21.02.1967
Neðri deild: 44. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 920 í B-deild Alþingistíðinda. (606)

7. mál, veiting ríkisborgararéttar

Frsm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Frv. til l. um veitingu ríkisborgararéttar gerði ráð fyrir því að taka inn 23 aðila, sem sótt höfðu um ríkisborgararétt. Einnig bárust n. 24 erindi, þar sem sótt er um ríkisborgararétt, og var n. sammála um að flytja brtt. um að taka 23 af umsækjendum inn í sínar brtt., en aðeins umsókn eins umsækjanda sá n. ekki fært að verða við, þar sem skorti á um búsetutíma. Það hefur verið fylgt þeim reglum í sambandi við till. n. og sömuleiðis um þá, sem eru í sjálfu frv., sem settar voru af allshn. beggja þd. í nál. 17. maí 1955 og hafa síðan verið gerðar nokkuð fyllri, og hafði n. þær einnig nú til hliðsjónar við sínar athuganir. Það kemur fram í nál., hverjar þessar reglur eru, og ég get bætt því við, að hver einasti umsækjandi, bæði þeir, sem eru í frv. sjálfu, og þeir, sem n. gerir ráð fyrir í sínum brtt., uppfylla öll þessi skilyrði að undanteknum nr. 6 og 13 í brtt. n. og nr. 11 í sjálfu frv. En það, sem á skortir hjá þeim, er tími og er aths. við, hvenær þeir eigi að öðlast ríkisborgararétt á árinu. Að öðru leyti uppfylla þessir aðilar þau skilyrði, sem sett eru fyrir veitingu ríkisborgararéttar. Ég vil einnig geta þess að nú í dag bárust 3 umsóknir, sem n. mun taka til athugunar milli 2. og 3. umr. En þessir 46 umsækjendur um ríkisborgararétt, sem eru 23 í frv. og 23 í brtt., eru fæddir í þessum löndum: í Danmörku 8, Þýzkalandi 11, Bandaríkjunum 2, Færeyjum 5, Finnlandi 3, Lýbíu 2, Íslandi 6, en 1 frá hverju þessara landa: Indlandi, Bretlandi, Noregi, Spáni, Tékkóslóvakíu, Palestínu, Rússlandi, Kenýa og Egyptalandi.

Af Íslendingum, sem sækja um ríkisborgararétt, eru 3 konur, sem gifzt höfðu erlendum ríkisborgurum og misst því ríkisborgararétt, en eru aftur fluttar til Íslands, einnig karlmaður, sem orðinn var ríkisborgari í Bandaríkjunum, en flyzt aftur til Íslands, og tvö börn, sem eiga íslenzka móður.

Eins og fram kemur í nál., hefur verið höfð samvinna við fulltrúa frá allshn. Ed. til þess að samræma vinnubrögðin, og starfaði formaður allshn. Ed. með undirnefnd allshn. Nd. ásamt skrifstofustjóra Alþ., og var full samvinna á milli þessara fulltrúa og full samstaða í n. um þessar brtt., sem hún gerir við frv., en 1 nm., Ragnar Arnalds, var fjarstaddur, þegar málið var afgreitt í allshn.