20.03.1967
Efri deild: 55. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 981 í B-deild Alþingistíðinda. (696)

149. mál, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar, að sjóðfélagar, sem eru jafngamlir og njóta yfirleitt sömu réttinda, eigi einnig að njóta sömu réttinda í þessu tilviki. Ég get ekki séð annað en að það sé áberandi ranglæti að hafa tvo sjóðfélaga á sama sjóðfélagsaldri og með sömu sjóðfélagsréttindi, en það sé gert upp á milli þeirra í þessu tilviki. Það er kunn saga, að t.d. frá Reykjavíkurborg hafa komið hinir mætustu starfsmenn, gengið í þjónustu ríkisins og yfirflutt sín sjóðsréttindi, og því skyldu þeir ekki njóta sömu réttinda og aðrir jafngamlir starfsmenn ríkisins? Það gladdi mig þó, að hæstv. ráðh. tók að vissu leyti undir mál mitt og taldi það í sjálfu sér sanngirnismál, þótt hann teldi það ekki tímabært að gera þá breyt. á frv. nú, sem nauðsynleg mundi verða.

Herra forseti. Ég vil nú leyfa mér að bera fram brtt., en hún er því miður skrifleg og of seint fram komin og ég vænti þess, að hæstv. forseti leiti afbrigða. En brtt. mín er við 1. gr. frv. og á þá leið, að efnisatriði gr. orðist á þessa leið: „Hafi hann verið sjóðfélagi 15 ár eða lengur, miðast elli- og makalífeyrir þó við launin, eins og þau eru, þegar lífeyrisgreiðslur byrja.“

Ég vil m.ö.o., að niður sé fellt „í þjónustu ríkisins eða sjálfseignarstofnunar, sem fengið hefur aðild að sjóðnum“. Með þessu hygg ég, að þetta geti náð til allra sjóðfélaga 15 ára og eldri.