16.03.1967
Efri deild: 54. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 979 í B-deild Alþingistíðinda. (692)

149. mál, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Frv. þetta um breyt. á l. um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins er að efni til samhljóða frv. því, sem hér var til umr. næst á undan, og vísa ég til grg. fyrir því. En fjhn. flytur brtt. við frv. á þskj. 338, og efni þeirrar brtt. er það, að starfsmenn sjálfseignarstofnana, sem aðild hafa að lífeyrissjóðnum, njóti í þessu efni sams konar réttinda og aðrir sjóðfélagar. Þessar stofnanir eru m.a. Tryggingastofnun ríkisins, Búnaðarfélag Íslands, Fiskifélag Íslands og Verzlunarskólinn. Má vera, að þær séu einhverjar fleiri, þó að stjórn lífeyrissjóðsins væri ekki kunnugt um aðrar stofnanir en þessar. En fjhn. hefur talið, að eðlilegt væri, að þessir sjóðfélagar nytu í þessu efni sömu réttinda og aðrir. Enn fremur vil ég segja frá því núna við aðra umr. málsins, að áður en þessi deildarfundur hófst hélt fjhn. fund, þar sem ég skýrði frá brtt., sem samkomulag hefur orðið um á milli hæstv. fjmrh. og stjórnar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, að flutt yrði, en till. er þess efnis, að stjórn sjóðsins sé heimilað að taka í tölu sjóðfélaga starfsmenn bæjar-, sýslu- og hreppsfélaga og stofnana, sem heyra þeim til og hafa sérstakan fjárhag, og enn fremur starfsmenn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Hvað þetta síðasta snertir munu vera einn eða tveir fastir starfsmenn í þjónustu Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, en þeir hafa ekki aðgang að neinum öðrum lífeyrissjóði. Þeir, sem viðstaddir voru á þessum fundi fjhn., hafa samþ., að brtt. í samræmi við þetta samkomulag hæstv. fjmrh. og stjórnar BSRB yrði flutt af fjhn. fyrir 3. umr. þessa máls, og mun henni þá verða útbýtt fyrir 3. umr.

Að öðru leyti leggur n. til, að frv. verði samþ. með þeirri breyt., sem ég hef gert grein fyrir.