16.03.1967
Neðri deild: 55. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 925 í B-deild Alþingistíðinda. (621)

7. mál, veiting ríkisborgararéttar

Frsm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þegar hv. þd. gekk frá þessu frv. við 3. umr., voru komnir 49, sem öðlast skulu ríkisborgararétt samkv. 1. gr. frv., en undir meðferð málsins í Ed. hefur Ed. samþ. 4 umsóknir, svo að það eru komnir 53 í frv., eins og Ed. gekk frá því. Allar þær umsóknir, þessar 4, sem Ed. samþykkti, það fólk uppfyllir öll þau skilyrði, sem sett eru fyrir að öðlast ríkisborgararétt. En eftir að Ed. gekk frá frv., barst ein umsókn til allshn. Nd., sem prentuð er hér á þskj. 353, og er n. sammála um að leggja til, að sú umsókn verði tekin til greina, og ef sú till. verður samþ., munu 54 öðlast ríkisborgararétt samkv. þessu frv.

Mér þykir rétt aðeins að nefna það hér eftir það, sem hæstv. menntmrh. hefur rætt hér um 2. gr. frv., að þetta mál hefur komið nokkuð til tals í allshn. Nd., bæði í fyrra og nú, og þar hafa verið um það skiptar skoðanir, hvort það eigi ekki að taka upp breytingu og falla frá því, að þeir, sem öðlast íslenzkan ríkisborgararétt með þessum l., skipti um nöfn samkvæmt l. um mannanöfn. Þar hafa menn verið ekki á eitt sáttir, og því hefur n. hvorki í fyrra né nú, þegar þetta mál bar á góma, viljað flytja um það brtt. og haldið sér við þau ákvæði, sem í gildi hafa verið frá árinu 1952.

Eins og fram kom hjá hæstv. menntmrh., flytur hann ekki till. um breyt. á 2. gr. við lokaafgreiðslu frv. hér á Alþ., en boðar aftur, að þetta mál verði tekið til athugunar með því að skipa n., sem athugi um íslenzk mannanöfn, og jafnframt, hvort það eigi að beita þessum ákvæðum í framtíðinni. Þess vegna hygg ég, að það sé rétt og eðlilegt að afgreiða þetta frv., eins og hann gat réttilega um, og hitt verður aftur að bíða næsta þings, hvort hér eigi að taka aftur upp nýja stefnu og hverfa frá þeim ákvæðum að skylda alla þá, sem ríkisborgararétt öðlast, til þess að taka upp íslenzk mannanöfn. Ég veit um nokkra aðila, sem hafa ekki viljað sækja um ríkisborgararétt, sérstaklega fólk frá Norðurlöndum, af þeirri ástæðu, að það vill ekki skipta um nafn, það vill fá að halda sínu nafni, og ég hef orðið mjög var við það, bæði utan þings og innan, að það eru margir talsmenn þess, að þessum ákvæðum verði breytt.