21.02.1967
Efri deild: 42. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 962 í B-deild Alþingistíðinda. (655)

5. mál, fávitastofnanir

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Í 1. gr. þessa frv. segir, að ráðh. skuli skipa hælinu forstöðumann. Það eru ekki í frv. gerðar neinar kröfur til menntunar þessa forstöðumanns, ekki gerðar neinar kröfur um verðleika hans til starfsins. Meginstarf forstöðumanns á slíkri stofnun hlýtur að verða stjórn á rekstri aðalhælisins, og má segja, að í þá stöðu mætti mjög vel velja mann, sem væri fróður eða sérfróður um rekstrarstjórn stofnana og fyrirtækja. Forstöðumanni gæti farið stjórn slíks fyrirtækis eða slíkrar stofnunar sem hér um ræðir vel úr hendi, þótt hann hefði alls enga sérþekkingu á málefnum fávita. Það hlýtur að verða eitt meginverkefni forstöðumannsins að stjórna daglegum rekstri hælisins. En frv. ætlar honum svo sannarlega fleiri hlutverk, og það er þess vegna, sem við nokkrir þm. höfum flutt brtt. á þskj. 236.

Forstöðumaður fávitahælisins á að fara með ýmis mjög vandasöm málefni hælisins, segja álit sitt um fagleg efni og gefa úrskurði. Ég skal aðeins lauslega telja upp það, sem forstöðumanni hælisins er ætlað að gera fram yfir það að annast daglega rekstrarstjórn.

Hverju nýju hæli, sem reist verður í framtíðinni, skal fengið skv. frv. ákveðið afmarkað hlutverk. Slíkt hlutverk skal ákveðið af yfirvöldum í samráði við forstöðumann. Þá skal landlæknir leita álits forstöðumanns, áður en hann mælir með leyfi til rekstrar fávitahælis. Í þriðja lagi á forstöðumaður að skera úr því, á hvaða stofnun hver fáviti skuli vistaður, að undangenginni rannsókn. Og loks á forstöðumaðurinn að vera skólastjóri skóla, sem á að sérmennta fólk til fávitagæzlu. Af þessum ákvæðum, sem ég nú hef nefnt, finnst mér mega ráða, að til þess sé ætlazt af höfundum þessa frv., að forstöðumaðurinn sé eða verði sérmenntaður um uppeldismál. Honum eru ætluð vandasöm verkefni í sambandi við fagleg málefni fávita. En í 1. gr. er ekkert um það rætt, að forstöðumaðurinn skuli hafa slíka sérmenntun til að bera. Og ef í stöðuna veldist maður, sem gæti verið í alla staði góður, en hefði ekki slíka sérþekkingu, lit ég svo á, að til vandræða gæti horft um málefni stofnunarinnar. Þessu hefur stjórn Styrktarfélags vangefinna veitt athygli, og þess vegna hefur hún lagt til, að lögboðið yrði sérstakt starf sálfræðings við stofnunina. Till. stjórnar styrktarfélagsins fékk ekki nægar undirtektir hjá hv. heilbr.- og félmn., og við, sem vel hefðum getað stutt till. félagsstjórnarinnar, vildum ekki gera ágreining í n., því að í höfuðatriðum erum við sammála því, sem í þessu frv. felst. En við höfum leyft okkur þrír úr n. að flytja litla brtt., sem við teljum að ætti að vera auðvelt að samþ. Hún getur ekki talizt óþörf vegna þess, hve mikilsvert það er, að maður með faglega þekkingu veljist í starf forstöðumanns.

Við flytjum þessa till. á þskj. 236, og hún er fólgin í því, að fram sé tekið, að ráðh. skipi hælinu forstöðumann, sem skuli vera sérfróður um uppeldismál. Það er þetta innskot, sem við óskum eftir að fá inn í greinina, að forstöðumaðurinn skuli vera sérfróður um uppeldismál.

Ég vænti þess, að hv. þdm. athugi þessa till. og að hún nái samþykki, því að ég tel það mikils vert, að það sé tryggt, að annar en maður með vissa sérfræðilega þekkingu á sviði fávitamála verði ekki ráðinn í þetta starf.