20.03.1967
Efri deild: 55. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 980 í B-deild Alþingistíðinda. (695)

149. mál, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Þegar ég lagði þetta frv. hér fyrir og gerði grein fyrir því við 1. umr., skýrði ég frá því, að hér væri um að ræða alveg sérstök hlunnindi, sem yrði að túlka mjög þröngt. En eins og hv. þdm. er öllum kunnugt, hagar þannig til, að hér er um verðtryggðan lífeyrissjóð að ræða, og það er ríkissjóður, sem verður að borga verðtrygginguna. Hér er ekki um það að ræða, að það séu þeir aðilar, sem greiða á móti framlögum sjóðfélaga til sjóðsins, heldur er það í öllum tilfellum ríkið, sem verður að standa undir aukakostnaðinum, sem hér um ræðir. Af þessari ástæðu þótti nauðsynlegt að setja um þetta mun þrengri reglur en gilda um rétt manna yfirleitt til þess að vera í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, því að þar gegnir nokkuð öðru máli, þar eð vinnuveitendur greiða sín eðlilegu framlög á móti. Að vísu munu þeir sömu menn að vísu, eins og nú standa sakir, njóta verðtryggingarinnar, en það gildir þó ekki um þá, sem hætt hafa störfum. Einnig er hugsanlegt, að menn hafi hreinlega keypt sér réttindi í lífeyrissjóði og hafi ekki verið samtals í þjónustu ríkísins nema fáein ár, og það verður því að teljast með öllu óeðlilegt, að það séu ekki settar um þetta strangar hömlur. Nú er það alveg rétt, sem hv. 9. þm. Reykv. sagði, að þetta gildir ekki um starfsmenn sveitarfélaganna og ýmsa aðra, sem eiga nú rétt til að vera í lífeyrissjóði. Það er einfaldlega af þessari ástæðu, sem ég sagði áðan, að það þótti ekki fært að ganga það langt að taka á ríkissjóð beinar skuldbindingar í þessu efni, nema hreinlega væri um að ræða starfsmenn ríkisins, sem hefðu verið þá 15 ár samfellt ríkisstarfsmenn eða starfandi, eins og það hefur verið útvíkkað nú, við opinberar stofnanir, þar sem ríkið greiðir á móti framlögum lífeyrisþeganna. Ég tel fyrir mitt leyti ekki auðið að útvíkka þetta meira að sinni. Það kann vel að vera, að rétt sé að athuga þetta, en það er búið að kanna þetta mál mikið í stjórn lífeyrissjóðsins. Ég óskaði eftir, að þeir könnuðu, hvernig hægt væri að forma þetta mál, án þess að sleppa öllum böndum lausum. Niðurstaðan varð sú, að á þessu stigi væri ekki auðið að ganga lengra en að þessu marki, að þetta ætti eingöngu við starfsmenn ríkisins, enda kann það þá að vera spurning, hvort ekki er eðlilegt, að það séu þá sveitarfélögin, sem að einhverju leyti borgi verðtrygginguna, ef það á að koma til að taka inn slíka aðila, þar sem verðtryggingin fellur að öllu leyti á ríkið. Ég er hv. þm. sammála um það, að hér er um nokkra mismunun að ræða, það er alveg rétt, og ég sé ekkert því til fyrirstöðu, að það verði tekið til athugunar, hvernig það megi leysa. En með hliðsjón af því, að ég hygg, að allir séu sammála um það, að svo langt sem frv. nær, sé það þó til bóta, þó að menn kunni að vera óánægðir með það að einhverju leyti, og gera má ráð fyrir að fari að styttast í þingtíma, myndi ég telja óæskilegt að gera við það frekari breyt. en orðið hefur samkomulag um, vegna þess að breyt., sem hv. þm. minnist á, mundi ég ekki telja auðið að fallast á, nema gerð væri á því nánari athugun, hvaða afleiðingar það mundi hafa og hv ort ekki yrði þá óumflýjanlegt að taka inn einnig aðra, sem eiga rétt á að vera í þessum sjóði.