27.02.1967
Efri deild: 44. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 965 í B-deild Alþingistíðinda. (660)

5. mál, fávitastofnanir

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Á þskj. 271 flytjum við hv. 1. þm. Norðurl. e. brtt. við þetta frv. til l. um fávitastofnanir.

Eins og upplýst hefur verið hér við fyrri umr., var frv. sent til umsagnar stjórnar Styrktarfélags vangefinna. Þetta félag, sem stofnað var fyrir allmörgum árum, hefur unnið mjög mikið og heilladrjúgt verk á þessu sviði. Ég vil segja, að síðustu árin hefur þetta félag, Styrktarfélag vangefinna, verið aflgjafi í framkvæmdum á sviði þessara mála. Þetta félag kom því til leiðar, að myndaður var nýr tekjustofn til að reisa fávitastofnanir, og það hefur unnið á mörgum sviðum mjög þarft verk og ber að þakka það.

Stjórn þessa félags sendi hv. heilbr.- og félmn. álitsgerð og þar kemur fram, að stjórn félagsins óskar að gerðar verði vissar breyt. á frv., sem hún að öðru leyti mælir með. Við umr. í n. gat ekki orðið fullt samkomulag um, að n. tæki þessar brtt. upp á sína arma og við, nokkrir nm., vildum fara milliveg, eins og fram kom í okkar brtt. við 2. umr. Þessi brtt. okkar, sem átti að vera eins konar málamiðlun, var felld, og þess vegna þykir okkur nú rétt að kynna till. stjórnar Styrktarfélags vangefinna, eins og þær eru. Formaður þessa félags er Hjálmar Vilhjálmsson ráðuneytisstjóri, maður, sem í mörg ár hefur unnið þarft og gott verk í þessu félagi til hagsbóta fyrir fávita í landinu. Með leyfi hæstv. forseta, vildi ég mega lesa kafla úr álitsgerð stjórnar Styrktarfélagsins og mun þá um leið láta það nægja sem grg. mína fyrir þeim 4 brtt., sem um er að ræða á þskj. 271. Í umsögninni segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn Styrktarfélags vangefinna hefur athugað frv. og telur það vera mikilsvert spor í rétta átt, og mælir eindregið með því, að það nái frami að ganga, en vill þó benda á nokkur atriði, sem hún telur, að betur megi fara. Skal nú vikið að einstökum greinum frv., og þeim breyt., sem stjórn Styrktarfélags vangefinna telur rétt að gera á frv., ásamt grg. hennar fyrir till. sínum.

1) Breyt. á 1. gr. frv. Við 1. gr. bætist ný mgr. svo hljóðandi: „Við hælið skal starfa sálfræðingur, skipaður af ráðh., sem jafnframt hefur á hendi eftirlit með öðrum fávitastofnunum í landinu.“

Grg. Stjórn Styrktarfélags vangefinna telur nauðsynlegt, að sálfræðingur starfi við hæli þessarar tegundar og álítur rétt, að staða þessi sé ákveðin í l., eins og staða yfirlæknisins. Stjórn Styrktarfélags vangefinna telur, að stefna beri að því að komið verði á fót sérstakri rannsóknarstofnun í tengslum við aðalhælið, sem búin verði fullkomnum rannsóknar- og lækningatækjum og sérmenntuðu starfsliði. Slík stofnun ætti að vera undir stjórn yfirlæknis, sálfræðings og fulltrúa landlæknis. Þessi stofnun ætti að hafa með höndum allt eftirlit með fávitastofnunum í landinu. Stjórn Styrktarfélags vangefinna gerir sér hins vegar ljóst, að stofnun sem þessi getur átt langt í land, þar eð forstöðumaður og yfirlæknir hljóta að hafa mjög mikið starfssvið innan aðalhælisins, sem þó mun sífellt aukast á næstu árum við áformaða stækkun þess. Álítur stjórn Styrktarfélags vangefinna varhugavert að auka annir þessara embættismanna

með því að leggja þeim á herðar eftirlit með öðrum fávitastofnunum. Hér er því lagt til, að lögákveðið verði, að sálfræðingur starfi við aðalhælið og að honum verði jafnframt falið á hendur eftirlit með öðrum fávitastofnunum.

