnun, sem er, þá er það ekki forsvaranlegt, og ef það er ekki forsvaranlegur rekstur, þá á náttúrlega að breyta þar til.

Þess vegna eru það ekki rök, að það þurfi mikið fé. Ef einstaklingar hafa til samans í þjóðfélaginu möguleika til að reka þetta, hefur ríkið það miklu, miklu betur. Það er ríkið sjálft, sem lánar 90% að heita má af öllu því fjármagni, sem er í einkarekstri. Hvað leggja þessir menn til, sem þykjast vera hér á Íslandi að dunda við svokallaðan einkarekstur, þegar það kemst hæst? Um 10, 20, 30% af verðmætinu, sem þarf til að reka þetta, hitt hafa þeir að láni, meira eða minna, frá ríkinu og ríkisbönkunum, ýmist sem stofnlán eða rekstrarlán. Það er ríkið hér á Íslandi, sem alltaf hefur orðið að sjá um þetta, og það hefur alltaf verið ríkið, sem verið er að kvarta um við, að það sé ekki nægilegt lánsfé. Af hverju? Venjulega vegna þess m.a., að allir þeir einstaklingar, sem eitthvað hafa grætt hér á Íslandi, hafa fest allt þetta fé í fasteignum jafnóðum, þannig að meira að segja sá maður, sem venjulega er talinn ríkasti maður á Íslandi, hefur venjulega verið á hausnum í bönkunum og aldrei getað staðið við sínar skuldbindingar, af því að hann hefur jafnóðum sett allt það fé, sem hann hefur snúið út sem rekstrarlán, í hina og þessa fjárfestingu. Meinið, sem er við okkar þjóðarbúskap sem stendur, er, að við höfum allt of mikið fé fast í verzluninni og verzlunin er frekust af öllum atvinnugreinunum til lánsfjáraukningar og hefur verið það öll síðustu 7 árin. Það er iðnaðurinn og sjávarútvegurinn, sjálfir undirstöðuatvinnuvegirnir, sem hafa verið sveltir, en fénu hefur verið ausið í verzlunina, vegna þess að hún er pólitísk og hennar fulltrúar hafa verið sterkustu aðilarnir til að rífa til sín úr ríkisbönkunum. Þess vegna var ekki þörf á því, að við færum að auka það fjármagn, sem færi raunverulega til verzlunarinnar þannig. Við ættum heldur að draga úr því. Og það verður aldrei dregið úr því öðruvísi en með ríkiseinkasölu. Það verður að hindra það, að menn geti haft hagnað af því að vera að braska í bílainnflutningi eða einhverju slíku. Þessar ídiotísku byggingar, sem hér eru inn við Suðurlandsbraut, mundu ekki vera til, svo framarlega sem hér hefði verið bílaeinkasala, og menn mundu ekki hafa verið byrjaðir á húsum, sem eiga að kosta kannske 100 millj. kr., og standa svo með skrokkinn af því ófullgerðan árum saman. Það er einmitt það, sem við þurfum að tryggja, að fjármagninu sé varið til atvinnurekstrarins og til framleiðslunnar, en ekki allt saman bara í verzlunarbraskið. Við byggjum þjóðfélagið þannig upp, að allur grundvöllurinn undir því er að brotna, einmitt vegna þess, hvernig við hlöðum fjármagninu í verzlunina og yfirbygginguna.

