13.04.1967
Neðri deild: 65. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 974 í B-deild Alþingistíðinda. (671)

5. mál, fávitastofnanir

Frsm. meiri hl. (Axel Jónsson):

Herra forseti. Með frv. því, sem hér er til umr., er að því stefnt að koma betri skipan á þá löggjöf, sem tekur til fávitamála hér á landi. Mál þetta var flutt í Ed. og fékk í hv. heilbr.- og félmn. þeirrar d. ítarlega athugun. Heilbr.- og félmn. þessarar hv. d. hefur haft þetta mál til meðferðar á fundi bjá sér og kynnt sér öll gögn málsins. Núgildandi l. um fávitahæli eru yfir 30 ára gömul. Síðla árs 1965 skipaði heilbrmrh. n. til að endurskoða þessi l. Þremur árum áður en þessi n. var skipuð, hafði að frumkvæði landlæknis verið fenginn hingað yfirmaður málefna vangefinna í Danmörku, sem kynnti sér þessi mál hér og skilaði síðan áliti og hefur n., sem samdi frv. þetta, stuðzt við ábendingar hans við samningu frv. Frv. fjallar meðal annars í fyrsta lagi um fávitastofnanir og vistmenn þeirra, um skiptingu fræðsluskyldu milli heilbrigðisyfirvalda og fræðsluyfirvalda, þegar í hlut á andlega vanþroska fólk og um heimild til að veita félagslega aðstoð.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir einu ríkisreknu hæli, aðalfávitahæli ríkisins, sem skal vera deildaskipt og í senn hjúkrunar-, uppeldis- og kennsluhæli og vinnuhæli. Heimilað er að koma upp útibúum frá aðalhælinu, er hvert um sig ræki tiltekið hlutverk. Veita má sveitarfélögum og einkaaðilum leyfi til að reka fávitahæli og dagvistarheimili fyrir fávita. Allar fávitastofnanir skulu háðar eftirliti frá aðalhælinu, og allar umsóknir um vist á fávitastofnunum skulu berast þangað. Ákvæði um ríkisframfærslu fávita eru tekin upp í frv. og fávitar á dagvistarheimilum geta einnig notið hennar að hluta, að undangengnum sams konar úrskurði og þarf til greiðslu dvalar á fávitahæli. Sérstakt ákvæði er um greiðslu ríkisins á kennslukostnaði á fávitastofnunum, sem ríkið rekur ekki. Ákvæði er um, að skóli skuli rekinn við aðalhælið til að sérmennta fólk til fávitagæzlu. Frv. í heild er miðað við þá þróun, sem gerzt hefur í fávitamálum undanfarið í nágrannalöndunum, en tekið tillit til sérstöðu íslands, hvað fámenni snertir.

Þegar málið var til meðferðar í Ed., fékk heilbr.- og félmn. þeirrar deildar umsögn um frv. frá stjórn Styrktarfélags vangefinna. Í umgetinni umsögn segir, að stjórnin leggi áherzlu á nauðsyn þess, að málið núi fram að ganga á þessu þingi, en bendir jafnframt á nokkur atriði, sem hún óskar breytinga á. Meiri hl. heilbr.- og félmn. þeirrar hv. d. sá sér ekki fært að verða við óskum stjórnar Styrktarfélagsins og d. samþykkir frv. óbreytt.

Herra forseti. Ég legg til, að frv. verði samþ. óbreytt.