2) Breyt. á 3. gr. frv. 3. gr. orðist svo: „Ráðh. getur veitt sveitarfélögum, sjálfseignarstofnunum og einkaaðilum leyfi til þess að reka fávitahæli að fengnum meðmælum landlæknis. Landlæknir skal leita álits yfirlæknis og sálfræðings aðalhælis um uppdrætti og teikningu hæla, sem aðilar þessir hyggjast byggja, áður en hann mælir með leyfisveitingu. Sama gildir um dagvistarheimili fyrir fávita. Leita skal álits landlæknis, þegar forstöðumenn stofnana skv. þessari grein eru ráðnir.“

Grg. Í 3. gr. frv. segir, að stofnanir þær, sem þar um ræðir, skuli lúta sjúkrahúsalögum um undirbúning, tilhögun og útbúnað eftir því, sem við getur átt. Svo virðist, sem strangari kröfur séu gerðar til þessara stofnana en aðalhælisins, sbr. 1. gr. frv., sem vafalaust er þó ekki ætlunin. Brtt. stjórnar Styrktarfélags vangefinna hnígur aðallega að þessu atriði.

3) Stjórn Styrktarfélags vangefinna gerir ekki till. um breyt. á 4.–10. gr. frv., en vill þó vekja athygli á því ákvæði í 8. gr. frv., þar sem gert er ráð fyrir, að óheimilt sé að krefjast kostnaðar við daglegan flutning á vistmönnum milli dagvistarheimilis og dvalarstaðar. Eftir gr. gildir þetta án tillits til fjarlægðar. Ákvæðið virðist varhugavert vegna þess að af því kynni að leiða, að vistmanni, sem brýn nauðsyn væri á dagvist, yrði synjað um hana vegna kostnaðarins. Reglan er út af fyrir sig ágæt, en þyrfti sennilega að takmarkast við fjarlægð eða á annan hátt. Þó virðist vafasamt að takmarka hana við hlutaðeigandi sveitarfélag, þar eð sums staðar hagar svo til, að slík takmörkun væri fráleit, sbr. t.d. Reykjavík og Kópavog.

4) Breyting á 11. gr. frv. 11. gr. orðist svo: „Leita skal umsagnar yfirlæknis og sálfræðings, sbr. 1. gr., um allar umsóknir um vist á fávitastofnunum, áður en vistun er ákveðin. Þeir geta gert það að skilyrði fyrir vistun, að hlutaðeigandi vistmaður verði vistaður á því hæli, sem þeir ákveða. Ekki verður vistmaður þó settur á fávitastofnun, sem ríkið rekur ekki, nema með samþykki hlutaðeigandi forstöðumanns.“

Grg. Stjórn Styrktarfélags vangefinna virðist ákvæði 11. gr. frv. geta reynzt þung í vöfum, einkum meðan ekki er til rannsóknarstöð með nægilegu starfsliði. Gert er ráð fyrir úrskurði forstöðumanns um hverja einustu vistun. Í brtt. eru ákvæðin ekki eins bindandi. Þá er lagt til, að í stað forstöðumanns komi yfirlæknir og sálfræðingur. Er þetta í samræmi við það, sem áður er sagt.

5) Breyt, á 12. gr. frv. Þessi gr. er óþörf, sjá lög nr. 80 5. júní 1947, 13.–14, gr. og lög nr. 35 30. maí 1960, 2. gr. Stjórn Styrktarfélags vangefinna leggur til, að gr. þessi fái annað efni og verði svo hljóðandi:

„Sálfræðingur aðalhælisins skal fara í eftirlitsferðir eigi sjaldnar en tvisvar á ári til þeirra stofnana, sem hann hefur eftirlit með. Hann skal árlega gefa landlækni skýrslu um stofnanirnar og oftar, ef tilefni gefst til. Styrktarfélag vangefinna skal eiga aðgang að skýrslum þessum.“

Grg. Ákvæði 1. og 2. málsl. virðast sjálfsögð og þarfnast ekki skýringar. Í sambandi við niðurlag gr. má minna á, að Styrktarfélag vangefinna kann að geta veitt aðstoð varðandi úrbætur, sem taldar eru nauðsynlegar á einhverju hæli, og því ekki óeðlilegt, að félaginu væri veittur þessi réttur.“

Ég tel óþarft að lesa meira úr álitsgerð stjórnar Styrktarfélags vangefinna. Það, sem ég hef lesið, læt ég nægja sem grg. fyrir þeim till., sem hér er um að ræða, og er að finna á þskj. 271.