Ég er hv. 5. þm. Vesturl. alveg sammála um baráttuna gegn einokuninni almennt. En hver er sú einokun, sem við eigum fyrst og fremst við að etja? Sú einokun, sem við eigum venjulega fyrst og fremst við að etja, er einokun erlendra manna á þeim tækjum og vörum, sem fluttar eru til landsins. Svo að segja 90% af öllum þeim vörum, sem eru fluttar inn, eru á vegum meira eða minna sterkra hringasamtaka, og það er gagnvart þessum aðilum, sem við fyrst og fremst þyrftum að tryggja okkur, og oft og tíðum getum við aðeins tryggt okkur nægilega vel gagnvart þessum aðilum með því að hafa ríkiseinkasölu hér heima. Hitt er alveg hárrétt, sem hv. 5. þm. Vesturl. sagði, að við þurfum að vera á verði gagnvart ríkiseinkasölunum líka, við þurfum að gagnrýna þær. Við þurfum að skapa neytendasamtök og aðstoða þau við að halda uppi rétti neytendanna gagnvart slíku. Við vitum það allir, hve rík sú tilhneiging er hjá ríkisvaldinu, hvort heldur það kemur fram í sambandi við ríkisverzlanir eða annað slíkt, að þeir embættismenn, sem þar hafa þetta vald með höndum, skoði sig sem drottnendur fólksins í staðinn fyrir sem þjóna þess. Og það er þess vegna m.a. eitt, sem nauðsynlegt er í sambandi við ríkiseinkasölur og annað slíkt, og það er, að þeir forstjórar, sem fyrir þær eru ráðnir, séu aðeins ráðnir til eins árs í senn og hægt að segja þeim upp. Það eiga ekki að vera nein ævilöng embætti, þar sem menn geti setið og hagað sér rétt eins og þeir vilja, rétt eins og þeir væru embættismenn t.d., eins og gerist hjá okkur á mörgum öðrum sviðum í ríkinu, þar sem sömu mennirnir sitja ævilangt og allar tæknilegar framfarir bíða, ef einn einasti embættismaður er tiltölulega íhaldssamur, eins og við þekkjum dæmi til á viðkvæmum sviðum. Sú vörn, sem við þess vegna hér hjá okkar litlu þjóð oft getum látið okkar neytendum í té gagnvart þeim útlendu einokunarhringum, er oft og tíðum ríkiseinkasala, vegna þess að innflytjendurnir, einkainnflytjendurnir á þessum vörum, eru venjulega umboðsmenn fyrir útlenda hringinn um leið, þannig að það er einmitt ríkið sjálft, sem venjulega þarf að koma til, ef við eigum að reyna að tryggja okkur sæmilega í slíkum efnum. Meira að segja þegar eins ágæt hreyfing og ágætt fyrirtæki og S.Í.S. á í hlut, getur meira að segja komið fyrir, að slíkt fyrirtæki gerist sjálft umboðsmaður fyrir stóra útlenda hringa, þannig að í svona litlu landi eins og okkar eða með eins tiltölulega lítilli verzlun og hér er, þegar það er metið á heimsmælikvarða, er oft nauðsynlegt, að ríkið sjálft geti gripið inn í til að tryggja hagsmuni neytendanna í þessum efnum. Við sjáum það bezt á því, eins og hv. þm. kom inn á, að ýmis fyrirtæki hér á landi geta gert samkomulag um verð. Hann nefndi dæmi um slíkt nýlega í sambandi við viss útboð hér, og við þekkjum það daglega í sambandi við olíusöluna, þannig að nauðsyn er á því, að hið opinbera grípi þarna alvarlega inn í, bæði með því sjálft stundum að taka þetta í sínar hendur eða með því að tryggja á ýmsan annan hátt líka gagnvart sínum eigin ríkiseinkasölum nógu gott eftirlit og vald almennings. Það er okkur nauðsyn.

Ég þykist nú vita, hvernig fara muni um þessa till. mína. Ég vil hins vegar undirstrika það, að í rökstuddu dagskránni er ekki aðeins gengið út frá því að gerbreyta Viðtækjaverzluninni frá því, sem verið hefur, það er ekki verið að reyna að berjast fyrir að halda henni áfram í þeirri ómynd, sem hún hefur verið í undanfarið, heldur líka að undirbúa einkasölu ríkisins á fleiri sviðum, þannig að við erum ekki að greiða atkv. um sjálfa Viðtækjaverzlunina, eins og hún er nú, við erum vafalaust sammála um það, að það ástand sé óþolandi, heldur um hitt, hvaða stefnu skuli fylgja í framtíðinni í þessum efnum.